Að vera andlegur í heimi rökhyggjunnar

Eva H Baldursdóttir er ein af þeim sem vekur eftirtekt hvar sem hún kemur. Hún er lögfræðingur og varaborgarfulltrúi og vinnur í Fjármálaráðuneytinu. Hér gerir hún upp árið, talar um fallegasta augnablikið og það sem máli skiptir í lífinu.

Hvernig hafa jólin verið?

„Jólin voru góð. Full af kærleik, mat, gleði og leti.“ 

Hver var hápunktur ársins?

„Árið var mjög viðburðarríkt og skemmtilegt. Ég fór í mörg ferðalög og naut lífsins. Það eru margar stundir á árinu sem telja allar hápunkti ársins, eldseramóníur á Indlandi, fjölskyldutími á Spáni, rólegheit heima við í hýðinu, í faðmlögum, í góðra vina hópi o.s.frv. Svo átti ég ótalmargar yndislegar stundir í náttúrunni, m.a. upp á fjöllum, í fótabaði út á Gróttu, skíðum, horfandi yfir hafið um landið allt sem rifjast upp í fljótu bragði af ógleymanlegum stundum.“

 Hvaða manneskja hafði mestu áhrifin á þig á þessu ári?

„Ég er svo óendanleg rík þegar kemur að fólki í mínu lífi, sem er alltaf að kenna mér eitthvað nýtt og hafa góð áhrif. Ætli sonur minn eigi samt ekki vinninginn, heppin að fá að vera mamma hans. Að öðrum ólöstuðum, færði lífið mér á þessu ári yndislega manneskju sem færir mér mikla hlýju í hjartað, gleði og þroska inn í líf mitt. Þakklát fyrir það.“

 Áramótaheit 2018?

„Ætli það sé ekki að halda áfram því sem ég hef verið að gera: vera í núinu, meira hjarta, slaka meira, njóta lífsins og leika, hlæja fullt, gefa af mér, þakka og elska.“

Uppáhaldslagið þitt á árinu?

„Ég er mikil áhugamanneskja um tónlist og það er erfitt að velja eitt úr hafsjó góðrar tónlistar. Ég fékk að sjá Depeche Mode live í sumar í Berlín og rætist þar ákveðin draumur, lifandi flutningur af Home, A Question of lust og Personal Jesus stóð uppúr. Into the Mystic með Van Morrison var svo mikið “feel good” í ár.“

Uppáhalds vefsíðan þín?

„Fréttaveiturnar. Innlendar og erlendar.“

Fallegasta augnablik ársins?

„Ég er búin að vera safna fallegum augnablikum á árinu þegar ég hugsa yfir þennan tíma. Lífið er náttúrulega svo ólýsanlega fallegt í öllum sínum blæbrigðum! Allar einföldu litlu stundirnar í kyrrðinni, þegar maður týnir sér í gleði barnsins síns, fegurð náttúrunnar, tónlistar, bókmennta eða syndir í augum þeirra sem manni þykir vænt um og svo framvegis. Þessum augnablikum hefur fjölgað mjög í mínu lífi með að færa meiri meðvitund inn í lífi mitt, reyna að minnka alvarleikann (tökum þessu stundum öllu of alvarlega), fara meira inn í hjartað og velja viðhorfin.“

 Mest krefjandi verkefni ársins?

„Heilt yfir finnst mér lífið mitt mjög gjöfult, þó það séu álagspunktar hér og þar. Oft er það þannig að það sem er mest krefjandi skilar mestum lærdóm og mér er hætt að finnast krefjandi vont nema þá tímabundið. Sum samskipti voru krefjandi. Langar hugleiðslur voru krefjandi. Vinnan og pólitíkin skemmtilega krefjandi. Þá átti ég stund þegar ég var að hlaupa 24 km utanvegahlaup í 4 stiga hita um hásumar, grenjandi rigningu og slagviðri sem var andlega og líkamlega erfitt. Leið líka eins og ég hefði unnið mannlegt þrekvirki þegar það kláraðist. Hreint æðislegt.“

Þakklæti ársins?

„Hátíðarnar hafa þau áhrif á mig að ég fer aðeins yfir árið og tek stöðuna og heilt yfir er ég afar þakklát fyrir árið. Raunar er það þannig að ég sé fyrir mér bleik neonskilti ÞAKKLÆTI blikkandi í hástöfum, eins og ég heyrði einhver staðar um daginn. Svo ótal margt að þakka fyrir. Þakklát æðri mætti fyrir að gefa mér óendanlega mikið, þakklát fólkinu mínu og mínum ferðafélögum fyrir að vera yndisleg og sjálfri mér fyrir að vera svona æðisleg oftast. Að ónefndu fólkinu sem sinnir óeigingjörnu starfi við að bæta heiminn á hverjum tíma, er hugrakkt við að taka slaginn, bara svo eitthvað sé nefnt. Áfram þið.“

 Eitthvað að lokum?

„Sumir eiga erfitt um jólin og verða aðeins meyrir. Allt er það eðlilegt. Jólin eru enda andleg hátið og það er gott að vera soldið andlegur í heimi rökhyggjunnar, leyfa sér að finna til á þessum tíma, jákvæðar og neikvæðar tilfinningar. Knúsið meira og gefið meira af ykkur yfir áramótin. Meira mildi, hjarta, þakka meira. Það er aldrei of mikið af því. Mesti galdurinn er að njóta nú-sins, mikill galdur í einfaldleika sínum en best þegar maður nær því, er ekki í fortíð né framtíð heldur bara í stundinni. Þar eru sjaldan vandamál. Merkilegasta af öllu því sem ég hef lært í lífinu hingað til og er alltaf að æfa mig í að vera betri þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál