Svona notar Gyða kortin í útlöndum

Gyða Gunnarsdóttir er greiðslukortasérfræðingur.
Gyða Gunnarsdóttir er greiðslukortasérfræðingur. ljósmynd/Landsbankinn

„Í ferðalögum til útlanda tek ég alltaf með mér bæði kredit- og debetkort og það á ekki síst við þegar farið er til landa þar sem minni hefð er fyrir kortanotkun. Debetkortið nota ég til að taka reiðufé út úr hraðbönkum, því þá er lægri úttektarþóknun innheimt en af kreditkortinu. Ég nota hins vegar kreditkortið í verslunum því sérstakt álag er lagt ofan á erlendar debetkortafærslur í verslunum,“ segir Gyða Gunnarsdóttir greiðslukortasérfræðingur hjá Landsbankanum í nýrri grein á Umræðunni. 

„Ég mæli líka yfirleitt með því að fólk taki með sér gjaldeyri en það er misjafnt eftir löndum hversu mikið er hæfilegt. Ef þú ert viss um að komast auðveldlega í hraðbanka er sennilega ekki þörf á að vera með mikinn gjaldeyri meðferðis og yfirleitt er hvort sem er öruggara og þægilegra að nota kort í posa sem greiðslu. Það þarf að hafa í huga að ef peningarnir glatast eða þeim er stolið, þá fást engar bætur. Ef þú hins vegar týnir kortunum þá er hægt að loka þeim og verja sig þar með fyrir tjóni," segir Gyða.

Gyða fór einnig yfir nokkur góð ráð sem gott er að huga þegar kemur að kortanotkun í útlöndum. 

Heimildir og ráðstöfun

„Er ég með næga úttektarheimild á kreditkortinu fyrir ferðina? Þarf ég að passa að greiða kortareikninginn meðan ég er erlendis eða er hann skuldfærður sjálfkrafa? Ekki gleyma að mörg hótel og ekki síst bílaleigur gera kröfu um að gestir og leigutakar leggi fram kreditkort sem tryggingu og mega taka frá heimild og halda henni meðan á ferð stendur.“

PIN-ið á minnið

„Þetta er auðvitað algjört grundvallaratriði. Við komumst hvorki lönd né strönd nema að muna rétt PIN fyrir það kort sem verið er að nota.“

Passaðu upp á PIN-ið

„Þessi góða vísa verður aldrei of oft kveðin. Skúrkar stunda það að fylgjast með þegar fólk slær inn PIN-númerið, stela í kjölfarið kortunum og versla svo eins mikið og hægt er, áður en korthafi verður þess var eða nær að tilkynna stuldinn. Á þeirri stundu er jafnvel búið að fullnýta heimildina og korthafi situr eftir með sárt ennið og oft á tíðum tjónið, þar sem færslurnar voru staðfestar með PIN.“

Nota snertilausa virkni

„Ég mæli með að fólk nýti sér snertilausu virkni kortanna til greiðslu þegar því verður við komið. Þar með fækkar skiptunum sem einhver getur fylgst með þér slá inn PIN.“

Ekki slá inn PIN við endurgreiðslu

„Aldrei skal slá inn PIN þegar söluaðili ætlar að endurgreiða þér með posa eða leggja inn kortið þitt.“

Læst PIN

„Ef rangt PIN er slegið of oft inn, þá læsist það. Ef PIN læsist þegar korthafi er staddur í útlöndum, þá er í flestum tilvikum hægt að aflæsa því með því að fara í hraðbanka og taka út reiðufé. Gott er að miða við lágmarks úttektarfjárhæð að virði 10-15 þúsund íslenskar krónur.“ 

Reiðufjárúttektir

„Reiðufjárúttektir erlendis eru takmarkaðar, bæði tími milli úttekta og hámarksupphæðir á sólarhring. Erlendis þurfa að lágmarki þrjár klukkustundir að líða á milli úttekta og er það hluti af áhættuvernd kortanna. Hraðbankaúttektir og gjaldkeraúttektir eru settar undir sama hatt þannig að þær reiknast saman inn í hámörk dagsins.“

Staðsetning hraðbanka

„Ef mögulegt er, þá er best að velja hraðbanka sem staðsettir eru á öruggum stöðum, svo sem við banka eða inni í banka, en forðast frekar hraðbanka sem standa stakir.“

Kostnaður

„Af reiðufjárúttektum erlendis á kreditkort greiðist þóknun samkvæmt verðskrá bankans. Nú er hún 2,75% ofan á úttektarfjárhæð, þó að lágmarki 800 krónur. Upplýsingar um Visa-gengið má finna á vef bankans,“ segir Gyða og miðar þá við gjaldskrá Landsbankans. 

Erlend úttekt í íslenskum krónum

„Fólk sem er á ferðalögum erlendis er oft spurt hvort það vilji greiða með greiðslukorti í sínum eigin gjaldmiðli, í stað gjaldmiðils viðkomandi lands. Alla jafna er dýrara fyrir korthafa að samþykkja erlendu úttektina í íslenskum krónum.“ 

Takmörkun snertilausra færslna

„Takmörkun snertilausra færslna er sú sama og á innlendum færslum nema að í viðkomandi landi séu strangari reglur, þá gilda þær.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál