„Þetta er mjög karllægur geiri“

Birgitta Rún Sveinbjörnsdóttir og Hugrún Ragnarsdóttir, stofnendur Studio Yellow.
Birgitta Rún Sveinbjörnsdóttir og Hugrún Ragnarsdóttir, stofnendur Studio Yellow. Aðsend mynd

Í vor stofnuðu þær Birgitta Rún Sveinbjörnsdóttir og Hugrún Rúnarsdóttir fyrirtækið Studio Yellow. „Studio yellow er glæný vefstofa. Við sérhæfum okkur í öllu sem tengist vefsíðugerð, allt frá þarfagreiningu og notendaprófunum yfir í hönnun og forritun.“ Þær leggja báðar stund á vefþróun við Vefskólann en þær kynntust í náminu. Þær eiga eitt ár eftir af náminu og líta á þetta sem gott tækifæri til að halda áfram að læra og öðlast reynslu á þessu sviði.

Birgitta er með BA-gráðu í félagsfræði og markaðsfræði frá Háskóla Íslands og hefur starfað við umbrot á Fréttablaðinu. Hugrún útskrifaðist af náttúrufræðibraut frá Verkmenntaskólanum á Akureyri, hún hefur einnig lært förðunarfræði og grafíska miðlun í Tækniskólanum.

Gulur er uppáhaldsliturinn þeirra.
Gulur er uppáhaldsliturinn þeirra. Aðsend mynd

Þær hafa báðar stefnt að því lengi að stofna sitt eigið fyrirtæki. „Það er búið að vera draumur hjá okkur báðum að stofna okkar eigin fyrirtæki. Foreldrar okkar eiga sín fyrirtæki,“ segir Birgitta. Hugrún bætir við að það komi líklegast þaðan að vilja stefna hátt. Þegar leið á skólaárið fundu Birgitta og Hugrún að þær ynnu vel saman. Þær sáu því tækifæri til að láta drauminn rætast og stofnuðu Studio Yellow nú í vor.

Allt frá stofnun hafa þær lagt áherslu á að kynna þjónustuna á samfélagsmiðlum. „Þar sem við erum nýjar í þessum bransa höfum við haft tíma til að leggja metnað í að skapa skemmtilegt efni á Instagram.“

Þær segja báðar að það hafi gengið vel að fá kúnna og verkefni. „Við höfum einblínt á lítil fyrirtæki, frumkvöðla og einstaklinga. En það eru líka stærri verkefni að koma inn sem eru mjög spennandi,“ segir Birgitta. „Það eru rosalega mikið af síðum á veraldarvefnum sem eru ekki beint notendavænar og það er mjög þarft að taka þær í gegn.“ Þær finna fyrir eftirspurn þrátt fyrir að mörg reyndari fyrirtæki bjóði upp á sömu þjónustu og þær. „Helsta áskorunin er að við höfum ekki lokið neinum verkefnum enn sem komið er og því getum við ekki sýnt kúnnum fyrri verkefni,“ segir Hugrún. „En fólk er ótrúlega tilbúið að sjá hvað við höfum fram að færa. Birgitta samsinnir því og segir að þær finni fyrir meðbyr. „Við erum bæði að endurhanna síður sem eru til og gera þær notendavænni. Svo hönnum við líka síður frá grunni,“ segir Hugrún.

Karllægur geiri

„Þetta er mjög karllægur geiri og aðeins þrjú prósent þeirra sem starfa í þessum geira eru konur. Við finnum það þegar við mætum í verkefni að fólk lítur tvisvar á okkur, af því við erum ungar og skerum okkur úr. Við höfum heyrt frá þeim kúnnum sem hafa haft samband við okkur að þeir velja okkur stundum út af því að við erum stelpur,“ segir Birgitta. Það vekur einnig áhuga kúnna að þær séu enn þá í námi og komi inn með ferskar hugmyndir og nýjar leiðir til að nálgast hlutina. Þær hafa mikinn metnað fyrir starfinu og telja sína styrkleika vera persónulega þjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál