Settu þér fjármálamarkmið fyrir haustið

Edda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi.
Edda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi. Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir

„Ef þú hefur ekki tamið þér að setja markmiðin þín í fjárhagslegt samhengi er tilvalið að nota tækifærið nú þegar haustið er gengið í garð,“ segir Edda Jónsdóttir, leiðtogamarkþjálfi hjá Edda Coaching, í sínum nýjasta pistli: 

Draumur eða markmið?

Byrjum á að tala aðeins um muninn á draumum og markmiðum. Markmið verða til úr draumum. Við fáum hugmynd og byrjum að láta okkur dreyma um að eitthvað geti orðið að veruleika í lífi okkar. En til þess að svo megi verða, þurfum við að ganga skrefinu lengra. Við þurfum að draga drauminn niður úr skýjunum, horfast í augu við hann og búa til áætlun um hvernig við ætlum að láta hann verða að veruleika. Napoleon Hill orðaði það skemmtilega þegar hann sagði að markmið væru draumar með dagsetningu.

Hvað skiptir þig máli?

Markmiðasetning er markviss aðferð til að taka stjórnina í lífi sínu. En hún er ekki síður leið til að læra að sleppa tökunum á því sem skiptir ekki máli eða við getum ekki breytt.

Markmiðasetning er forgangsröðun og hún er skuldbinding. Þú spyrð þig: Hvað skiptir mig svo miklu máli að ég er tilbúin/n að forgangsraða til þess að það geti orðið að veruleika? Svo býrðu til áætlun um hvernig þú ætlar að hrinda því í framkvæmd.

Hvað dreymir þig um?

Ferðast?

Eignast húsnæði?

Kosta börnin þín til náms?

Stofna fyrirtæki?

Láta gott af þér leiða?

Verða skuldlaus?

Bæta við þig þekkingu?

Skipta um starfsvettvang?

Fjármálatengd markmiðasetning

Þegar þú hefur skilgreint hvað er þess virði að þú forgangsraðir lífi þínu þannig að það geti orðið að veruleika, er gott að átta sig á verðmiðanum.

Tökum dæmi um konu sem er í föstu starfi en hefur sett sér það markmið að stofna fyrirtæki. Áður en hún stígur skrefið og segir starfi sínu lausu, setur hún sér markmið að leggja fyrir svo hún eigi fyrir lifikostnaði í sex mánuði á meðan hún setur fyrirtækið á laggirnar.

Fyrst reiknar hún út hversu mikið hún þarf að leggja fyrir. Því næst brýtur hún markmiðið niður þannig að hún geti lagt ákveðna upphæð fyrir á mánuði og þannig náð settu marki á tilteknum tíma.

Hún fer auk þess yfir fjármálin sín og ákveður að lækka lifikostnað til frambúðar með því að endursemja og jafnvel skipta um þjónustuaðila. Konan ákveður í framhaldi af því einnig að einfalda lífstíl sinn, minnka við sig húsnæði og selur auk þess hluta af búslóðinni sinni.

Sömu aðferð má nota til að setja sér önnur fjármálamarkmið eins og að lækka yfirdráttinn, hætta að lifa á krítarkortinu, greiða niður skuldir og byrja að leggja fyrir.

Áskorun – jólasjóðurinn

Ég skora á þig að spreyta þig í gerð fjármálamarkmiða og leggja fyrir þannig að þú eigir fyrir jólunum í ár. Ef þú hefur ekki hugmynd um hvað það kostar þig að halda jól, geturðu byrjað á að finna kreditkortareikninginn frá því eftir jólin í fyrra eða flett upp yfirlitinu á tékkareikningnum þínum í bankanum.

Þegar upphæðin hefur verið afhjúpuð, geturðu tekið afstöðu til þess hvort þetta sé upphæð sem þú kærir þig um að eyða í ár eða hvort þú vilt lækka eða jafnvel hækka hana. Skiptu svo upphæðinni í fjóra hluta og gerðu áætlun um hvernig þú ætlar að leggja fyrir til að eiga fyrir jólunum. Mundu að þú gætir þurft að lækka kostnaðinn á öðrum sviðum til að mynda svigrúm svo hægt sé að leggja fyrir. Góða skemmtun!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál