Heimsmeistarar í sparnaði?

Edda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi.
Edda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi. Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir

„Margir láta sig dreyma um að leggja fyrir en koma því ekki í verk. Aðrir setja sparnað í forgang og eiga alltaf fyrir öllu. Enn aðrir leggja fyrir en falla svo í þá gryfju að nota svo peningana sem þeir höfðu lagt fyrir í eitthvað annað en ætlunin var. Þeir sömu gefast þá gjarnan upp og sitja uppi með þá trú að þeim sé hreinlega ómögulegt að spara,“ segir Edda Jónsdóttir, leiðtogamarkþjálfi hjá Edda Coaching, í sínum nýjasta pistli: 

Ekki sparnaðarþjóð

Þrátt fyrir að við séum heimsmeistarar í mörgu og ofarlega á listum yfir methafa í öðru, erum við ekki sparsamasta þjóð í heimi. Þegar alþjóðlegar tölur um sparnað þjóða eru skoðaðar kemur í ljós að fólk á Íslandi er upp til hópa ekki mjög duglegt að leggja fyrir. Sumir hugsa sem svo að lífeyrissparnaðurinn dugi og auðvitað séreignasparnaðurinn. En liggja þarna flóknari ástæður að baki?

Spara bara?

Á undanförnum árum hef ég orðið þess heiðurs aðnjótandi að fá að greina peningapersónugerðir hjá dágóðum hópi fólks. Samkvæmt fræðunum sem liggja að baki greiningunni eu peningahegðun og viðhorf fólks til peninga til grundvallar.

Eitt af því sem hefur komið í ljós er að fæstum peningapersónugerðum er það eðlislægt að spara. Peningahegðun meirihlutans helgast fremur af þránni til að eignast hluti og nota peninga sjálfum sér og öðrum til gagns og gamans. Það er því ekkert bara – að spara, ef svo má að orði komast.

Að sumu leyti má segja að þetta séu góðar fréttir, því efnahagskerfið byggist mikið til á því að við notum peningana okkar. Hin hliðin er sú að varasjóður getur veitt mörgum okkar töluverða öryggiskennd. En hvernig getum við hafist handa og hvað er í boði fyrir þá sem vilja spreyta sig á sparnaði?

Misjafnar leiðir henta ólíkum einstaklingum

Ég er ekki fjármálaráðgjafi heldur sérhæfð í að greina peningahegðun og viðhorf fólks til peninga. Frá þeim sjónarhóli hefur gefist tækifæri til að sjá og reyna hvaða leiðir henta ólíkum einstaklingum þegar sparnaður er annars vegar.

Það eru ýmsar sparnaðarleiðir í boði hjá bönkum og fjárfestingarfyrirtækjum. Allt frá því að leggja inn á bók upp á gamla móðinn upp í að stunda verðbréfaviðskipti (sem sumir flokka sem áhættufjárfestingar). Nú svo er auðvitað hægt að stinga peningunum undir koddann eða læsa þá inni í peningaskáp en þess ber að geta að hvorug þeirra leiða gefur ávöxtun.

Hvaða leið sem þú ákveður að fara er fyrsta skrefið að setja sér markmið og standa við það.

Að taka peninga úr umferð

Það getur reynst kvíðvænlegt að taka peninga úr umferð og ákveða að leggja þá fyrir eða fjárfesta fyrir þá einhverjum hætti. Sumum þykir það óhugsandi og kjósa frekar að hafa aðgang að peningunum sínum. Þá er hættan þó sú að ávöxtunin sé minniháttar og ef til vill verður freistingin yfirsterkari þegar peningarnir geta orðið að gagni, sem gerist oftar en ekki.

Sjálfri hefur mér gefist best að taka peningana úr umferð með því að læsa þá inni á hávaxtareikningi sem bankinn hefur umsjón með. Ég viðurkenni þó fúslega að þetta geri ég aðeins með ákveðinn tilgang í huga og hann er sá að safna fyrir einhverju sem ég þrái að eignast.

Margir af viðskiptavinum mínum hafa góða reynslu af verðbréfaviðskiptum auk þess sem velflestir nýta sér þjónustu netbankanna sem bjóða viðskiptavinum að stofna reikninga að eigin vali.

Ég geng hvorki erinda banka né verðbréfafyrirtækja, heldur ber hag hins almenna borgara fyrir brjósti. Því vil ég hvetja þig lesandi góður til að líta í eigin barm og svara því af hreinskilni hversu mikilvægt þér þykir að leggja fyrir – á skalanum 1-10, þar sem 10 er hæst. Ef talan er hærri en 8 er næsta skref að þú kynnir þér þær sparnaðarleiðir sem eru í boði. Ef þig rekur í strand gæti verið ráð að þú kynntist peningapersónugerðunum þínum og uppgötvaðir leiðir til að skoða samband þitt við peninga í nýju ljósi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál