Tjáðu þig án æsings og pirrings

Linda Baldvinsdóttir.
Linda Baldvinsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Veistu, stundum held ég að við gleymum hversu miklu við stjórnum í lífi okkar með ómerkilegasta vali okkar, en setjum okkur svo miklu heldur í þá stöðu að vera fórnarlömb kringumstæðnanna þar sem við ráðum svo litlu og dveljum í vanmætti okkar,“ segir Linda Baldvinsdóttir samskiptaráðgjafi og markþjálfi hjá Manngildi í sínum nýjasta pistli: 

Við getum ekki ráðið hvaða verkefni koma inn í líf okkar en við getum svo sannarlega ákveðið hvernig við ætlum að taka á þeim og vinna með þau.

Við höfum vald til að breyta svo mörgu í okkar lífi, við þurfum bara að verða meðvituð um það og taka skrefin sem færa okkur inn í aðstæður þær sem við kjósum frekar en þær sem nú eru.

Við getum til dæmis ákveðið skoðanir okkar og viðhorf og við getum breytt þeim þegar okkur sýnist svo.

Við getum stjórnað miklu hvað varðar heilsu okkar og lífsstíl ef við bara nennum að taka það í gegn.

Við getum breytt hugsunum okkar og valið að vera í möguleikunum en ekki í afsökununum, verið í jákvæðni en ekki neikvæðni, valið að tala fallega um og inn í líf annarra, að byggja okkur sjálf og aðra upp frekar en að tala um veikleika og ómöguleika allra.

Við getum valið að sjá lífið sem fallegt og gott, að landið okkar sé frábær staður og allir séu okkur velviljaðir, nú eða við getum séð allt ómögulegt við þetta allt saman. Það er hugsunin okkar um það sem við erum að sjá og fást við hverju sinni sem öllu ræður þegar allt kemur til alls!

Við getum valið félagsskap okkar og starfsvettvang þó að ekki getum við valið okkur fjölskyldu, en við hinsvegar berum ekki skyldu til að umgangast þá sem hafa vond áhrif á okkur hvort sem er inni í fjölskyldunni eða annarstaðar.

Við getum valið að gefast aldrei upp og standa upp aftur og aftur og verða nær takmarki okkar í hvert eitt sinn sem við gerum það þó að stundum þurfum við að taka tvö skref aftur á bak og eitt fram, þá skiptir það ekki öllu máli - heldur það að við stóðum upp sem að lokum mun skila sér til okkar í formi góðrar uppskeru.

Við getum valið að vera kurteis, velviljuð, kærleiksrík og góðhjörtuð eða ekki, verst hvað margir velja að vera það ekki.

Við getum valið að setja fókusinn okkar á allt annan stað en hann er í dag og látið hugsanir okkar, tifinningar og heilann hjálpa okkur við að ná þangað.

Við getum valið að standa með okkur sjálfum á virðingaverðan hátt og setja framkomu annarra mörk.

Við getum valið að eiga góð samskipti og að koma tilfinningum okkar og viðhorfum á framfæri án æsings og pirrings.

Við getum valið að fyrirgefa þó ekki sé nema fyrir okkur sjálf.

Og að lokum getum við ákveðið að vera þakklát sama hvað, þar liggur eitthvert lögmál, því að þeir sem þakka fá yfirleitt enn meira til að þakka fyrir. 

Ég hlustaði ræðu sem vinkonu mín í ræðu hélt um daginn þar sem hún talaði um það hvernig líf okkar kaflaskiptist og hvernig þeir kaflar sem við göngum í gegnum væru eins og þegar við göngum í gegnum hlið, eða frá einum stað til annars.

Í Biblíunni (sem hún vitnaði í) og í fleiri góðum bókmenntum er gjarnan talað um að við þurfum að ganga í gegnum perluhliðin og er þá átt við að við förum í gegnum hlið til að ná frá einum stað á annan í lífinu, og það sem er svo merkilegt við þessa frásögn er að þessi hlið eru skreytt dýrindis perlum.  

Mér þótti þetta merkilegt vegna þess að ég veit hvernig perlur verða til, en þær verða til við að það fer sandkorn inn í skelina sem veldur ostrunni miklum óþægindum og núningi, en engu að síður verður til dýrmæt perla mitt í óþægindunum, og þannig finnst mér það einnig oft vera í okkar lífi.  Við göngum í gegnum erfið verkefni og öðlumst á leiðinni dýrmæta reynslu sem nýtist vel á leið okkar inn í næsta kafla lífs okkar.

Munum bara að reynslan sem við fáum í öllum núningi lífsins verður okkur alltaf dýrmæt og gjöful með einhverjum hætti að lokum þó að erfið geti hún oft verið.

En elsku við - gleymum aldrei að það erum við sjálf sem sitjum við stjórnvölinn með vali okkar hverju sinni, í smáu sem stóru og við ráðum alltaf framkomu okkar, hegðun og flestu öðru sem inn í daglegu lífi okkar er, og það er gott að hafa í huga að lögmál sáningar og uppskeru er að störfum í okkar lífi öllum stundum.

Við  ráðum nefnilega svolítið miklu um það hvort uppskeran okkar verður góð eða slæm, það fer allt eftir því sem sáð er, og síðan umhugsuninni, kærleikanum og alúðinni sem við veitum því sæði síðan á vaxtatímanum.

Og ef þú þarft hjálp við að leysa úr þínum lífsins verkefnum þá er ég eins og alltaf bara einni tímapöntun í burtu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál