„Sundið er algjört aðalatriði í lífi mínu“

Áslaug Friðriksdóttir fer í sund á hverjum degi.
Áslaug Friðriksdóttir fer í sund á hverjum degi. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Áslaug Friðriksdóttir sækist eftir fyrsta sætinu í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Áslaug á það til að vinna allt of mikið en er nú búin að finna ráð til þess að halda sér í góðu formi. 

Af hverju fórstu í pólitík?

„Ég hef einlægan áhuga á stjórnmálum og finnst að sjálfstæðisstefnan eigi mikið erindi við samfélagið í dag. Ég hef alltaf verið mjög pólitísk enda alin upp á pólitísku heimili. Þar var líf og fjör enda pabbi fyrst þingmaður og svo ráðherra. Ég veit ekki hversu mörgum sinnum ég hef síðan ég var krakki gengið og borið út prófkjörs og kosningabæklinga í hverfin í Reykjavík. Þegar ég fékk símtal fyrir nokkrum árum þar sem mér var boðið að taka sæti á lista var því ekki erfitt fyrir mig að segja já. Upp frá því var ég komin á fullt inn í pólitíkina og hef verið síðan.“

Skiptir máli að vera kona í pólitík?

„Það skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli að konur til jafns við karla sækist eftir því að vera í pólitík. Það verður þó að hafa talsvert harðan skráp til að halda þetta út því pólitíkinni fylgir alltaf mikill ágreiningur og gagnrýni. Þó að það sé ekki algilt, forgangsraða konur og karlar ólíkt og leggja mismunandi áherslur og því er mikilvægt að raddir beggja heyrist.“

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?

„Þegar ég var 6 ára ætlaði ég að verða kennari. Amma mín var skólastjóri og mér fannst hún flottasta kona í heimi.  Þegar að því kom að því að fara í Háskólann var það sálfræðin sem heillaði mig og í framhaldi tók ég meistaragráðu í Vinnusálfræði í Englandi. Ég sé ekki eftir því enda sálfræðin er alveg gríðarlega spennandi fag.“

Fannst þér þú upp­skera á ein­hverj­um tíma­punkti að þú vær­ir búin að ná mark­miðunum þínum?

„Tja, ég viðurkenni að ég er frekar sjaldan að pæla í því. Þegar einu markmiði er náð er annað komið í staðinn. Líklega mætti ég gefa mér meir tíma til að staldra við og átta mig á að ég hef náð fjölmörgum markmiðum.“

Hvað gef­ur vinn­an þér?

„Ég er alveg rosalega gamaldags. Ég var mikið hjá afa mínum á Vestfjörðum og vann í fiski sem unglingur, þar snerist allt um það að vera nógu duglegur að vinna. Ekkert var jafn mikilvægt og það. Þannig að við systurnar hömuðumst myrkranna á milli, í fiski á daginn og annað á kvöldin og tókum öllum helgarvinnum sem buðust. Þetta mótaði mig sem manneskju.“

Hef­ur þú átt það til að of­keyra þig, og ef svo er, hvernig hef­ur þú brugðist við því?

„Ég nota sumarfríin til að vinna enda haldin þeirri ólæknandi bakteríu að gera upp gömul hús. Einu sinni kom ég heim að hausti og fann að hamagangurinn hafði tekið sinn toll. Ég leitaði til vinkonu minnar sem er nuddari sem tók mig í gegn. Lét mig fara á vítamínkúr og skipaði mér að fara í sund á hverjum degi. Aldrei þessu vant þá hlýddi ég henni og er nú í fínu formi.“

Viktor Orange, Áslaug Friðriksdóttir og Sirrý Hallgrímsdóttir.
Viktor Orange, Áslaug Friðriksdóttir og Sirrý Hallgrímsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Finnst þér kon­ur þurfa að hafa meira fyr­ir því að vera ráðnar stjórn­end­ur í fyr­ir­tækj­um en karl­menn?

„Já, er það ekki augljóst miðað við stöðuna á vinnumarkaði.“

Áttu þér ein­hverja kven­fyr­ir­mynd?

„Ég er ekki sérstaklega fyrirmyndardrifin, ég verð að viðurkenna það. Hins vegar eru ekkert smá flottar konur allt í kringum mig. Mér finnst aðalatriði að vera sátt við sjálfa mig en reyna ekki að vera einhver önnur en ég er.“

Ertu með hug­mynd um hvernig er hægt að út­rýma launamun kynj­anna fyr­ir fullt og allt?

„Stjórnendur verða að taka það mjög alvarlega að vinna gegn óútskýrðum launamun. Vilji og viðhorf stjórnenda eru þar lykilatriði. Umhugsunarvert er að konur velji sér í miklu meira mæli en karlar að sinna störfum hjá hinu opinbera þar sem minna svigrúm er til að semja sjálfstætt um laun. Ég vil sjá konur taka meira frumkvæði og sækja fram á þessum vettvangi, taka að sér rekstur í opinberri þjónustu og breyta þessu.“

Hvernig skipu­legg­ur þú dag­inn?

„Mitt líf stýrist af „todo“ listanum mínum.“

Hvernig er morg­un­rútín­an þín?

„Vakna, sund, kaffi, vinna. Sundið er algjört aðalatriði í lífi mínu.“

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnu­dag eða teyg­ist vinnu­dag­ur­inn fram á kvöld?

„Ég hef aldrei vitað hvað átta stunda vinnudagur er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál