Vinnur 10-16 tíma á dag

Vilhjálmur Bjarnason.
Vilhjálmur Bjarnason. Ljósmynd/Bragi Þór Jósefsson

Vilhjálmur Bjarnason gefur kost á sér í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Hann er kvæntur Auði Maríu Aðalsteinsdóttur og eiga þau tvær dætur, Huldu Guðnýju og Kristínu Mörtu sem eru 36 ára gamlar. Vilhjálmur lauk námi í hagfræði frá Háskóla Íslands og framhaldsnámi í viðskiptafræðum í Rutgers-háskóla í New Jersey en stúdentsprófið kom í Hamrahlíðinni 1972. Vilhjálmur var alþingismaður en er nú sjálfstætt starfandi í rannsóknum á mörkum viðskiptafræða og bókmennta. 

Hvers vegna sækist þú eftir að verða oddviti?

„Ég tel að ég geti þjónað Reykvíkingum og borginni með reynslu minni og þekkingu. Ég hef alltaf haft mikinn metnað fyrir umhverfi mitt.“

Hvernig hefur ferill þinn verið?

„Ég starfaði í Útvegsbanka Íslands, útibústjóri í Vestmannaeyjum á erfiðum tíma, þó ekki strax eftir gosið. Svo hef ég kennt í Iðnskólanum og í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Síðustu 4 ár var ég alþingismaður. Samhliða þessu hef ég sinnt hugsjón minni um frelsi mannsins, að maðurinn verði fjárhagslega sjálfstæður með því geta átt sparifé til geta mætt áföllum og til að auka ánægju sína.“

Fannst þér þú uppskera á einhverjum tímapunkti að þú værir búinn að ná markmiðunum þínum?

„Þegar ég lauk námi, úr menntaskóla og úr háskólum fann ég til sigurvímu. Ég hef oft náð markmiðum mínum í einstökum verkum. Bæði í bankanum og ekki síður í kennslu. Og ekki síst þegar ég hef skrifað greinar sem hafa haft eitthvað nýtt fram að færa. Svo líður mér alltaf vel þegar ég vakna við góða heilsu á nýársdagsmorgni og horfi með bjartsýni til nýs dags og nýs árs.“

Hvað gefur vinnan þér?

„Vinnan er mér mikil lífsfylling. Hún er andlit mitt og sjálfsvirðing. Mér leið alltaf vel þegar ég sá að nemendur höfðu náð árangri og þegar viðskiptavinir bankans unnu sína sigra í lífi og starfi.“

Hefur þú átt það til að ofkeyra þig, og ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?

„Þá fer ég út að hlaupa til að jafna mig. Eða hjóla. Eða í golf. Eða á skíði. Átök!“

Áttu þér einhverja fyrirmynd í lífinu?

„Ég á enga ákveðna fyrirmynd. Ég horfi til margra manna og kvenna sem hafa kennt mér, ég hef starfað með og þeirra sem ég hef horft á úr fjarlægð. Allir þeir sem gera verk sín vel eru mínar fyrirmyndir.“

Ertu með hugmynd um hvernig hægt er að útrýma launamun kynjanna fyrir fullt og allt? „Ég geri ráð fyrir að það muni halla á karla innan fárra ára á vinnumarkaði. Karlar eru í vörn í skóla. Launamunur mun hverfa af sjálfu sér!“

Hvernig skipuleggur þú daginn?

„Ég byrja á því að fá mér kaffi, fara á fætur og lesa Morgunblaðið. Fer í sund eða út að hlaupa, eða stunda golf á sumrin. Svo klára ég þau verk sem ég ákvað að fresta til fyrramáls. Það tekst vel. Ég hugsa meira síðdegis en kem litlu í verk. Ég er afkastamaður á morgnana.“

Hvernig er morgunrútínuna þín?

„Kaffi, morgunmatur og koma mér til verka. Fer fyrst í sund ef ég fer ekki ut að hlaupa!“

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnudag eða teygist vinnudagurinn fram á kvöld?

„Ef allt er talið eru þetta 10-16 klukkustundir. Öll íhugun er vinna. Svo eru tómstundir, störf við handbolta, tímavörður, og að skrifa greinar í Morgunblaðið.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?

„Njóta myndlistar, tónlistar, bókmennta leiklistar og að hlaupa, hjóla og stunda golf. Að njóta fegurðar í allri sinni mynd!“

Hvernig verður veturinn hjá þér?

„Veturinn leggst vel í mig. Sérstaklega eftir 2. febrúar, en þá er kyndilmessa. Þá er myrkrið búið! Þá kemur fegurðin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál