Með fjölmiðlabakteríuna í sér

Margrét Kristín Sigurðardóttir á einstaklega fallegt heimili.
Margrét Kristín Sigurðardóttir á einstaklega fallegt heimili. mbl/Arnþór Birkisson

Margrét Kristín Sigurðardóttir er almannatengsla- og samskiptastjóri Samtaka iðnaðarins. Hún er áhugamanneskja um listir og menningu og fær útrás fyrir þann áhuga í hlutverki formanns Myndlistarráðs. Undir hennar forystu var komið á Íslensku myndlistar-verðlaununum sem afhent voru í fyrsta skipti fyrir skömmu. Margrét hefur í gegnum tíðina sinnt félagsstörfum af ýmsu tagi. Hún var fyrst kvenna formaður Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga, FRV, og er núna formaður Félags háskólakvenna, FHK, sem er merkilegur félagsskapur með sögu allt til ársins 1928 þegar fyrstu háskólakonurnar tóku sig saman og mynduðu félagsskap til að vinna að framgöngu kvenna á þeim tíma. Margrét er einnig í LeiðtogaAuði sem er deild innan FKA og í Emblum sem er félagsskapur kvenna með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. 

Út á hvað geng­ur starfið?

„Starfið mitt hjá Samtökum iðnaðarins er mjög fjölbreytt og þá að sama skapi erilsamt. Í samtökunum eru 1.400 fyrirtæki og fjölmargir starfsgreinahópar einstakra atvinnugreina. Áherslumál samtakanna eru menntun, innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi. Það er því margt sem þarf að koma á framfæri bæði við félagsmenn, ráðamenn og almenning. Almannatengsla- og samskiptastjóri ber ábyrgð á samskiptum samtakanna út á við, hann er tengiliður við fjölmiðla og miðlar upplýsingum til helstu hagaðila. Í starfinu felst einnig að halda utan um viðburði og markaðsefni samtakanna. Auk þess er ég til aðstoðar fyrir aðra starfsmenn samtakanna.

Ég ritstýri vef samtakanna þar sem daglega eru settar inn nýjar fréttir af starfseminni og því sem tengist samtökunum auk þess sem við notum samfélagsmiðlana til að koma efni til skila. Liður í því að upplýsa félagsmenn er útgáfa á fréttabréfi sem kemur út mánaðarlega. Það hefur að undanförnu verið mikil áhersla á að leggja fram til umræðunnar í samfélaginu vandaðar og faglegar greiningar. Meðal þess eru viðamiklar skýrslur sem samtökin hafa gefið út um ástand innviða á Íslandi og samkeppnishæfni Íslands. Þá höfum við gefið út Iðnþingsblað og myndbönd til að vekja  athygli á áhugaverðum störfum innan iðnaðarins.“ 

Hvað skipt­ir máli fyr­ir kon­ur að hafa í huga ef þær ætla að ná langt á vinnu­markaði?

„Almennt held ég að það skipti mestu máli að vera almennileg manneskja hvort sem það á við um konur eða karla. Góð menntun af hvaða toga sem er skiptir máli. Hjá Samtökum iðnaðarins eru þrjú gildi sem ég tengi ágætlega við og held að flestir ættu að tileinka sér en það eru fagmennska, samvinna og áræðni. Með þetta þrennt að leiðarljósi held ég að hægt sé að ná nokkuð langt. En heppni spilar líka inn í því það skiptir máli að lenda hjá góðu fólki sem veitir þér svigrúmið til að ná þangað sem þú stefnir. Það er alltaf einhver sem tekur ákvörðun um hver fær starfið eða verkefnið sem þú sækist eftir.“ 

Margrét Kristín Sigurðardóttir er almannatengsla- og samskiptastjóri Samtaka iðnaðarins.
Margrét Kristín Sigurðardóttir er almannatengsla- og samskiptastjóri Samtaka iðnaðarins. mbl/Arnþór Birkisson

Hvernig var þinn fer­ill?

„Það má segja að minn starfsferill hafi hafist þegar ég fékk sumarvinnu á Morgunblaðinu 17 ára gömul. Ég fékk að vera þar í mismunandi störfum öll sumur þegar ég var í Verslunarskólanum og á góðar minningar frá þeim tíma. Ég var svo heppin að lenda ávallt hjá góðum stjórnendum sem treystu mér fyrir ábyrgðarmiklum verkefnum. Þegar ég lít til baka sé ég hversu miklu máli það skiptir að stjórnendur séu almennilegar manneskjur, leyfi ungu fólki að takast á við krefjandi verkefni og sýni velvilja í verki. Með skólagöngu fékk ég að spreyta mig í því að vera setjari, blaðamaður, ritari fréttastjóra og auglýsingasölumaður. Þegar ég útskrifaðist sem viðskiptafræðingur var mér boðið nýtt starf markaðsstjóra Morgunblaðsins sem ég að sjálfsögðu þáði. Það var frábært tækifæri að fá að búa til nýtt starf og byggja upp markaðsdeild frá grunni. Á þessum tíma stýrði ég ótal markaðsherferðum sem hlutu alþjóðlegar viðurkenningar og tók þátt í að koma á fjölmiðlamælingum á Íslandi svo auglýsendur hefðu áreiðanleg gögn til að byggja sínar birtingaráætlanir á. Um tíma starfaði ég sem rekstrarstjóri ritstjórnar Morgunblaðsins þar sem fjármál og mannauðsmál voru á mínu borði.

Ég hafði brennandi áhuga á útgáfum blaða og fékk tækifæri til að taka þátt í og stýra margvíslegum sérblaðaútgáfum fyrir Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins. Ég fékk að búa til ný blöð og ritstýra þeim, til dæmis blað um mat og vín sem hét M, Tímarit Morgunblaðsins sem kom út á sunnudögum, Málið sem var blað fyrir ungt fólk, auk þess að vera ábyrgðarmaður á Lifun sem var nokkurs konar lífstíls- og hönnunarblað og 24-7 sem var blað ætlað ungu fólki. Líklega eru þetta með skemmtilegri verkefnum sem ég hef tekið að mér þar sem ég fékk að virkja sköpunarþörfina. En þó að prentuð blöð væru mitt uppáhald þá vissi ég að nauðsynlegt væri að búa til útgáfu á netinu sem þá var að ryðja sér til rúms í heiminum. Það var því frábært verkefni að taka þátt í að skapa mbl.is frá grunni. Allt frá fyrstu hugmyndum og þar til vefurinn varð að veruleika. Ég þurfti að berjast töluvert fyrir nafngiftinni mbl.is því sumum samstarfsmönnum mínum fannst það ómögulegt. Einhverjir vildu frekar nefna útgáfuna Morgunblaðið á netinu.is. Ég tíndi til ótal rök fyrir stuttri nafngift og fann alþjóðleg vörumerki með þremur bókstöfum sem höfðu fest sig í sessi til að sannfæra menn um að þetta væri rétta nafnið.

En þar sem ég var ávallt reiðubúin að taka að mér ný krefjandi verkefni stökk ég til þegar búið var til nýtt starf hjá útgáfufélaginu sem var forstöðumaður sölu- og markaðssviðs Árvakurs þar sem þrjár deildir voru sameinaðar í eina, áskriftardeild, auglýsingadeild og markaðsdeild. Þetta reyndist heilmikið verkefni en mér tókst að velja gott fólk með mér svo það tókst vel til.

Ég vildi bæta við mig menntun og kláraði MBA-gráðu. Í MBA-náminu tók ég einn kúrsinn í Kína og fékk gríðarlega mikinn áhuga á landinu. Þar sem mig langaði til að vita meira um Kína leiddi það mig í Austur-Asíufræði í Háskóla Íslands. Í framhaldi af því ákvað ég að fara í meistaranám í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum þar sem ég skrifaði meistararitgerðina mína í tengslum við fyrirtæki í Shanghai. Mér var boðin vinna í Shanghai og hefði auðveldlega getað ílengst þar.  

Eftir árin hjá Árvakri og samhliða skólagöngunni þá starfaði ég um tíma sem sjálfstæður rekstrarráðgjafi í stefnumótun, almannatengslum og markaðsstjórnun. Ég tók að mér skemmtileg verkefni í tengslum við margvísleg nýsköpunar- og þróunarverkefni, vefmiðla og tímaritaútgáfur. Þá var ég um tíma ráðgjafi hjá KOM almannatengslum, markaðs- og sölustjóri Birtíngs og blaðamaður á ViðskiptaMogganum.

Síðustu ár hef ég verið hjá Samtökum iðnaðarins þar sem eru ótal krefjandi verkefni. Það verður nú að viðurkennast að fjölmiðlabakterían er enn í mér og kannski losnar maður aldrei við hana. Það sem er áhugavert er að starfið hjá samtökunum er ekki svo ólíkt því að starfa á fjölmiðli þar sem hver dagur er hálfgerð óvissa. Þegar ég mæti á morgnana veit ég sjaldan hvaða verkefni þarfnast forgangs eða hvaða tímamörk þarf að keppa við og ná.“ 

Fannst þér þú upp­skera á ein­hverj­um tíma­punkti að þú vær­ir búin að ná mark­miðunum þínum?

„Já ég hef oft náð þeim áfanga að ná markmiðum mínum og leyfi mér þá að fagna því. Auðvitað hef ég líka orðið fyrir vonbrigðum en þá reyni ég að dvelja ekki lengi við það. Mér finnst ég enn þá vera á fleygiferð og keppist við að ná markmiðum alla daga. Það er ekki eitt endanlegt markmið sem ég stefni á heldur að klára hvert verkefni sem ég tek að mér eins vel og ég get.“ 

Hvað gef­ur vinn­an þér?

„Mér finnst gaman að vinna og hef ánægju af því að hitta vinnufélaga mína hvern morgun. Í vinnunni finnst mér ég stöðugt vera að bæta við mig þekkingu og læra eitthvað nýtt. Það er kannski heppilegt að starfið sem ég sinni núna krefst þess að ég fylgist vel með fjölmiðlunum því það er eitt af því skemmtilegra sem ég geri. Ég byrja því hvern dag á að lesa yfir alla helstu fjölmiðlana til að fylgjast með nýjustu fréttum. Annars er fjölmiðlaumhverfið að breytast hratt og vefmiðlar á netinu að ná forystu. Það liggur við að nú sé staðan orðin þannig að ef það sést ekki á netinu þá hefur það ekki gerst.“

Hef­ur þú átt það til að of­keyra þig, og ef svo er, hvernig hef­ur þú brugðist við því?

„Ég verð víst að játa að það hefur gerst. Ég hef reynt það á eigin skinni að álag og streita getur valdið líkamlegum einkennum sem erfitt getur verið að eiga við. Núna reyni ég að vera meðvituð um að láta ekki stressið ná svo miklum tökum á mér að líkaminn gefi eftir en það er hægara sagt en gert að stjórna því.“

Finnst þér kon­ur þurfa að hafa meira fyr­ir því að vera ráðnar stjórn­end­ur í fyr­ir­tækj­um en karl­menn?

„Já það sýnir sig að þær þurfa að hafa mun meira fyrir því. Það virðist sem strákarnir passi betur upp á hvern annan og eigi auðveldara með að fá vel launuðu stjórnunarstörfin. Ég heyri af konum sem hafa ekki fengið störfin sem þeim langar í þrátt fyrir góða menntun og heilmikla reynslu. Ég mundi ráðleggja ungum konum í dag að stefna að því að verða sjálfs síns herra og skapa eitthvað í kringum sjálfa sig. Það er ekki á neitt að treysta í því að geta fengið einmitt starfið sem þær sækjast eftir. Það tekur tíma að byggja upp eitthvað nýtt og því gæti verið ráð að hefjast handa tiltölulega ungur.“

Áttu þér ein­hverja kven­fyr­ir­mynd?

„Fyrir mörgum árum kom Hillary Clinton til landsins og flutti erindi á ráðstefnu sem haldin var í Borgarleikhúsinu. Ég hlustaði á hana flytja blaðalaust mjög innblásið erindi og fannst mikið til koma. Eftir ráðstefnuna fór ég baksviðs og fékk tækifæri til að taka í höndina á henni og spjalla stuttlega við hana. Ég hefði viljað sjá hana verða fyrstu konuna til að gegna starfi forseta Bandaríkjanna. Hún hefði farið létt með það og heimurinn væri betur settur ef hún hefði náð í þann stól. Önnur kona sem mér finnst vera helsta kvenfyrirmynd íslenskra kvenna er Vigdís Finnbogadóttir. Hún náði miklum árangri í sínu starfi og hefur án efa haft áhrif á margar kynslóðir kvenna, ekki einungis á Íslandi heldur út um allan heim. Þegar ég var í blaðabransanum horfði ég til konu sem heitir Tina Brown, mér fannst hún alltaf vera með puttann á púlsinum sem ritstjóri en hún ritstýrði meðal annars The New Yorker, Vanity Fair, Tatler og kom á fót vefmiðlinum The Daily Beast. En ég er líka full aðdáunar á öllum þeim íslensku myndlistarkonum sem hafa stundað list sína, allt frá Gerði Helgadóttur og Louisu Matthíasdóttur sem á sínum tíma sköpuðu merkileg verk og til ungra myndlistarkvenna dagsins í dag eins og Auði Lóu Guðnadóttur sem fékk hvatningarverðlaun Íslensku myndlistarverðlaunanna á þessu ári.“ 

Ertu með hug­mynd um hvernig er hægt að út­rýma launamun kynj­anna fyr­ir fullt og allt?

„Það er óskiljanlegt að ekki sé hægt að útrýma þessum mun. Það eru bæði konur og karlar að taka ákvarðanir um laun starfsmanna þó í flestum tilvikum séu það karlar þar sem þeir eru í miklum meirihluta í stjórnunarstörfum. En margir þessara karla eiga dætur og það er skrýtið ef þeir eru reiðubúnir að borga dætrum sínum lægri laun en strákum fyrir sambærileg störf. Einu sinni var ég í starfi þar sem ég vissi að mín laun voru töluvert lægri en strákanna. Þrátt fyrir eftirgangssemi um hækkun fékk ég ekki leiðréttingu og endaði á því að hætta í starfinu um leið og betur bauðst. Ef fyllstu sanngirni hefði verið gætt og ég hefði fengið sambærileg laun við strákana hefði ég líklega getað hugsað mér að vera áfram. Ég gæti trúað að atvinnurekendur missi oft hæfileikafólk vegna þessa. Það er vonandi að næsta kynslóð stjórnenda passi upp á þetta svo launamunurinn hverfi með öllu.“ 

Hvernig skipu­legg­ur þú dag­inn?

„Ég reyni að gera lista yfir öll verkefnin sem þarf að sinna hvern dag svo það gleymist nú ekkert. En mér finnst líka gott að setja verkefnin inn í dagatal í símanum og fá áminningu ef ég á að mæta einhvers staðar eða skila verkefni. Starfið sem ég er í núna er reyndar mjög líkt því að starfa á fjölmiðli að því leyti að þegar ég mæti á morgnana veit ég oft ekki hvaða verkefni fylgja deginum. Það getur verið mikið at að klára tiltekin verkefni á réttum tíma þannig að flesta daga er ég að keppa við „deadline“ líkt og fjölmiðlafólk þekkir vel. Það kemur sér því vel að vera fjölmiðlavön og kunna að vinna hratt.“

Hvernig er morg­un­rútín­an þín?

„Ég vakna á morgnana klukkan sjö. Áður en ég fer í sturtuna geri ég styrktar- og teygjuæfingar með mínu sniði í um 15 mínútur til að liðka mig til fyrir daginn. Að öllu jöfnu er morgunmaturinn minn eitt hrært egg en núna er ég að fasta frá 8 á kvöldin og fram til hádegis daginn eftir þannig að þá sleppi ég morgunmatnum og læt nægja að drekka vatn. Hluti af morgunverkunum er síðan að skanna helstu fjölmiðlana.“

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnu­dag eða teyg­ist vinnu­dag­ur­inn fram á kvöld?

„Það er mjög algengt að vinnudagurinn teygist umfram 8 klukkutímana. Í undirbúningi að stórum viðburðum eins og aðalfundi, Iðnþingi og árshófi samtakanna þá eru bæði kvöld og helgar undirlögð í vinnu. Ég set það ekki fyrir mig á meðan mér finnst verkefnin skemmtileg sem ég er að sinna þó ég viti að það er ekki hollt til lengdar að vinna þannig. Það er auðvitað nauðsynlegt að finna jafnvægi milli vinnu og einkalífs en það er nú stundum erfitt að ná því þegar klára þarf verkefni fyrir tiltekinn tíma.“ 

Hvað finnst þér skemmti­leg­ast að gera utan vinnu­tíma?

„Það er skemmtilegt að verja tíma með dóttur minni, Helenu Margréti Jónsdóttur, sem er nemandi í Listaháskóla Íslands. Okkur finnst gaman að fara saman á listsýningar og í leikhús. Þá erum við duglegar að fara saman út að borða eða á kaffihús og henni tekst líka að draga mig með sér í sund sem er frábær líkamsrækt og kem ég alltaf endurnærð upp úr lauginni. Þegar hún stundaði nám í Royal Academy of Arts í Haag í Hollandi var ég dugleg að skreppa til hennar yfir helgi sem varð til þess að Haag er núna ein af mínum uppáhaldsborgum.

Annars stundaði ég nám í Myndlistarskólanum í Reykjavík um tíma og lærði olíumálun. Fór reyndar svo langt með þetta áhugamál að ég var með vinnustofu úti á Granda og æfði mig í að mála með olíu á striga. Við mæðgurnar fórum eitt sumarið í listaháskólann Central Saint Martin í London sem var heilmikil upplifun enda kom fólk alls staðar að úr heiminum til að læra hjá þeim. Ég stefni að því að taka upp penslana síðar þegar um hægist.

Mér finnst líka gaman að hitta vinkonur mínar en ég er í sex mismunandi vinkvennahópum sem hittast með jöfnu millibili ýmist á veitingastöðum, kaffihúsum eða heima hjá hvor annarri. Þetta eru allt saman einstakar konur sem eru að fást við ólík verkefni sem gaman er að fá innsýn inn í. Það er mjög hressandi að hitta þær og skiptast á fréttum.“

Hvað ætl­ar þú að gera í sum­ar­frí­inu?

„Aldrei slíku vant er ég ekki komin með neitt plan fyrir sumarfríið. Ég fór fyrir skömmu á námskeið þar sem meðal annars var farið yfir hvað maður gæti gert til að koma sér úr því að vera eins og hamstur í hlaupahjóli og læra betur að forgangsraða. Núna skrái ég í sérstaka bók það sem mig langar til að gera og kannski kem ég einhverju í verk í sumar af þeim lista. Þetta  virðist virka því ég skráði í bókina að mig langaði aftur í jóga og nokkrum dögum síðar var ég búin að skrá mig í jógatíma sem ég stefni á að stunda vel í sumar.  Annars erum við mæðgurnar búnar að vera lengi með það á óskalistanum að fara til Japans. Við erum búnar að fara saman til Kína og stefnum á að komast til Japans fyrr en seinna.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál