Ertu að vinna við það sem hentar þér best?

mbl.is/Thinkstock

Þegar kemur að tilgangi lífsins þá virðist sem margir hafi fundið sér vinnu sem samræmist þeirra tilgangi. Mörg okkar hafa verið á villigötum þegar kemur að vinnu, en slík upplifun getur verið góð til að vita hvað maður vill ekki gera í lífinu. Við veltum upp hvort þú sért að vinna við það sem hentar þér best og hvaða leiðir er hægt að fara ef þér leiðist í vinnunni. 

Fjölmargar greinar og bækur hafa verið skrifaðar um tilgang lífsins og hvernig hægt er að leiðbeina fólki að finna sér vinnu sem samræmis þessum tilgangi. En eins og gefur að skilja er áskorun að lifa góðu lífi ef maður er ekki í vinnu við hæfi.

Eftirfarandi eru leiðbeiningar sem þú getur notað til hliðsjónar þegar kemur að vinnu við hæfi. 

1. Ég þarf ekki frí frá vinnunni

Þegar þú ert í vinnu sem hæfir þér vel þá er vinnan stór hluti af lífinu þínu. Þú velur að fara í frí reglulega, en fríiið virkar ekki eins og súrefniskútur í lífinu, heldur ánægjuleg stund til að gera hluti sem skipta þig máli utan vinnu. Þegar þú ert í fríinu þínu þá nýturðu þess, en þú ert ekki að kvíða fyrir því að hefja störfin þín aftur.

2. Ég hlakka til að fara í vinnuna á hverjum degi

Þeir sem eru í réttu starfi fyrir sig og hafa kannski ekki verið í því alla tíð, segja að dagurinn renni í gegn áherslulaust. Þeir tala um að allur dagurinn breytist við að vera í vinnu við hæfi, þú hlakkar til að vakna á morgnana og tíminn líður hratt í vinnunni. 

3. Ef ég þyrfti ekki að vinna myndi ég samt gera það sem ég geri

Margir tala um að tilgangur þinn í lífinu sé það sem þú ert tilbúinn að gera hvort sem þú þyrftir á því að halda fjárhagslega eða ekki. Sem dæmi talar Warren Buffett ítrekað um þetta atriði, að starfa ekki við eitthvað bara peninganna vegna, heldur að einblína á að gera það sem manni finnst skemmtilegt. Þá koma peningarnir sjálfkrafa. 

4. Hæfileikar mínir fá að njóta sín í vinnunni

Vinnan á að fela í sér áskorun reglulega og hvetja til þess að maður vaxi og dafni sem persóna. En hins vegar er mikilvægt að styrkleikar okkar fái notið sín í vinnunni og við séum að gera það sem hentar okkur best. Fólk er misjafnt þegar kemur að hæfileikum, en það skemmtilega er að við höfum öll fjölmarga hæfileika til að byggja á.

5. Verkefnin mín í vinnunni eru viðráðanleg 

Rannsóknir sýna að til þess að njóta sín í vinnunni verður álagið að vera viðráðanlegt. Ef það er ekki til staðar, myndast óþægilegt álag sem byggist upp og skapar vanlíðan. Góð stjórnun er því einn mikilvægasti þáttur þess að starfsmenn fái að njóta sín í vinnu við sitt hæfi.

mbl.is/Thinkstock

Hvað er til ráða ef eitthvað af því sem hér að ofan er ritað, er ekki það sem við getum hakað við?

Við lifum á tímum þess að almennt þykir að fólk fari í gegnum lífið og starfi við fleiri hluti en einungis einn alla ævina. Það er tækifæri sem veitir fólki auðveldari aðgang að því að færa sig til í starfi reglulega.

Hér kemur listi af hlutum sem við getum gert til að finna okkur vinnu við hæfi.

1. Skrifaðu tilfinningadagbók áður en þú ferð til vinnu og þegar þú hefur lokið deginum

Með því að skrifa tilfinningadagbók verður auðveldara að sjá skilin á milli einkalífs og vinnu og finna út hvað er að valda okkur óþægindum. Ef álagið er mikið persónulega þá getur það haft áhrif á vinnuna okkar og öfugt. Ef við erum glöð í byrjun dags en vanmáttug í enda hans, af hverju stafar það aðallega? Margar vísbendingar eru um að erfitt sé að upplifa tilfinningar fyrr en eftir á. Dagbækur hjálpa til við að sjá hluti og auðvelda vinnu með ráðgjöfum seinna.

2. Hvað gerir þú í frístundum?

Mörkin milli frís og vinnu þurfa ekki að vera svo skörp. Mörg okkar hafa verið alin upp við að vinna eigi að vera svona eða hinsegin. Á meðan aðrir elska að horfa á kvikmyndir og ákváðu svo í kjölfarið að starfa við iðnina því þar liggur áhuginn. Skoðaðu hvað þú hefur áhuga á og sjáðu hvaða stöf eru í boði í greininni.

3. Hvað segir áhugasviðsprófið um þig?

Víða er hægt að sækja áhugasviðspróf á netinu eða hjá sérfræðingum sem sérhæfa sig í slíku. Ef þú tekur nokkur slík próf og svarar frá hjartanu muntu finna hvaða lína gæti hentað þér best. Ekki hafa áhyggjur af peningum, það kostar mikið að vera óhamingjusamur og ekki ódýrt að þurfa að umbuna sig fyrir leiðinlega vinnu reglulega. Eins eru miklar líkur á því að ef þú ert að gera það sem þú elskar getir þú orðið virkilega góður í því og eftirsóttur starfskraftur víða.

4. Farðu út fyrir þægindarammann

Það hafa fjölmargir aðilar talað um að á tímum áskorunar hafi þeir prófað alls konar vinnu fyrir vini og ættingja og fljótlega áttað sig á að störfin voru misskemmtileg og því varð auðveldara að finna eitthvað við sitt hæfi í kjölfarið. Það sem aðrir hafa talað um tengt áskorunum í vinnu er að stundum virðast allar dyr lokaðar, síðan opnast gátt á frekara nám eða ein vinna býðst og það er eins og heimurinn sé að kalla þig til ákveðinna verkefna. Hlustaðu á það, slepptu og treystu.

5. Farðu í ráðgjöf, auktu við þig menntun og leitaðu eftir aðstoð

Það getur verið veruleg áskorun að ræða vinnutengd mál við aðra. En það sem þú munt komast að fljótt er að þeim sem gengur vel í lífinu, langar að vera til staðar fyrir aðra. Raunveruleg velgengni er nefnilega smitandi og áður en þú veist af þá muntu geta borgað greiðann áfram og verið til staðar fyrir einhvern annan. Hvort sem ráðgjöfin er frá vini, kunningja, ókunnugum eða jafnvel sálfræðingi, markþjálfa. Valmöguleikarnir eru endalausir, ef þú nærð að setja egóið þitt til hliðar og halda af stað í leiðangurinn. Um leið og þú opnar á þetta muntu heyra ótrúlegustu sögur frá fólki sem hefur misst vinnuna og það var það besta sem henti það. Áskoranir tengdar vinnu eru nefnilega algengar og fólk er hafsjór af upplýsingum ef við bara treystum okkur til að finna réttu aðilana til að tala um málefnið við.

Aukin menntun er einnig eitthvað sem við eigum reglulega að vera að skoða. 

Ef þú ert að færa þig á milli starfa og breytingarnar eru miklar er áhugavert að skoða hvernig hægt er að gera slíkt án þess að það hafi svo mikil áhrif. Prófaðu að minnka við þig í núverandi vinnu og hefja störf við það sem þú elskar á móti gömlu vinnunni. Gefðu þér tíma til að byggja upp nýjan feril og ekki gefast upp. Lífið er of stutt til að njóta sín ekki í vinnu.

Gangi þér vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál