Kvenkyns Warren Buffett á Íslandi

Annie Wu er einstök fyrir margar sakir. Hún leiddi gerð …
Annie Wu er einstök fyrir margar sakir. Hún leiddi gerð fyrsta samnings við meginland Kína á áttunda áratug síðustu aldar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Frumkvöðullinn Annie Wu frá Hong Kong er stödd hér á landi þessa dagana. Hún getur ekki haft langa viðdvöl þó hún komi hingað með 40 manna fylgdarlið, til að sinna sameiginlegum hagsmunamálum Íslands, Hong Kong og Kína í menningu, hönnun og viðskiptum. Hún stýrir 14 fyrirtækjum og ýmsum samfélagslegum verkefnum. Hún kemur úr umhverfi þar sem feðraveldið ræður ríkjum. Þar sem staða konunnar er ákveðin af föður hennar. Wu er alin upp af framsæknum föður, Dr James Tak Wu, sem var þekktur viðskiptamaður í m.a. veitingarekstri. Hann átti einnig næturklúbba, leikhús og kvikmyndahús. Það var í gegnum erlendar kvikmyndir sem hann fékk hugmyndina að uppeldi Wu. Hún er mörgum kunn, enda leiddi hún fyrsta viðskiptasamning á milli Hong Kong og meginland Kína, á efnahagslegum umbótatíma (Open door policy) Kína á áttunda áratug síðustu aldar. 

Árið 2002 var Wu valin ein af tíu áhrifamesta konan í Kína. Hún er stödd á Íslandi um þessar mundir að tilefni, „International Young Fashion Designers Showcase Tour“, sem er alþjóðleg sýningarröð með fatahönnuðum frá Hong Kong, Kína, Panama og Tansaníu auk Íslands. En markmiðið með sýningunni er að beina sjónum að ungum og upprennandi fatahönnuðum. Almenningur getur skoðað sýninguna í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu á laugardaginn næsta.

Dr Annie Wu er mörgum er þekkja til í viðskiptalífi Kínverja kunn. Hún leiddi eins og fyrr segir fyrsta samning Hong Kong við meginland Kína sem gerir hana að eigandi viðskiptaleyfis númer 001 við Kína. Samningurinn var gerður við Deng Xiaoping sem vann að umbreytingu kínverska hagkerfisins á sínum tíma. Hann var liður í að fá erlenda fjárfestingu inn í landið og að opna kínverska hagkerfið fyrir tækifærum víða um heiminn. Þetta var tímamóta samningur, sá fyrsti á milli meginlandsins og erlends ríkis, upphafið af stofnun Beijing Air Catering Ltd sem Wu hefur stýrt allar götur síðan. Wu rifjar upp hvernig samningurinn tók tvö ár í bígerð, hann hafi verið að fyrstu einungis munnlegur. Enda skiptir traust, sjarmi og langtímasamband öllu þegar kemur að viðskiptum á þessu svæði.

Brautryðjandi á sviði viðskipta

Að tala við Wu er eins og að tala við mannlegt vélmenni. Hún talar hratt, hún talar aldrei um sjálfan sig. Hún er jákvæð, einbeitt og vel undirbúin að svara spurningum um allt sem tilheyrir hennar heimi, en einnig þeirri veröld sem blaðamaður kemur úr.

Það sem þótti einstakt við samningin sem gerður var við Kína var m.a. að hann var gerður af konu, við ríki þar sem meginhlutverk konunnar var inn á heimilinu. Wu hefur ánægju af því að rifja upp þennan tíma og að tala um viðskipti, enda hefur hún valið að fara þá leið í lífinu að setja alla krafta sína í viðskipti.

Hún minnist þess að hafa hitt allskonar fólk á heimili sínu sem barn. Sjálf ætlaði hún alltaf að verða kúreki, verða sjálfstæð og stjórna för. Kannski er staða hennar í dag ekki svo ólík lífi kúreka. Hún vissi í það minnsta alveg frá barnæsku, að heimur viðskipta var heimur karlsins. 

Var erfitt að taka þá ákvörðun að eignast ekki eiginmann sjálf eða börn í lífinu?

„Nei þetta var það sem ég valdi að gera og ég gerði það af vel hugsuðu máli. Ef ég hefði ákveðið að eiga eiginmann og börn þá hefði það tekið athygli mína frá viðskiptum. Ég hefði aldrei getað gert bæði.“

En er það sanngjarnt? Að kona þurfi að taka þessa ákvörðun á meðan karlar geta gert bæði?

„Þetta var mitt val og þess vegna var það sanngjarnt," segir hún og brosir. Þess má geta að fram hefur komið í viðtölum við hana að hún hafi aldrei átt kærasta. Þar sem hjónaband var ekki hluti af hennar vali, vildi hún ekki eyða tíma í þennan hluta af lífinu.

Í dag er hún stjórnarformaður Bejing Air Catering Ltd, sem framleiðir 100.000 flugvéla máltíðir á dag og stýrir eins og fyrr greinir 14 fyrirtækjum í veitingageiranum sem þjónusta flugvélar með mat á meginlandi Kína. Wu vil ekki ræða umfang eða veltutölur fyrirtækjanna, en segir að umfang reksturs fyrirtækja hennar sé með 45% markaðshlutdeild flugvélamáltíða í Kína.

Hún kýs að tala minna um virði fyrirtækjanna og meira um hugsjónir sínar sem leiðtoga og viðskiptafrömuðar. Hún segir að verðmæti einstaklings verði seint metinn með peningum. Raunveruleg verðmæti er það sem einstaklingurinn skilar til samfélagsins.

„Ég hef aldrei fundið fyrir því að vera kona í viðskiptum. Á þeim tíma sem þessi tímamótasamningur var gerður þá var Kína mjög gamaldags þegar kom að hlutverki kvenna. Konur áttu að vera heima, en pabbi var á annarri skoðun. Hann var menntaður í Bretlandi, rak fyrirtæki í Hong Kong sem voru á sviði veitingahúsarekstrar og átti kvikmyndahús sem sýndi erlendar kvikmyndir þar sem konur höfðu meira val og völd en þekktist í kringum hann. Þaðan fékk hann hugmyndina að því hvernig hann vildi hafa hlutina á okkar heimili. Hann vildi að við sem einstaklingar hefðum val óháð kyni okkar.“

Það sem þótti einstakt við þennan samning sem Wu leiddi, …
Það sem þótti einstakt við þennan samning sem Wu leiddi, var m.a. að hann var gerður af konu, við ríki þar sem meginhlutverk konunnar var inn á heimilinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Til enda veraldar

Wu er 70 ára í dag og er að heimsækja Ísland í fjórða skiptið. Hvað varð til þess að hún kom hingað í fyrsta skiptið?
„Þegar ég var ung las ég bókina, Journey to the center of earth, eftir Jule Verne sem vakti með mér áhuga á landinu. Það var eitthvað í textanum sem kallaði á mig að heimsækja Ísland. Ég heimsótti Ísland fyrst árið 1983. Síðan kynntist ég Íslendingum í Kína, meðal annars sendiherra ykkar Kristínu Aðalbjörgu Árnadóttur og frá því við hittumst fyrst hefur skapast djúpur og innilegur vinskapur okkar á milli. Þið eruð magnað land með einstaka leiðtoga á ykkar snærum. Hún er m.a. ástæða þess að ég er hér í heimsókn í dag.“

Í Kína er saga hennar um að hafa langað að verða kúreki þekkt. En þar er henni líkt við Hróa Hött. Svo ötul hefur hún verið að fá efnaða vini og kunningja sína í Hong Kong til að gefa fjármagn til fólks sem minna mega sín í samfélaginu.
 
Málefni ungs fólks eru Wu hugleikin. Kannski mætti segja að hún hafi fundið sína leið í lífinu að umgangast börn og unglinga. Meðal annars með því að stofna skóla í Hong Kong árið 2000 sem aðstoðar við að byggja brú og þekkingu á milli Hong Kong og megin lands Kína. Sjálf er hún menntuð í Hong Kong, í Bretlandi og með stjórnunargráðu (MBA) frá Bandaríkjunum. Hún byrjaði ferilinn sinn á því að sópa gólf á veitingahúsi föður síns staðsettu í Japan. Hún vann við uppvask, að uppfarta á borðum og síðan tók hún við staðnum. Hún hefur látið hafa eftir sér í viðtölum að í Japan hafi hún fyrst áttað sig á hversu erfitt var að vera kona í viðskiptum. Hún hafi fundið sér leið í þeim efnum, með því að finna sér milligöngumann, karl, sem talaði fyrir hennar hönd við hina karlana. 

 
Verkefnið „Young Fashion Designers Showcase Tour“ er verkefni til að kynna hæfileika ungra hönnuða á mismunandi markaðssvæðum, tengja þau við fólk með fjármagn og opna leiðir inn á ólíka markaði að hennar sögn.
 
Eiga Hong Kong og Ísland eitthvað sameiginlegt að hennar mati?


„Já töluvert að mínu mati. Í báðum löndum býr harðduglegt fólk, sem er vinnusamt og hefur ánægju af því að láta hlutina gerast. Ég held að það eigum við sameiginlegt. Samtal á milli þjóðanna er mikilvægt, því báðar þjóðir nota enska tungu í viðskiptum og svo er Hong Kong með mikið af viðskiptalögum sem eiga uppruna sinn í Bretlandi. Þannig má segja að auðvelt sé að ná til fleiri markaða í Asíu í gegnum landið.“
 
Wu er hrifin af Íslandi og þeirri staðreynd að Ísland sé ítrekað valið besta landið í heimi til að fæðast sem kona. Hvar sér hún tækifæri í landinu og hvar áskoranir þessu tengt?

„Mér sýnist konur hafa náð góðu jafnrétti á sviði stjórnsýslu og stjórnmála. En ég myndi vilja sjá breytingar fyrir konur hér í viðskiptalífinu. Þið virðist ekki hafa jöfn tækifæri til þess að stjórna í stærri fyrirtækjum og aðgangur ykkar að fjármagni sem frumkvöðlar og við uppbyggingu fyrirtækja mætti umbreyta. Ég nefni sem dæmi verkefni sem hafa farið af stað í Bandaríkjunum, þar sem fjármagni hefur verið útdeilt til kvenna, enda mikilvægt að við nýtum okkur krafta einstaklingsins við uppbyggingu í atvinnulífinu. Það myndi styrkja ykkur sem land á þessu sviði mikið. Ef við náum að horfa á hæfileika fólks, dugnað og elju og tökum frá breytuna um kyn þá fáum við áhugavert umhverfi. Þar sem þið hafið ýmislegt að segja í stjórnmálum, þá ætti heimatökin að vera hæg að setja á laggirnar sjóði og verkefni sem styðja við konur að þessu leiti.“
 
Þekkingin til alls fyrst

Wu er hvorki kvenleg né karlleg þegar hún talar, en hún er með gífurlega reynslu og kemur ákaflega vel undirbúin inn í allt þegar kemur að viðskiptum. Hún er smart, mjög kurteis og það stafar frá henni ólýsanleg orka sem smitar yfir í þá sem hún umgengst. Hún segist trúa á að þekking komi konum þangað sem þær vilja komast. Fókus og að leyfa sér að læra sé mikilvægt í þessu samhengi.


Hún fylgist með kvenleiðtogum víða um heiminn og segist sjá marga áhugaverða leiðtoga vera að koma fram á sjónarsviðið, meðal annars í Kína. „Við sjáum konur í leiðtogastöðum í alþjóðlegum fyrirtækjum í Kína. Vegferð þeirra hefur ekki verið auðveld, en þær eru flottir leiðtogar, klárar og standa sig vel. Eins eru margir kvenleiðtogar að fá tækifæri í gegnum eigin fyrirtæki sem þær hafa verið að stofna á sviði fjármála og tækni.“
 
Þegar samtalið beinist að málefni er varða menningu og list segir Wu að tíska sé áhugaverð fyrir margar sakir.


„Það er erfitt að fá athygli á alþjóðavettvangi á sviði tískuhönnunar. Samkeppnin er mikil og aðgangur að fjármagni takmarkaður. Ég sé mikið af áhugaverðum hönnuðum sem brenna fyrir það sem þeir gera en eru ekki endilega með þekkinguna á því að láta fyrirtækin sín vaxa inn á framandi markaði. Viðskiptavit og hönnunarvit þarf nefnilega ekki endilega að búa í einni og sömu manneskjunni.“
 
Þegar kemur að íslenskum fatahönnuðum nefnir Wu Steinunni Siguðar og tískuhús hennar STEINUNN dæmi um vel útfærða íslenska hönnun sem eigi erindi út um allan heim. „Steinunn er þekkt víða enda hefur hún unnið fyrir stærstu tískuhús í heimi. Hún gerir fallega hluti sem eiga tilvísun í Ísland sem er vinsælt land um þessar mundir.“

Annie Wu kom ein til Íslands árið 1983 og þekkti engan. Í þetta sinn kemur hún með mikið föruneyti, fólk með reynslu og þekkingu í markaðssetningu, kvikmyndatökumenn og ljósmyndara sem þessa dagana eru að mynda hönnun unga fólksins í íslenskri náttúru sem heillar fólkið.

Þess má geta að Wu hefur verið ötul í starfi UNICEF í Hong Kong.  Viðtalið gefur innsýn inn í veruleika konu sem eyðir öllum sínum tíma í samfélagið og viðskipti. Konu sem segir að hún hafi ekki mikinn tíma fyrir sjálfan sig. Enda væri veruleikinn hennar of lítill fyrir eigin smekk, ef fókusinn væri bara á hana sjálfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál