Getur ekki bara setið á rassinum og beðið

Erna starfar sem áhrifavaldur.
Erna starfar sem áhrifavaldur.

Erna Kristín Stefánsdóttir vinnur fyrir sér sem áhrifavaldur með því að blogga á Króm ásamt því að vera virk á samfélagsmiðlum undir nafninu Ernuland. Erna er ekki sammála því að áhrifavaldar fái vörur og þjónustu fría þar sem töluverð vinna liggur að baki því sem þeir gera en í hverju felst vinnan?

„Þú þarft náttúrulega að vera með miðil sem er með miklu fylgi og það fer mikil vinna í það að byggja upp svona miðil hvort sem það er Snapchat, fylgjendahópur á bloggi eða á Instagram. Það er vinna að fá fylgjendahóp sem tekur mark á þér,“ segir Erna sem segir að það sé undir áhrifavaldinum komið hvort hann sé marktækur. Hvort ætlar hann að auglýsa allar vörur sem honum eru gefnar eða velja vörurnar vel?  

Vinnan felst þó ekki bara í því að halda úti vinsælu bloggi eða halda í fylgjendurnar á samfélagsmiðlum. „þú þarft að skila réttum upplýsingum um vöruna, þú þarft að segja hvað það er við vöruna sem þú fílar og hvað er það sem hentar þér. Svo er mikilvægt að taka fram að þú sért að auglýsa.“

Eru ekki að sníkja vörur

„Þeir sem eru raunverulega að vinna við samfélagsmiðla þeir eru ekkert að sníkja fríar vörur. Þeir vanalega taka ekki við vörum nema að fá greiðslu. Því við lifum ekkert á fríum vörum,“ segir Erna. Hún bendir á að það sé undir fyrirækjum komið að kanna þá áhrifavalda sem það treystir fyrir vörum sínum.

Erna gerir greinarmun á gjöf og samstarfi. Gjafirnar fær hún kannski sendar heim til sín, engin skilyrði eru sett um auglýsingu og Erna vekur athygli á vörunni ef henni finnst hún góð. „Ég tek fram að þetta sé gjöf, gjöf er aldrei það sama og samstarf. Þarna er ég ekki að fá greitt fyrir að gera þetta. Ég hef líka fengið gjafir sendar sem fóru beint upp á hillu eða ég gaf mömmu þær af því þær hentuðu mér ekki,“ segir Erna.

Vinnur fyrir sér sem áhrifavaldur

Erna er í námi meðfram því að vera áhrifavaldur og er nú svo komið að hún borgar alla sína reikninga með tekjum sem hún fær fyrir samstarf á blogginu og samfélagsmiðlum.  Hún segir vinnuna vera snilld enda í námi og með lítið barn. Hún þarf þó að vera sniðug til þess að láta enda ná saman og hefur stundum sjálf samband við fyrirtæki sem hún vill vinna með og auglýsa vörur fyrir.

„Þetta er náttúrulega atvinnuvettvangur og ef þú vilt starfa á samfélagsmiðlum og þetta eru þínar tekjur þá augljóslega getur þú ekki bara setið á rassgatinu og beðið eftir að fyrirtæki hafi samband við þig. Þú þarft að þéna ákveðnar tekjur, eins og við öll þurfum að gera, þetta er bara vinna. Þú sendir viðskiptahugmynd og annaðhvort hefur fyrirtækið áhuga eða ekki.“

„Þrátt fyrir að þessir miðlar séu mín tekjulind þá eru auglýsingar og samstörf klárlega í minnihluta a móti öllu öðru sem ég geri á miðlinum.“

Frumkvæðið borgar sig

„Ég er það heppin að sem betur fer hafa fyrirtæki samband svo ég þarf ekki mikið að hafa samband. Ég hef þó oft haft samband af fyrra bragði og fengið mín stærstu samstörf þannig. Ég er með ákveðna viðskiptahugsjón sem ég býð fram og þau fíla það. Þannig koma mín helstu atvinnutækifæri þegar ég býð fram að fyrra bragði,“ segir Erna. 

„Þegar fyrirtæki biðja mig um eitthvað þá eru þau sjálf með eitthvað ákveðið dæmi. Það er kannski ekki mín stærsta tekjulind en ég gríp það ef það hentar af því ég þarf að kaupa í matinn,“ segir Erna sem samþykkir þó ekki allt, hún hefur til dæmis verið beðin um að auglýsa kjötvörur sem hún var ekki til í.

„Allir verktakar vita að sumir mánuðir eru betri en aðrir. Maður þarf að vera svolítið klókur og leggja til hliðar ef maður fær meira einn mánuðinn af því það geta komið mánuðir eins og desembermánuður. Þá eru fyrirtæki rosalega mikið að gefa í góðgerðarmál og eru ekki mikið að taka svona verkefni að sér. Þá þarf maður að vera búinn að leggja fyrir og áætla að desember verði ekki tekjuhæsti mánuðurinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál