Enginn dagur eins í slökkviliðinu

Sigríður Dynja er í slökkviliðinu.
Sigríður Dynja er í slökkviliðinu.

Átakið #kvennastarf hefur vakið mikla athygli að undanförnu. Sigríður Dynja Guðlaugsdóttir er ein af þeim konum sem vinna hefðbundið karlastarf. Sigríður Dynja er 28 ára gömul og vinnur sem slökkviliðs-og sjúkraflutningakona, hún er einnig menntaður einkaþjálfari. Smartland fékk að spyrja hana út í starfið.

Hvað kom til að þú fórst í slökkviliðið?

Það var draumur frá því ég var lítil stelpa að verða annaðhvort dýralæknir eða slökkviliðsmaður. Þegar ég komst að því að ég yrði að lóga dýrum ef ég ætlaði verða dýralæknir hvarf draumurinn um það.

Hvernig kemst maður inn í slökkviliðið?

Það var langt og strangt inntökuferli sem hófst á hlaupaprófi. Þar detta flestir út en við þurftum að hlaupa þrjá kílómetra á undir 13 mínútum. Svo eru lofthræðslupróf og innilokunarkenndarpróf þar sem þú ert alveg blindaður með reykköfunartæki á bakinu og þarft að leysa ýmsar þrautir. Svo voru líka þrek- og styrktarpróf, bekkpressa, róður og fótapressa.  

Eru margar konur í slökkviliðinu?

Við erum tvær konur sem höfum réttindi sem slökkviliðsmenn en við vorum að ráða inn tvær nýjar stelpur í starfið sem munu hefja þjálfun bráðlega. Svo eru fjórar stelpur að vinna á sjúkrabílunum.

Sigríður Dynja við störf.
Sigríður Dynja við störf.

Hvernig hafa strákarnir tekið þér?

Strákarnir hafa nú flestir tekið mér vel. Ég varð auðvitað að vinna mér inn traust og sýna hvað í mér byggi fyrst. Strákarnir sögðu að andinn hefði breyst svolítið eftir að ég kom, þeir voru meira varir um sig og létu ekki allt flakka en það hefur núna vonandi breyst með tímanum.

Hvernig er venjulegur dagur í slökkviliðinu?

Það sem er svo spennandi við starfið er að það er enginn dagur venjulegur. Við mætum á vaktina í algjörri óvissu um hvað dagurinn muni bera í skauti sér. Við vinnum að öllu jöfnu 12 klukkustunda vaktir og sinnum þeim útköllum sem upp koma. Við tökum líka æfingar og förum í líkamsrækt.

Er eitthvað sem þú átt erfiðara með að gera af því þú ert kvenmaður í þessu starfi?

Ég þarf kannski að hafa aðeins meira fyrir vinnunni og leggja harðar að mér. Það getur verið mjög líkamlega erfitt að fara í reykkafanir og klippa bíla með slösuðu fólki. Maður þarf að vera mjög hraustur.

Þú vinnur líka á sjúkrabíl, hvernig er það?

Það er mest að gera hjá okkur í sjúkraflutningunum. Um 80 flutningar á sólarhring. Það er mjög spennandi og fjölbreytt en getur líka verið mjög erfitt, allt á milli þess að flytja sjúklinga á milli spítala til alvarlegra slysa, sjúkdóma og endurlífgana. 

Hefurðu unnið önnur störf þar sem karlmenn eru í meirihluta?

Já, það má alveg segja að ég sæki í þessi „karlastörf“. Ég var að vinna í ruslinu og svo hef ég líka verið á sjó á makrílveiðum og unnið við múrverk með pabba mínum. Það á vel við mig að vinna svona líkamlega vinnu þar sem ég er mikill orkubolti.

Viltu sjá fleiri konur í slökkviliðinu?

Ég vil hvetja allar stelpur til að hafa trú á sjálfum sér og hlusta ekki á neikvæðar raddir um að geta ekki gert hluti eða sinnt ákveðnum störfum vegna kynferðis síns.

Sigríður Dynja vann einu sinni í ruslinu.
Sigríður Dynja vann einu sinni í ruslinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál