Tók við fyrsta stjórnendastarfinu 27 ára

Salóme Guðmundsdóttir er framkvæmdastjóri Icelandic Startups.
Salóme Guðmundsdóttir er framkvæmdastjóri Icelandic Startups. mbl.is/Árni Sæberg

Salóme Guðmundsdóttir er framkvæmdastjóri Icelandic Startups. Salóme hefur náð flottum árangri í gegnum árin en er þó engan veginn komin á endastöð enda stöðugt að leita leiða til að vaxa og þróast bæði sem einstaklingur og stjórnandi.

Út á hvað geng­ur starfið?

„Í sinni einföldustu mynd snýst starfsemi Icelandic Startups um að aðstoða frumkvöðla við að byggja upp ný fyrirtæki með því að hraða ferlinu frá því að hugmynd kviknar þar til viðskipti taka að blómstra.“

„Mitt starf snýst að miklu leyti um að fjármagna reksturinn, þróa nýjar lausnir sem styðja við vöxt sprotafyrirtækja og efla tengsl við stjórnvöld, fjárfesta, háskóla, atvinnulífið og leiðandi sprotasamfélög erlendis. Mitt hlutverk er ekki síður að horfa á stóru myndina, stefnuna og vera til staðar fyrir mitt frábæra teymi.“

Hvað skipt­ir máli fyr­ir kon­ur að hafa í huga ef þær ætla að ná langt á vinnu­markaði?

„Ég tel að það skipti miklu máli að hafa trú á eigin getu, fagna litlu sigrunum sem okkur þykja stundum sjálfsagðir, fylgja eigin sannfæringu en hafa einnig hugrekki til að horfast í augu við það sem betur má fara. Að koma fram við fólk af virðingu, sama hvaða stöðu það gegnir og sýna auðmýkt þykir mér merki um sterkan karakter. Þegar á reynir getur einnig verið dýrmætt að hafa í kringum sig gott net af traustu fólki sem hægt er að ráðfæra sig við.“

„Við þurfum líka að hugsa vel um okkur sjálfar, passa upp á jafnvægi á milli vinnu og einkalífs, halda neistanum á lífi og sækjast eftir því að vera stöðugt að vaxa og læra eitthvað nýtt.“

Hvernig var þinn fer­ill?

„Ég tel nú að minn starfsferill sé rétt að hefjast. Ég er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Þar lagði ég áherslu á alþjóðaviðskipti, fór í skiptinám við ESADE í Barcelona og gegndi hlutverki alþjóðafulltrúa HR í tvö ár. Ég var 27 ára gömul þegar ég tók við mínu fyrsta stjórnendastarfi, þá forstöðumaður Opna háskólans í HR. Þremur árum síðar, í byrjun árs 2014, tók ég svo við starfi framkvæmdastjóra Icelandic Startups. Á þeim tíma opnast fyrir mér algjörlega nýr heimur. Að starfa í hringiðu sköpunar og tækninýjunga veitir þér tækifæri til að átta þig fyrr á þeim þáttum sem koma til með að leiða breytingar í stað þess að fylgja straumnum og þurfa að bregðast við síðar. Algjörlega ómetanlegt.“

Það fer eftir verkefnum hvort Salóme byrjar daginn á skrifstofunni, …
Það fer eftir verkefnum hvort Salóme byrjar daginn á skrifstofunni, heima eða í ræktinni. Árni Sæberg

Fannst þér þú uppskera á einhverjum tímapunkti að þú værir búin að ná markmiðunum þínum?

„Ég er mjög lærdómsdrifin að eðlisfari og stöðugt að leita leiða til að vaxa og þróast bæði sem einstaklingur og stjórnandi. Ég hef sannarlega náð árangri og skemmtilegum vörðum í gegnum árin en eftir því sem tíminn líður aðlagar maður markmið og framtíðarsýn þannig að maður er einhvern veginn aldrei búinn.“

Hvað gefur vinnan þér?

„Að fá tækifæri til að starfa í umhverfi nýsköpunar og framþróunar alla daga veitir manni mikinn innblástur. Ég hef kynnst mögnuðu fólki bæða hér heima og erlendis, fengið tækifæri til að ferðast víða, læra eitthvað nýtt á hverjum degi og upplifa hluti sem ég annars hefði líklega ekki gert.“

„Ég trúi því að í gegnum starfsemi Icelandic Startups getum við haft jákvæð áhrif á samfélagið okkar, meðal annars stuðlað að aukinni verðmætasköpun og fjölgun starfa. Það er fyrst og fremst það sem drífur mig fram úr á morgnana.“

Hefur þú átt það til að ofkeyra þig, og ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?

„Já, það hefur komið fyrir og er fljótt að gerast ef maður er ekki vakandi fyrir því, ekki síst í umhverfi þar sem maður þarf að vera með marga bolta á lofti í einu. Það sem ég tel mikilvægast er að horfast í augu við það, reyna að átta sig á því hvað það er sem er að valda streitu, forgangsraða verkefnum og vera duglegur að leita ráða. Það er líka merki um góðan stjórnanda að treysta samstarfsfólki sínu og deila ábyrgðinni. Mikilvægast er að halda góðri yfirsýn.“

„Þegar ég finn að axlirnar verða stífari, dagarnir lengri og þráðurinn styttri þá veit ég að ég þarf að endurskoða skipulagið. Fyrir mig er nauðsynlegt að setja hreyfingu inn í dagatalið, góður svefn og fjölbreytt mataræði skipta líka miklu máli. Hvað varðar tímastjórnun hefur mér þótt gott að klára strax hluti sem taka skamman tíma, s.s. að svara einföldum tölvupóstum. Ég reyni líka að passa upp á að taka frá tíma í dagatalinu til að vinna úr fundum dagsins og ekki síður eiga daga sem eru algjörlega fundarlausir. Þetta eru mín leynitrix til að tryggja að verkefnin safnist ekki upp og dragist ekki á langinn.“

Áttu þér einhverja kvenfyrirmynd?

„Ég á mér ótal fyrirmyndir. Yfirleitt er það þannig að ég kem auga á eitthvað í fari einstaklinga sem heillar mig og ég vil tileinka mér. Svo getur maður auðvitað líka lært af fólki hvernig maður vill alls ekki vera.“

„Ég hef verið svo lánsöm að hafa verið með magnaðar konur sem yfirmenn. Þær hafa veitt mér tækifæri, lyft mér upp og kennt mér svo margt. Svo á ég líka margar öflugar samferðakonur sem eru algjörir naglar. Vel máli farnar, ástríðufullar, rökvísar og umfram allt geislandi og skemmtilegar. Allt eru þetta fyrirmyndir mínar.“

„Svo er það mamma, sem er með hjarta úr gulli og passar upp á sitt fólk, hjá henni er fjölskyldan númer eitt, tvö og þrjú. Á endanum er það allt sem skiptir máli. Fólkið þitt.“

Ertu með hugmynd um hvernig er hægt að útrýma launamun kynjanna fyrir fullt og allt?

„Það er auðvitað óþolandi að þetta sé enn þá staðan og ég vildi að ég vissi svarið. Það er ýmislegt sem þarf að bæta, en eitt af því sem ég tel að skipti miklu máli er að samþætta betur atvinnu og fjölskyldulíf með sveigjanlegri vinnudögum og horfa heldur á framleiðni einstaklinga heldur en vinnustundir. Með tækniframfarir og störf framtíðarinnar í huga er ég bjartsýn á þennan þátt.“

„Stjórnendur bera einnig ábyrgð á að ekki sé gerður munur á kynjum þegar laun eru ákvörðuð fyrir sambærileg störf og ég tel að jafnlaunavottanir og sambærileg tól séu skref í rétta átt.“

Hvernig skipuleggur þú daginn?

„Hjá mér er enginn einn dagur eins. Ég læt það stundum ráðast eftir verkefnum hverju sinni hvort ég byrja daginn heima, í ræktinni eða á skrifstofunni. Mér finnst oft gott að byrja á því að fara í gegnum tölvupóstinn og undirbúa fundi dagsins. Ég reyni yfirleitt að haga skipulaginu þannig að ég taki fundi fyrri hluta dags og noti eftirmiðdaginn til að vinna að verkefnum sem þarfnast einbeitingar.“

„Eitt af því sem mér þykir ómetanlegt við vinnudaginn er að gefa mér tíma til að setjast niður í hádeginu með samstarfsfólki mínu. Við erum oft á hlaupum svo það er ekki alltaf tækifæri til þess, en það hefur skapast hjá okkur mikil hefð fyrir því að koma með heimatilbúið nesti og fara yfir daginn og veginn sem mér þykir mjög vænt um.“

„Eftir að ég varð ófrísk eru kvöldin aðeins styttri en vanalega, en þau vil ég helst nýta til að slappa af, hreyfa mig ef ég á það eftir, jafnvel gott kvöldsund og njóta þess að vera með fjölskyldu og vinum.“

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Besta leiðin til að byrja daginn er að fara á góða æfingu. Mér finnst annars gott að vakna áður en borgin vaknar og gefa mér góðan tíma til að hafa mig til og hefja daginn.“

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnudag eða teygist vinnudagurinn fram á kvöld?

„Eins og eflaust flestir í minni stöðu þekkja eru vinnudagarnir sjaldnast eingöngu átta klukkustundir. Það er ýmislegt sem gott er að vinna í næði, annaðhvort snemma á morgnana, á kvöldin eða um helgar og svo hlutir sem þola enga bið. Það er held ég óhjákvæmilegt. En á meðan þú ert meðvitaður um að vinnan taki ekki yfirhöndina og ræktar sjálfa þig og fólkið þitt þá hef ég ekki miklar áhyggjur af því. Á móti getur vinnudagurinn líka verið sveigjanlegur og sömuleiðis gefast tækifæri til að taka styttri daga og sinna öðrum hugðarefnum.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?

„Læra eitthvað nýtt, æfa og ferðast, bæði innan lands og erlendis og eiga gæðastundir með fólkinu mínu.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál