Skemmtilegast að „Liffa og njóta“

Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri kaffihúsa Kaffitárs hefur prófað ýmislegt um ævina.
Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri kaffihúsa Kaffitárs hefur prófað ýmislegt um ævina.

Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri kaffihúsa Kaffitárs er 43 ára tveggja barna móðir. Hún er í sambúð með Jóni Þór Eyþórssyni en þau eiga synina Dreka 9 ára og Jaka 6 ára. Andrea er með MS gráðu frá viðskipta- og hagfræðideild í mannauðsstjórnun, BA gráðu í félags- og kynjafræði og var að ljúka MA-diplóma í jákvæðri sálfræði. „Síðan bara haugur af námskeiðum og lífið,“ segir Andrea þegar hún var spurð spjörunum úr. 

Getur þú lýst starfinu þín sem framkvæmdastjóri?

„Sko þetta er allt að framkallast þessa dagana því ég er að byrja í þessu starfi. Ég er ferlega kát með að vera farin að vinna fyrir Kaffitár,“ segir Andrea sem hefur verið ráðgjafi á sviði stjórnunnar síðustu misserin.

„Ég lauk námi í jákvæðu sálfræðinni nýverið og á meðan ég var í náminu byrjaði síminn að hringja og ég breyttist óvænt í ráðgjafa á sviði stjórnunnar. Það var eftirspurn eftir því og að starfa sem ráðgjafi með góðu fólki í fjölbreyttum fyrirtækjum var gaman og gefandi en mér finnst enn betra að vera orðin hluti af heild.“

Dreki og Jaki ásamt foreldrum sínum, Jóni Þóri og Andreu.
Dreki og Jaki ásamt foreldrum sínum, Jóni Þóri og Andreu.

Hvers vegna sóttist þú eftir þessu starfi?

„Já, að vera partur af heild og spennandi að vinna með fólki sem er umhugað um kaffiheilsu landsins. Það er bara aldrei of mikið af góðu kaffi sjáðu til,“ segir Andrea og brosir. „Við erum að tala um vörumerkið Kaffitár sem er samofið kaffimenningu á Íslandi. Kaffitár hefur hlotið umhverfisviðurkenninguna Kuðunginn fyrir öflugt umhverfisstarf og kaffihús Kaffitárs voru fyrst hér á landi til að fá vottun umhverfismerkis Svansins. Síðan er það Kruðerí Kaffitárs sem sér um framleiðslu á öllu meðlæti fyrir kaffihúsin. Hér eru veitingarnar framleiddar frá grunni, kaffið er sérvalið og handpakkað og já, viðskiptahættir að mínu skapi frá býli í bolla. Á fimmtu hæð í Perlunni er eitt af kaffihúsum Kaffitárs og veitingastaðurinn Út í bláinn sem Kaffitár rekur einnig. Baksýnisspegillinn segir sögu sem er mér að skapi og í landslagi morgundagsins felast fjölmörg tækifæri hjá Kaffitári.“

Hvernig var þinn starfsferill?

„Það var blaðaútgáfa í barnaskóla og unnið í sjoppu frá 12 ára aldri. Síðan fóru peningarnir að streyma inn þegar ég byrjaði í uppvaski á matsölustöðum um fermingu,“ segir Andrea og hlær. „Á unglingsárunum fór ég síðan að vinna í Sautján um helgar og á bar á nóttunni. Á sama tíma fékk ég undanþágu til að taka auka einingar í skólanum. Ég hef líka starfað víða erlendis sem hefur aukið menningalæsi og víðsýni. Ég hef alltaf verið virk og mér hefur alltaf fundist gaman að vinna. Þannig gat ég líka keypt mér mína fyrstu íbúð sem unglingur. Ég tók þátt í að gefa út fylgiblað Morgunblaðsins, hef unnið sem verkefnastjóri, gefið út bók hjá Forlaginu og svo vann ég í nokkur ár hjá 365. Þá sem fréttamaður og þáttastjórnandi á Stöð 2 en einnig á markaðsdeildinni og í kynningarmálum. Það var svo eftir háskólagráður, flugfreyjunámskeið og húsmæðraskólann sem ég tók að mér að vera forstöðumaður þjónustu- og sölusviðs og síðar forstöðumaður mannauðssviðs hjá fjarskiptafyrirtæki. Nú síðast var ég Mannauðsstjóri RÚV. Þar fór ég fyrir nokkrum verkefnum. Og alltaf sama sagan – gott fólk og gullmolar á hverjum stað.“

Fannst þér þú upplifa á einhverjum tímapunkti að þú værir búin að ná markmiðunum þínum?

„Með góðu fólki í gegnum félagastörf og stjórnarsetu hef ég tekið þátt í að haft áhrif á samfélagsmyndina og umhverfið sem við lifum í. Við þannig aðstæður og í vinnu nær kona oft krefjandi markmiðum. Það hefur annars verið lítið um mælanleg markmið í einkalífinu, þannig lagað, og ég veit ekki hvort orðið „markmið“ eigi við þar. Ég fór að klappa mér oftar á bakið eftir að ég fór að tileinka mér sjálfvinsemd,“ segir Andrea hugsi. „Það eru svo margir duglegir í að rífa sig niður. Við erum kannski að gera tíu hluti. Átta ganga glimrandi vel en tveir ekki eins vel. Þá eru margir að refsa sér fyrir þessa tvo í staðinn fyrir að gleðjast yfir öllu hinu,“ bætir Andrea við. „Stefið hefur breytist hjá mér með aldrinum og með sjálfsvinnu hef ég náð meira flæðið. Síðustu árin hef ég haft nokkur „quote“ bak við eyrað eins og Dalai Lama sem sagði eitthvað á þá leið að „það sem kemur mér mest á óvart í mannlegri tilveru er að maðurinn fórnar heilsu sinni til að eignast peninga. Svo fórnar hann peningunum til ná heilsu sinni aftur. Á sama tíma er hann svo spenntur fyrir framtíðinni að hann nýtur ekki augnabliksins. Og hann lifir eins og hann muni aldrei deyja - og svo deyr hann án þess að hafa lifað almennilega.““

Hvað gefur vinnan þér?

„Mér finnst ég ná að uppgötva mig aftur og aftur. Mér finnst afskaplega spennandi tímar og kjöraðstæður til að halda áfram að vaxa. Nú á tímum breytinga þarf að skora á viðteknar venjur og hvernig hlutirnir eru unnir. Það kallar á ákveðið hugarfar, ný viðhorf og lærdóm. Það er talað um að þegar við lærum nýja hluti verða til nýjar tengingar milli taugafruma. Þannig að í leik og í starfi næ ég að halda taugafrumum í formi ef svo má að orði komast,“ segir Andrea og bætir við „sem er svo mikilvægt því taugafrumur eru bara eins og vöðvafrumur. Við þurfum að halda þeim í formi. En síðan þurfum við líka að huga að jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Jafnvægi er lykilorðið í öllu. Það þarf að gefa sér reglulega tíma til að staldra við og virkilega spá í hvað hvetur okkur áfram sem einstaklinga. Og ef við hlustum á líkamann þá er hann að segja okkur svo margt eins og hvenær við erum uppá okkar besta.“

Finnst þér konur þurfa að hafa meira fyrir því að vera ráðnar stjórnendur í fyrirtækjum en karlmenn?

„Tölurnar tala.“

Áttu þér einhverja kvenfyrirmynd?

„Þær eru fjölmargar og ég vinn markvisst í að tengja allar þessar frábæru konur sem ég er svo heppin að hafa í mínu lífi. Tengslamyndun er og hefur verið mitt innlegg í jafnréttisbaráttuna.“

Ertu með hugmynd hvernig hægt er að útrýma launamun kynjanna fyrir fullt og allt?

„Þú vilt fá að vita hvernig við náum fram „computer says yes“. Já sko ef misréttið er mannanna verk þá er jafnréttið það líka svo ég vitni í mína kæru Dr. Þorgerði Einarsdóttur.“

Hvernig skipuleggur þú daginn?

„Eins mikið og ég reyni að verja tímanum í núinu þá er ég voða mikið að kortleggja næsta dag í dagbók.“

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Þetta er mjög einfalt. Bara vakna, borða, bursta og klæða sig. Dagurinn gengur betur ef stemningin er góð í upphafi dags og ef fjölskyldan fær sinn svefn þá eru leiðindin ekki að þvælast fyrir.“

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnudag eða teygist vinnudagurinn fram á kvöld?

„Já, já allur gangur á því. Það kannast flestir við dagana sem eru eins og að pakka saman svefnpoka. Auðvelt og létt fyrst en lokahnykkurinn getur tekið á.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?

„Bara að liffa og njóta.“

Hvernig verður veturinn hjá þér?

„Eins og framsóknargaurinn Bjarni Harðarson segir þá er aðeins ein árstíð á Íslandi og hún heitir ekki neitt. En þegar það er kalt þá er ég í ullasokkum. Meira veit ég ekki,“ segir Andrea. 

Andrea á gönguskíðum.
Andrea á gönguskíðum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál