„Ég er mjög óskipulögð manneskja“

Arndís Hrönn Egilsdóttir leikur rauðvínsleginn bókaútgefanda í verkinu Lóaboratoríum sem …
Arndís Hrönn Egilsdóttir leikur rauðvínsleginn bókaútgefanda í verkinu Lóaboratoríum sem sýnt er í Borgarleikhúsinu.

Arndís Hrönn Egilsdóttir leikkona á stórleik í verkinu Lóaboratoríum sem sýnt er í Borgarleikhúsinu. Hún er 49 ára gömul, gift Eiríki Stephensen og saman eiga þau eina dóttur, Úlfhildi Júlíu sem er átta ára. Auk þess á Arndís tvö rígfullorðin stjúpbörn, þau Þórhildi og Ólaf Sverri. Arndís lærði leiklist og leikhúsfræði í París og svo er hún með leiðsögumannspróf. Ég spurði hana spjörunum úr. 

Getur þú lýst starfinu þín?

„Það er bara mjög fjölbreytt og margslungið enda er ekkert sem tengist mannlegu eðli því óviðkomandi. Ég reyni að nota tilfinningalíf mitt og næmni og lífsreynslu og tækni til að koma lífi og persónu í verki til skila. Komast inn að kviku. Segja sögu af manneskju. Vekja hughrif.“

Hvers vegna sóttist þú eftir þessu starfi?

„Það var bara einhver djúpstæð þrá. Ég hafði ríkt ímyndunarafl sem barn og var alltaf að lifa mig inn í alls kyns sögur og ævintýri svo bældi ég nú á tímabili þessa þrá og var ekki viss um að ég hefði það sem þarf en svo lét ég bara slag standa. Og sé ekkert eftir því.“

Hvað skiptir máli fyrir konur að hafa í huga ef þær ætla að ná langt á vinnumarkaði?

„Snýst þetta ekki fyrst og fremst um ástríðu fyrir því sem maður er að gera og gefast ekki upp?“

Hvernig var þinn ferill?

„Ég lærði leiklist og leikhúsfræði í París, flutti svo til Vínarborgar þar sem ég starfaði með leikhóp. Eftir að ég flutti heim hef ég starfað sem leikkona í sjónvarpi, kvikmyndum, útvarpi og á sviði. Hef leikið hjá Borgarleikhúsinu, Leikfélagi Akureyrar og Sjálfstæðu leikhúsunum.  Meðal helstu verkefna á mínum ferli fram að þessu mætti nefna sjónvarpsþáttaraðirnar Pressu og Fanga og kvikmyndina Þresti svo og leikverk eins og Bláskjá, Hystory og Dúkkuheimilið í Borgarleikhúsinu. Við Elma Lísa Gunnarsdóttur erum í forsvari fyrir leikhópinn Sokkabandið sem hefur sett upp fjölmörg nýstárleg íslensk verk. Nýjasta verk Sokkabandsins er Lóaboratoríum eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur í leikstjórn Kolfinnu Nikulásdóttur sem er núna á fjölum Borgarleikhússins. En ég hef líka fengist við dagskrárgerð fyrir Ríkisútvarpið Rás eitt. Var m.a. á tímabili umsjónarmaður Víðsjár auk þess að gera fjölmarga menningarþætti. Ég hef líka oft á sumrin starfað sem leiðsögumaður með franska ferðamenn.“ 

Fannst þér þú uppskera á einhverjum tímapunkti að þú værir búin að ná markmiðunum þínum?

„Nei, en ég hef átt mörg glimrandi gleðimóment.“

Hvað gefur vinnan þér?

„Trú, von og kærleik.“

Hefur þú átt það til að ofkeyra þig, og ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?

„Nei, ég hef ekki upplifað það. En ég hef oft átt erfið augnablik á æfingatímabilum. Þegar ég er að læra textann minn verð ég oft nett „introvert“ og þunglynd og sjúklega leiðinleg. Svo smám saman skána ég.“ 

Arndís Hrönn Egilsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir. …
Arndís Hrönn Egilsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir. Þær leika allar saman í Lóboratoríum.

Áttu þér einhverja kvenfyrirmynd?

„Þegar ég var 12 ára var mín helsta fyrirmynd Ragnhildur Gísladóttir sem þá var að stofna Grýlurnar. Enga konu vissi ég meira töff. Og það er gaman að núna er ég að fara að leika með henni í bíómynd. Það eru alls konar konur sem hafa haft áhrif á mig í gegnum tíðina. Í dag finnst mér ég aðallega upplifa áhrifamátt í orðum kvenna. Til að mynda hafa skrif kvenna á borð við Virginiu Woolf, Marguerite Duras, Nathalie Sarraute, Vigdísi Grímsdóttur, Auði Jónsdóttur, Kristínu Ómarsdóttur og Kristínu Eiríksdóttir haft áhrif á mig. Svo hef ég náttúrulega átt ýmsar uppáhaldsleikkonur. Ég hugsa að Guðrún Gísladóttir hafi haft mest áhrif á það að mig langaði að verða leikkona eftir að hafa séð hana í Fórn Tarkovskys og Degi vonar. Svo hef ég í gegnum tíðina átt fullt af uppáhaldsleikkonum, til að mynda Genu Rowlands, Helen Mirren og Isabelle Huppert.“ 

Ertu með hugmynd um hvernig hægt er að útrýma launamun kynjanna fyrir fullt og allt?

„Nei.“ 

Hvernig skipuleggur þú daginn?

„Ég er mjög óskipulögð manneskja.“

Hvernig er morgunrútínana þín?

„Hún er dálítið þannig að ég fer í sturtu og Eiríkur rekur á eftir mér, svo fáum við okkur kaffi og stundum morgunmat og leikum að við séum morgunhress og reynum að koma Úlfhildi á réttum tíma í skólann. Tvisvar í viku fer ég svo í einkaþjálfun kl. átta hjá Agnesi Kristjónsdóttur í World Class sem er algjörlega dásamlegt.“

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnudag eða teygist vinnudagurinn fram á kvöld?

„Eðli starfsins er að vinna á kvöldin þannig að þetta nú bara alls konar.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?

„Ég elska að vera með fjölskyldu minni og hitta góða vini, borða góðan mat, fara í göngutúr og á kaffihús, lesa, fara í leikhús og á tónleika og horfa á bíómyndir og hlusta á fallega tónlist. Og náttúrulega ferðast.“

Hvernig verður veturinn hjá þér?

„Ég ætla að leika Lóaboratoríum í Borgarleikhúsinu fram í lok febrúar. Verkið er eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur og hún vinnur það upp úr frábæru teiknimyndasögunum sínum sem eru fullar af beinskeyttum og svörtum húmor. Það er Kolfinna Nikulásdóttir sem leikstýrir verkinu og fullt af frábæru fólki kom við sögu í uppsetningu á þessari sýningu. Verkið fjallar um fjórar konur sem kunna ekki að hegða sér á viðeigandi hátt en reyna að þola hver aðra. Aðrar leikkonur eru Elma Lísa Gunnarsdóttir, María Heba Þorkelsdóttir og Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir. Í Lóaboratoríum leik ég Stellu sem er frekar rauðvínsleginn bókaútgefandi. Það skemmtilegasta sem hún veit er að reyna við pizzasendla en þegar fullorðin dóttir hennar flytur aftur inn á hana verður lífið dálítið flókið. Næsta verkefni er líka spennandi en í lok febrúar fer ég út á land og verð fram á vor að leika aðalhlutverkið í næstu mynd Gríms Hákonarsonar sem heitir Héraðið og fjallar um Ingu sem er bóndakona og missir manninn sinn og þarf að berjast fyrir tilveru sinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál