Sjálfsþekking skapar ofurkraft

Miles Adcox verður fyrirlesari á Íslandi á iCAAD ráðstefnunni næstu …
Miles Adcox verður fyrirlesari á Íslandi á iCAAD ráðstefnunni næstu helgi sem haldin verður í Gamla bíó. Ljósmynd/Aðsend

Miles Adcox er vinsæll fyrirlesari víða um heiminn. Þrátt fyrir velgengni hans er hann auðmjúkur, heiðarlegur og á ekki erfitt með að sýna á sér hliðar sem eru mannlegar. Hann er eigandi Onsite sem býður upp á vikuleg námskeið fyrir persónulegan þroska og umbreytingu í m.a. samböndum fólks. Adcox verður fyrirlesari á iCAAD ráðstefnunni á Íslandi í Gamla bíó næstkomandi laugardag. Aðspurður um hvað yrði meginstef í fyrirlestri hans um helgina hér á landi segir hann: „Ég mun útskýra mikilvægi þess að samþætta tilfinningalegan þroska og djúpa innri tengingu við okkur sjálf og fólkið í kringum okkur í lífinu. Ég mun fjalla um nokkra mikilvæga þætti sem eru sameiginlegir þeim 30.000 manns sem hafa farið í gegnum námskeiðin mín og breytt áföllum og mótlæti í styrkleika.

Það að lifa hamingjusamlegu, gleðilegu og frjálsu lífi er ekki einungis fyrir þá sem eiga fullkomna fortíð. Við eigum öll valmöguleika á að upplifa tilfinningalegt frelsi ef við erum tilbúin að breyta hugmyndafræði okkar um hvernig við tjáum okkur og hlustum á aðra.

Að sýna varnarleysi (vulnerability) í stjórnun og lífinu er að sanna það og sýna þessa dagana að það eflir tengsl og breytir okkur til hins betra.“ 

Þú hefur sagt að sjálfsþekking skapi ofurmátt. Hvað áttu við með því?

„Lífið getur kýlt okkur niður með miklum tilfinningaþunga. Þungi ábyrgðar, þrýstingur á okkur að standa okkur, einangrunin við að standa sig vel. Þetta eru allt hlutir sem erfitt er að stjórna. Það er ástæðan fyrir því að mörg okkar búum til frábært líf út á við en svo er innra líf okkar og sambönd oft í molum. Andleg heilsa okkur getur búið til frábæra menningu, fjölskyldur eða samfélög eða eyðilagt þau. Það þykir öllum sjálfsagt að við vitum hver við erum eða hver við erum að verða. Sumir spá jafnvel ekkert í þessum andlega þætti lífsins. Að mínu mati er heilbrigt að vera meðvitaður um hver við erum. Þessi sjálfsþekking er að mínu mati grunnurinn að langtíma velgengni og framúrskarandi árangri í lífinu. Að öðlast hæfni til að þekkja okkur sjálf betur getur umbylt því hvernig við lifum, elskum, foreldrum og stjórnum í lífinu.“

Ég hef lesið að þú hefur unnið vel í þér sjálfum og þegið aðstoð með þá hluti sem hafa verið áskorun fyrir þig. Getur þú sagt okkur eitthvað um það?

„Ég trúi því að það er ekki hægt að taka fólk á þá staði sem við erum ekki tilbúin að fara á sjálf. Af þessum sökum er ég stöðugt að vinna djúpt í mér og mínu lífsferðalagi. Ég horfi sífellt á það hvernig fortíðin mín er að hafa áhrif á veruleikann minn í dag og framtíðina. Ég mun útskýra hvernig sú vinna fer fram svo þú getir náð þangað líka.“

Hvað getur þú sagt mér um Onsite?

„Onsite er lífsstíls vörumerki þar sem við vinnum með vellíðan og tilfinningar. Við bjóðum upp á umbreytanlegar vinnustofur, áhrifaríkt efni, vikulanga dvöl fyrir þá sem vilja vera leiðtogar í sínu lífi sem og stjórnendur. Eins bjóðum við upp á áfalla meðferð. Onsite er á fallegri jörð sem er 250 ekrur að stærð rétt utan við Nashville í Tennessee í Bandaríkjunum. Við fáum yfir 2.000 manns alls staðar að úr heiminum árlega. Við störfum með bestu ráðgjöfum í okkar fagi. Í þessu starfi okkar leitumst við að því að hafa áhrif á menningu víða um heiminn, við viljum afmá fordóma fyrir andlegum sjúkdómum og hjálpa fólki að verða meira sjálfsmeðvitað, auðmjúkt og auka þanþol þeirra í lífinu.“

Adcox segir að 70 sérfræðingar víðsvegar að úr heiminum ljái Onsite krafta sína í hverri viku. Hann segir að meðferð og úrvinnsla tilfinninga til að öðlast meiri persónulegan þroska hafi löngum verið frátekið fyrir þá sem eiga í erfiðleikum í lífinu. „Að mínu mati er þetta ekki réttur fókus. Meðferð í allskonar áskorunum á erindi við okkur öll. Eftir að ég starfaði í mörg ár í meðferðargreininni varð ég meðvitaður um þá staðreynd að þeir sem höfðu lent á botninum með sín mál og höfðu fengið góða meðferð við sínum vandamálum, fengu aðgang að mjög áhugaverðu nýju lífi, þar sem þeir urðu andlega heilir að nýju og gott betur en það. Þetta tækifæri var ekki að gefast almenningi  í samfélaginu okkar. Það að taka viku eða 30 daga til að vinna í okkur sjálfum til að verða besta útgáfan af okkur er ekki meðferð eða refsing; heldur tækifæri lífs þíns. Þetta er eins og að fá doktorsgráðu í bestu útgáfunni af þér. Ég trúi að við getum öll fengið þetta tækifæri í lífinu ef við nennum að vinna vinnuna.“

Með hverskonar fólki vinnur þú aðallega?

„Við vinnum með öllum þeim sem hafa upplifað mótlæti af einhverjum toga. Þeim sem eru tilbúnir að horfa á þann hluta sögu sinnar sem er ekki lengur að þjóna þeim í daglega lífinu. Með öllum þeim sem langar að kafa dýpra í að skilja sjálfan sig og samböndin sem þeir eru í með sínum nánustu. Við vinnum með því fólki sem langar til að verða besta útgáfan af sér. Við sérhæfum okkur jafnframt að vinna með fólki sem hefur upplifað áföll og eru á öðru stigi í bata sínum.“

Ertu með skilaboð til okkar Íslendinga?

„Að koma auga á, skilja og geta talað um það sem við erum ómeðvituð um í lífinu (blind spots) snýst ekki um hvað sé rangt við okkur, heldur það sem er rétt við okkur. Þeim mun meira sem við vitum um okkur sjálf og hvernig við getum haft áhrif á þá sem eru í kringum okkur, þeim mun betur getum við haft áhrif á veröldina sem við lifum í. Ég hef einungis heyrt frábæra hluti um landið ykkar og þjóð. Ég get ekki beðið eftir því að hitta ykkur um helgina og ræða það sem ég hef lært í gegnum lífið og upplifa lærdóm af ykkur í staðinn.“

Sjá meira um ráðstefnuna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál