Ætlar að klífa Heklu í sumar

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi í Reykjavík tekur þátt í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins.
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi í Reykjavík tekur þátt í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi tekur þátt í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á morgun. Hann var blaðamaður á Morgunblaðinu þegar hann ákvað að fara út í borgarmálin. Kjartan segist aldrei hafa unnið átta stunda vinnudag og segir að það væri gaman að prófa það einhvern tímann. Vinnan dregst yfirleitt fram á kvöld hjá honum. 

Hvers vegna sækist þú eftir að verða oddviti?

Ég hef skýra stefnu á þær breytingar sem þurfa að verða í borginni. Vegna þekkingar og reynslu af borgarmálefnum tel ég mig vel til þess fallinn að leiða breytingastarfið.“

Hvernig var þinn ferill?  

„Ég hef fengist við margvísleg störf í gegnum tíðina og var blaðamaður á Morgunblaðinu þegar ég ákvað að gefa kost á mér í borgarstjórn. Sem borgarfulltrúi hef ég gegnt ýmsum nefndastörfum, m.a. formennsku í menntaráði Reykjavíkur, íþrótta- og tómstundaráði, menningar- og ferðamálaráði og stjórn Orkuveitunnar. Ég hef einnig mikinn áhuga á samgöngumálum og var m.a. formaður Umferðarráðs ríkisins um skeið og formaður nefndar um gerð umferðaröryggisáætlunar fyrir Reykjavík. Þá hef ég lagt áherslu á málefni eldri borgara og lagði til stofnun Öldungaráðs Reykjavíkur og er ég nú varaformaður þess. Auk þess sit ég nú í borgarráði, skóla- og frístundaráði, íþrótta- og tómstundaráði, stjórn Félagsbústaða og stjórn Orkuveitunnar. Ég tel mig því þekkja borgarkerfið vel og hef ákveðnar skoðanir á því hvernig best sé að breyta því svo það þjóni borgarbúum sem best.“

Fannst þér þú uppskera á einhverjum tímapunkti að þú værir búinn að ná markmiðunum þínum?

„Starf borgarfulltrúa er mjög gefandi að því leyti að leiðin getur verið stutt frá hugmynd til framkvæmdar. Ég gleðst alltaf þegar árangur næst en set mér jafnóðum ný markmið til að keppa að.“

Hvað gefur vinnan þér?

„Vinnan gefur mér tækifæri til að nýta starfsorku mína og hæfileika til að láta gott af mér leiða í þágu borgarinnar og íbúa hennar. Í starfinu á ég samskipti við ótrúlega margt fólk úr öllum hverfum borgarinnar. Verkefnin eru fjölbreytileg og oftast nær skemmtileg. Ég hlakka til hvers nýs dags í þessu starfi.“

Hefur þú átt það til að ofkeyra þig, og ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?

„Það hefur komið fyrir. Við slíkar aðstæður finnst mér gott að skipta um umhverfi og reyna á mig, t.d. að fara út að hlaupa, í sund eða fjallgöngu. Eitt sinn var svo mikið að gera í vinnunni að ég komst ekki í sumarfrí. Ég mæli alls ekki með því.“

Áttu þér einhverja fyrirmynd í lífinu?

„Nei. Enginn er fullkominn en ég er svo heppinn að þekkja og umgangast fólk sem er til fyrirmyndar að flestu leyti. Því miður hefur maður líka lent í því að eiga við fólk sem er ekki til fyrirmyndar að neinu leyti og þá veit maður hvað ber að forðast.“

Hvernig skipuleggur þú daginn?

„Dagurinn er oftast skipulagður fyrir mig því stór hluti starfsins felst í að sækja fundi víðs vegar um borgina. Það er því mikilvægt að nota tímann á milli funda sem best til að undirbúa næstu fundi, fara í heimsóknir í hverfunum eða setja sig inn í mál og erindi sem berast stöðugt.“

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Ég vakna á sama tíma og börnin og fylgi gjarnan yngstu dóttur minni í skólann. Við morgunverðarborðið sæki ég andlega næringu í Morgunblaðið og fer síðan gjarnan á fund, heimsókn, t.d. í skóla, eða á skrifstofuna.“

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnudag eða teygist vinnudagurinn fram á kvöld?

„Ég hef aldrei unnið hefðbundinn átta stunda vinnudag en það væri vissulega gaman að prófa það einhvern tímann. Yfirleitt tek ég vinnuna með mér heim og sinni gjarnan símtölum, tölvupóstum og skýrslulestri síðla kvölds.“

Kjartan Magnússon, Halla Gunnarsdóttir og Jón Gnarr við styttuna af …
Kjartan Magnússon, Halla Gunnarsdóttir og Jón Gnarr við styttuna af Tómasi Guðmundssyni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?

„Skemmtilegast er að eiga góða stund með fjölskyldu og vinum. Fara í útilegu, fjallgöngu eða á skíði með fjölskyldunni, árleg skíðaferð til Akureyrar stendur alltaf fyrir sínu. Við förum líka oft á Árbæjarsafn, Fjölskyldu- og húsdýragarðinn eða á íþróttaleik. Næsta sumar ætla ég að klífa Heklu og hlakka mjög til þess. Ég ætlaði reyndar að ganga á fjallið sl. sumar en frestaði því eftir að ég fékk í hnéð eftir að hafa hlaupið hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst.“ 

Hvernig verður veturinn hjá þér?

„Hann verður vonandi góður og örugglega annasamur. Það er mikilvægt að nýta vel tímann fram að kosningum til að kynna stefnu Sjálfstæðisflokksins í borgarmálum fyrir Reykvíkingum og hvaða breytingum við munum hrinda í framkvæmd. Ég vil t.d. leysa lóðaskortinn og lækka íbúðaverð með því að stórauka framboð lóða í nýjum hverfum samhliða þéttingu byggðar í eldri hverfum. Í samgöngumálum þarf að semja við ríkið um framkvæmdir í borginni til að auka umferðaröryggi og greiða fyrir umferð. Mikilvægt er að leysa mönnunarvanda leikskólanna og hef ég lagt fram tillögur sem miða að því. Bæta þarf grunnskólamenntun, ekki síst grunnfærni eins og lestur og stærðfræði. Þá vil ég hagræða í borgarrekstrinum, stöðva skuldasöfnun og draga úr álögum á borgarbúa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál