Verkfræðin og jógað eiga vel saman

Helga Guðrún Snjólfsdóttir hefur starfað hjá Össuri í 12 ár.
Helga Guðrún Snjólfsdóttir hefur starfað hjá Össuri í 12 ár. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Helga Guðrún Snjólfsdóttir er verkfræðingur að mennt, en hún starfar sem deildarstjóri verkefnastofu upplýsingatæknisviðs Össurar. Deildin hefur yfirumsjón með verkefnum sem snúa að hugbúnaði og viðskiptalausnum, en samhliða því starfar Helga Guðrún einnig sem jógakennari hjá Yoga Shala þar sem hún kennir Ashtanga yoga.

 „Þegar ég var á síðasta ári á tölvubraut í Menntaskólanum í Kópavogi komu tveir verkfræðinemar úr Háskóla Íslands í heimsókn í bekkinn minn til að kynna námið. Ég hafði þangað til ekki velt þessum kosti fyrir mér en þessir verkfræðinemar opnuðu augu mín fyrir hversu spennandi námið var, að nota raunvísindi til að leysa raunveruleg vandamál. Þegar ég svo byrjaði í náminu byrjaði ég strax að njóta mín sem námsmaður á nýjan hátt, fann mig mjög vel í viðfangsefnunum og með samnemendum mínum,“ segir Helga Guðrún, spurð að því hvers vegna hún ákvað að leggja stund á verkfræði.

Hvernig var að vera kona í verkfræðinámi, var þetta mikið karlaveldi þegar þú varst í námi?

„Þegar ég var í náminu var hlutfall kvenna í nemendahópnum að nálgast 20% og hafði verið að aukast og við nemendurnir náðum vel saman á jafningjagrundvelli. Í kennarahópnum var hlutfall kvenna mun lægra og því voru karlar þarna í flestum sætum hvað varðar kennara, og alfarið í stjórnendahlutverkum,“ segir Helga Guðrún.

„Jafnréttismál voru til umræðu á þessum tíma og ég tók meðal annars þátt í verkefni þar sem kvenkyns verkfræðinemar og starfandi verkfræðikonur heimsóttu menntaskóla í pörum til að kynna fagið fyrir stúlkum. Ég upplifði þarna fyrst ákveðinn mun á okkur strákunum og stelpunum að því leyti að við vorum ekki eins ákveðnar þegar kom að því að sækjast eftir störfum og með lægri launakröfur, en það var rætt opinskátt og var lærdómsríkt.“

Þú ert einnig jógakennari, hvernig samræmist þetta tvennt?

„Jóga er ástríðan mín og helsta áhugamál. Ég iðka reglulega og hef gert í fjölda ára. Kennslan sem ég sinni hefur verið um það bil einn fastur tími í viku, og er það nóg samhliða fjölskyldu og vinnu. Mér finnst dýrmætt að fá að kenna það sem ég elska og þykir mjög vænt um tenginguna sem ég fæ við hina nemendurna í Yoga Shala,“ segir Helga Guðrún.

„Á fyrsta ári í verkfræðinni kynntist ég Ashtanga yoga sem ég hef iðkað síðan, en ég hafði verið að prófa jóga frá því ég var 18 ára. Ég hafði alltaf verið mikið fiðrildi og fann strax að jóga gerði mér ótrúlega gott og kom mér í kynni við ótrúlega góða ró, einnig hafði ég verið mikil efahyggju- og raunsæismanneskja og jógað opnaði á fleiri víddir sem mér þóttu spennandi. Mér finnst þetta samræmast mjög vel þó svo að ólíkt sé, ég trúi því að jógaiðkun auðgi lífið á öllum vígstöðvum og líka mann sjálfan sem nemanda eða starfsmann við sitt fag.“

Hvernig kom það til að þú sóttist eftir núverandi starfi hjá Össuri?

„Nú er ég í þriðja starfi mínu á 12 ára starfsferli hjá Össuri. Fyrsta starfið mitt fékk ég þegar ég kom heim úr framhaldsnámi við háskóla á Englandi, og þá sem framleiðsluverkfræðingur. Fljótlega var ég komin á kaf í upplýsingatækniverkefni og fluttist því í spennandi starf á upplýsingatæknisviði þremur árum síðar. Fyrir þremur árum voru síðan skipulagsbreytingar hjá okkur og ég sóttist eftir stjórnunarstarfi í nýju skipulagi, en ég var mjög spennt fyrir því að færast úr starfi sérfræðings og verða þáttakandi í stefnumótun fyrir upplýsingatæknisviðið sem ég þekkti orðið vel og hafði hugmyndir um hvernig mætti gera enn betur.“

Helga Guðrún er einnig jógakennari, en hún segir verkfræðina og …
Helga Guðrún er einnig jógakennari, en hún segir verkfræðina og jógað passa vel saman. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hvað gefur vinnan þér?

„Það er ótrúlega margt, ég vinn með ótrúlega góðum hópi af fólki í flottu fyrirtæki sem framleiðir vörur sem auka lífsgæði fólks. Í starfinu get ég svo nýtt vel minn bakgrunn í tæknigrein, sem og mína styrkleika eins og mannleg samskipti, skipulagshæfni, að sjá stóru myndina og vera óhrædd við að taka ákvarðanir og hafa áhrif.“

Finnst þér konur þurfa að hafa meira fyrir því að vera ráðnar í stjórnunar- og ábyrgðarstöður en karlmenn?

„Já mér finnst konur þurfa að hafa meira fyrir því að sækjast eftir því og vera ráðnar í stjórnunar- og ábyrgðarstöður en karlmenn. Þetta er stór spurning og ekkert eitt einfalt svar og þegar ég steig mín fyrstu skref á vinnumarkaði trúði ég því að með einstaklingsframtakinu væri hægt að leiðrétta stöðu kynjanna smátt og smátt á vinnumarkaði. Ég var svo ekki búin að vera lengi á vinnumarkaði þegar viðhorf mitt byrjaði að breytast mikið, og í dag sé ég hversu langt við eigum í land. Það er svo mikið af óáþreifanlegri hlutdrægni gagnvart kynjunum innra með okkur öllum, konum og körlum, sem virðist gera mörgum konum erfiðara fyrir á vinnumarkaði. Til þess að raunveruleg breyting eigi sér stað þurfa allir að leggjast á eitt og hugsa stærra en bara sem einstaklingur, að okkar val og orðræða hefur áhrif.“

Áttu þér einhverja kvenfyrirmynd?

„Mamma mín hefur alltaf verið mér fyrirmynd, hún átti flottan starfsferil þar sem hún nýtti fagþekkingu sína og reynslu ásamt mörgum persónulegum styrkleikum. Hún sinnir líka fjölskyldu og áhugamálum sínum af hug og hjarta og kenndi mér að rækta líkamann eins og þá einstöku gjöf sem hann er.“

Ertu með hugmynd um hvernig má útrýma launamun kynjanna?

„Ég tel það vera ótal þætti sem stuðla að launabili kynjanna, og ekkert eitt getur breytt því. Djúpstæð viðhorf gagnvart kynjunum þurfa að breytast og tel ég að kynjafræðsla í skólakerfinu gæti hjálpað þar, gagnrýnin umræða um staðalímyndir og að við leggjumst öll á eitt að tala óhrædd um það þegar við verðum vitni að skakkri umræðu,“ segir Helga Guðrún.

„Sem barnshafandi kona er mér fæðingarorlof hugleikið og þátttaka feðra í því. Ég spyr mig hvort þeir fái næga hvatningu og stuðning af vinnuveitendum til að taka það orlof sem þeir eiga rétt á. Einnig sem stjórnandi set ég spurningarmerki við karla í sömu stöðu sem taka lítið eða ekkert fæðingarorlof, hvaða skilaboð sendir það undirmönnum þeirra, bæði konum og körlum? Nú eða öðrum stjórnendum?“

Hvernig skipuleggur þú daginn?

„Í dagskránni minni í Outlook er mitt skipulag, mér finnst mikilvægt að bóka sjálfa mig á reglulega fundi til að sinna mikilvægum verkefnum og tryggja að skipulagið haldist í mínum höndum, en fyllist ekki af fundum. Mér finnst best að skoða dagskrá morgundagsins að kvöldi til að setja mig í stellingar fyrir næsta dag.“

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Dagurinn hefst alltaf á því að skafa tunguna með tungusköfu og bursta tennurnar, drekka svo vatnsglas og þar á eftir einn kaffibolla. Að öðru leyti er morgunrútínan frekar frjálsleg og mér finnst mjög ljúft þegar gefst einhver gæðatími með börnunum, þó að þetta sé stundum bara kaos. Venjulega er þarna jógaæfing eftir kaffibollann en nú þegar ég á von á barni er jógaæfingin bara tekin eftir hentugleika og orkustigi.“

Nærðu að vinna átta klukkustunda vinnudag, eða teygist hann stundum fram á kvöld?

„Ég er heilt yfir með lengri vinnudag en 8 klukkustunda og finnst óraunhæft að sinna starfinu vel öðruvísi. Síðustu mánuði hef ég verið í skertu vinnuhlutfalli í kjölfar veikinda og finn að það dugir ekki til að sinna starfinu eins og ég best vildi.“

Hefur þú átt það til að ofkeyra þig, og ef svo er hvernig hefur þú brugðist við?

„Í gegnum tíðina hef ég nýtt jóga, hugleiðslu, hreyfingu og gott mataræði til að halda mér í jafnvægi og gengið ágætlega. Síðastliðið haust lenti ég samt í að keyra mig alveg út og þar kemur ýmislegt til en helst þó að hafa ekki þekkt mín mörk nægilega vel. Ég var að gera mjög mikið á mörgum vígstöðvum og á endanum gaf kerfið sig. Ég þakka allri reynslunni úr jóganu fyrir að hafa getað tekið þessu verkefni með nokkru æðruleysi og horfst í augu við veikindin, tekið mér frí frá vinnu og vandað mig við endurhæfinguna.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?

„Að vera með fjölskyldunni minni, stunda jóga og fjallahjólreiðar. Svo auðvitað borða góðan mat og hitta vini. Svo er mikilvægt (og krefjandi fyrir mig) að gera ekkert, bara vera.“

Hvað ætlar þú að gera skemmtilegt í sumarfríinu?

„Ég á von á mínu þriðja barni í ágúst þannig að sumarið verður litað af því. Við reiknum með að vera mikið heima við og hanga saman ég og börnin, verður ekki örugglega æðislegt veður?“ segir Helga Guðrún að endingu.

Helga á von á sínu þriðja barni í haust og …
Helga á von á sínu þriðja barni í haust og mun því sumarið litast af því. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál