Hvernig er hægt að spara með þessi laun?

mbl.is/ThinkstockPhotos

Edda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi svarar spurningum lesenda um peninga. Hér er hún spurð að því hvernig hægt sé að leggja fyrir því launin eru svo lág. 

Sæl Edda, 

Mér finnst ég ekki geta lagt fyrir því ég er með lægri laun en ég vil vera með. Ég lifi frá mánuði til mánaðar og set mér ekki fjárhagsleg markmið. Mig langar að leggja fyrir en veit ekki hvernig ég á að byrja. 

Kær kveðja, KJ

Edda Jónsdóttir, leiðtogamarkþjálfi hjá Edda Coacing.
Edda Jónsdóttir, leiðtogamarkþjálfi hjá Edda Coacing. Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir

Sæl, KJ

Peningaáskorunin sem þú stendur frammi fyrir gæti virst tvíþætt. Annars vegar að koma þér út úr því munstri að lifa frá mánuði til mánaðar og hins vegar það að byrja að leggja fyrir. Ég mundi þó segja að lausnin við báðum áskorunum fælist í því að leggja fyrir. 

Köfum aðeins dýpra í þetta

Það eru margir fastir í því að lifa frá mánuði til mánaðar. Ein af ástæðunum getur verið sú að fólk fær útborgað, greiðir reikningana og lifir svo á kreditkortinu sínu til næstu mánaðamóta. Þetta er algengt peningamunstur sem margir eru fastir í og upplifa jafnvel að sjá ekki útgönguleið. Það er erfitt að ætla sér að „klippa kortið“ því hvernig ætlar maður þá að eiga fyrir salti í grautinn þann mánuðinn? 

Þegar fólk er fast í því að lifa frá mánuði til mánaðar finnst því oft að það að leggja fyrir sé aftarlega á forgangslistanum. Hins vegar er það svo að til að koma sér út úr munstrinu, getur lausnin einmitt falist í því að byrja að leggja fyrir. Reglan er sú að margt smátt gerir eitt stórt. Svo fyrst þarf að skoða neyslumynstrið og lækka kreditkortareikninginn eins og mögulegt er. Ef þú ert til í að taka tímabil þar sem þú lifir eins sparlega og þú getur, áttu að geta leyst þetta fyrir fullt og allt – og farið að leggja fyrir! Einnig gæti komið til greina að hækka tekjurnar – þó ekki væri nema tímabundið. Það virkar þó ekki eitt og sér sem lausn því öll þurfum við að skoða peningahegðunina okkar heildstætt ef við ætlum að smíða sjálfbærar lausnir til framtíðar. Þetta á við um peningamálin alveg eins og heilsu okkar, mataræði og allt annað. 

Svona gætirðu farið að: 

Mánuður 1: Lækka kreditkortareikninginn

Mánuður 2-6 (eða eins lengi og nauðsynlegt er): Leggja fyrir það sem sparast við að lækka kreditkortareikninginn, þar til þú ert komin/n með þá upphæð sem þú þarft til að geta lifað af mánuðinn án þess að nota kortið þitt. 

Hagnýt ráð: 

Þegar þú ert komin/n með sjóð til að geta lifað fyrsta mánuðinn án kreditkortsins geturðu sótt um fyrirframgreitt kort hjá bankanum þínum eða kreditkortafyrirtækinu. Þau virka alveg eins og hin – nema það kemur enginn reikningur eftir á! 

Ef þú hefur einhvern tíma lagt fyrir væri gott að rifja upp hvernig þér tókst það. Einnig er gott að rifja upp tilfinninguna sem þú upplifðir samfara því að eiga sjóð. Mörgum reynist auðveldara að safna fyrir einhverju ákveðnu heldur en að leggja fyrir án þess að hafa skilgreint markmið í huga. Skrifaðu niður hvað er þess virði að safna fyrir og settu þér svo skýr sparnaðarmarkmið. Fáðu ráðgjöf hjá bankanum þínum um hvaða sparnaðarleiðir eru í boði. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Eddu spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál