Lifðu fyrir daginn í dag

mbl.is/Thinkstockphotos

Eftir því sem árin líða fer manneskjan að átta sig á því að lífið er uppfullt af tækifærum, verðmætum en einnig áskorunum og sorg. Við það að þroskast verðum við auðmýkri, við förum að skilja að lífið er óvænt.

Þegar við förum í gegnum daginn eins og við munum lifa að eilífu erum við föst í okkar eigin egói. Við erum í hugsanavillu, þar sem það eina sem við vitum fyrir vissu er að lífskeið fólks á sér upphaf og enda, þótt margir trúi því að sálin muni lifa að eilífu.

Þegar við förum í gegnum daginn, einn dag í einu, erum við að auka verðmæti dagsins í dag. Við erum að sýna í verki að við kunnum að meta daginn, að við ætlum að reyna okkar allra besta og hafa sem fæst verkefni sem þurfa eftirvinnu. Því tíminn er núna og við vitum ekki með morgundaginn.

mbl.is/Thinkstockphotos

Hugleiðsla

Við upphaf dagsins sem við eigum, er gott að byrja að hugleiða hvað við viljum fá út úr deginum. Með því að hugleiða erum við að hlusta á okkar innri rödd, en einnig erum við að hlusta eftir skilaboðum frá öðrum. Hvort heldur sem er æðri máttur, náttúran eða fólk sem við höfum hitt og hefur sáð fræjum visku og þekkingar.

Hver einasta manneskja er einstök og þegar hún hugleiðir þá getur hún betur stígið inn í hver hún raunverulega er. Ef við lifum hins vegar eins og við munum lifa að eilífu, þá skiptir hugleiðsla ekki svo miklu máli daglega. Enda eigum við svo marga daga, hvaða máli skiptir einungis dagurinn í dag með þannig viðhorf?

Ef við lifum fyrir daginn í dag þá tökumst við á við áskoranir í umhverfinu öðruvísi. Við mætum fólki sem er á vondum stað með öðruvísi viðmóti. Fólk sem æsir sig við okkur út af engu, mætir meiri hlýju og samkennd, enda er þetta okkar dagur og við ætlum ekki að breyta út af því hvernig okkur líður í dag þó að við mætum fólki sem hefur ákveðið að hafa daga sína öðruvísi. Ef manneskjan sem við mætum er sár út í okkur leiðréttum við misgjörðir okkar strax. Enda ekki gott að fresta hlutunum eða festast í óþægilegum hugsunum yfir daginn. 

Sá sem lifir lífinu eins og hann muni lifa að eilífu fer hins vegar í gegnum daginn öðruvísi þegar kemur að mótlæti. Hann leyfir sér að æsa sig, enda nóg af dögum þar sem maður getur verið í góðu skapi. Hann bregst við umhverfinu, og leyfir fólki að ná úr sér fýlunni á sínum tíma. Nógur er tíminn!

Þegar við lifum fyrir daginn reynum við að gera sem mest úr honum. Við tengjum daglega við þá sem okkur þykir vænt um, segjum þeim hvernig okkur líður gagnvart þeim og vöndum okkur til að þurfa ekki að fara í mikla eftirvinnu seinna. Enda vitum við ekkert hvort við eigum neitt seinna. Við eigum stundina í dag!

mbl.is/Thinkstockphotos

Bæn

Í lok dagsins biðjum við fyrir því að fá annan dag líkt og daginn í dag. Við þökkum fyrir allt sem við höfum fengið að upplifa og biðjum um vernd og blessun fyrir alla þá sem eru okkur kærir og eru á sinni vegferð í lífinu. Við reynum ekki að stjórna öðrum heldur ræktum okkur sjálf. Og hlökkum til að fá að tengjast okkur sjálfum jafnvel betur í hugleiðslu morgundagsins. Ef okkur er gefinn nýr dagur.

Megi dagurinn verða þér gæfuríkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál