Þorvaldur Davíð tekur stökkið

Þorvaldur Davíð Kristjánsson.
Þorvaldur Davíð Kristjánsson. ljósmynd/Baldur Kristjáns

Þorvaldur Davíð Kristjánsson leikari hefur í mörgu að snúast þessa dagana eins og aðra daga. Hann hefur ákveðið að setja ákveðna línu í sandinn í lífinu, þar sem hann segir skilið við leiklistina um sinn og er að opna á ný tækifæri í lífinu eins og sjá má í fréttum þar sem hann sækir um stöðu bæjarstjóra Seyðisfjarðar um þessar mundir.

„Lífið tekur mig eins og aðra þangað sem við erum sköpuð til að fara. Ég hef tileinkað leiklistinni fyrri hluta lífsins, en stend nú á tímamótum. Ég á rætur að rekja austur. Foreldrar mínir eru fædd og uppalin fyrir austan og stór hluti af fjölskyldu minni býr þar. Ég hef alltaf borið sérstakar taugar til Austfjarða og á ferðum mínum hefur oft sú hugmynd kviknað í kollinum að setjast þar að. Seyðisfjörður hefur alltaf kallað á mig á sérstakan hátt. Gömlu timburhúsin kúra í faðmi fjalla, fossar, öflugt menningarlíf og fólkið. Fjölmargir listamenn hafið vanið komu sína til Seyðisfjarðar og það ekki að ástæðulausu. Umhverfið veitir manni mikinn innblástur. Þar eru fjölmörg tækifæri á sviði atvinnu- og menningarmála.“

Þorvaldur Davíð útskýrir hvernig staðan hafi komið inn á borð til hans frá fólki sem býr fyrir austan, hvernig í fyrstu honum hafi fundist verkefnið langsótt en í dag finnist honum staðan eftirsóknaverð og hann jafnvel rétti maðurinn í verkefnið. „Það búa á bilinu 600 til 700 manns á Seyðisfirði. Þetta er öflugt bæjarfélag sem tekur vikulega á móti ferðamönnum sem sigla að höfn með Norrænu. Bærinn lifir meðal annars á ferðaiðnaði, sjósókn og atvinnustarfsemi í kringum höfnina. Það er rómantísk hugsun að búa á þessu svæði með börn, þar sem þau geta hlaupið frjáls á milli fjalls og fjöru. Á Seyðisfirði er einnig öflugt menningarlíf. Árlega er haldin listahátíðin Lunga, sem sýnir að þessi staður getur laðað til sín innlenda sem og erlenda aðila til að kynnast menningu og listum eins og best verður á kosið. Svo auðvitað Lungaskólinn sem er fyrsti lýðháskólinn á Íslandi.“

Það getur verið flókið að vera opinber persóna

Blaðamaður heyrir að Þorvaldur er spenntur fyrir stöðunni en hvað með leiklistaferilinn? „Ég hef verið tengdur leiklist frá því ég var barn, sem er frábært. Þar var ég alinn upp og í þeirri grein hef ég vaxið og dafnað. Kostirnir hafa verið fjölmargir, en það fylgir því einnig sú staðreynd að ég er opinber persóna sem fólk telur sig þekkja að fullu.  Ég er þá Þorvaldur Davíð úr Juilliard, leikarinn úr Versló eða strákurinn á hvíta tjaldinu. Það fylgir því að það leita til manns blaðamenn sem vilja vita hvað leikari ætlar að gera í bæjarmálum, sem er eðlilegt. Samhliða því að ég hef starfað sem leikari hef ég verið með eigin rekstur, þar sem ég hef meðal annars framleitt skemmti- og fræðsluefni, ég hef tekið að mér kennslu á framhaldsskólastigi og þróað nýja námsbraut með góðu fólki. Ég hef einnig helgað menntamálum krafta mína þar sem ég starfaði við hagsmunagæslu námsmanna á erlendri grundu sem formaður SÍNE. Mér fannst það starf heillandi. Ég hef verið að bíða eftir því að rétta tækifæri gæfist til að taka stóra stökkið úr leiklistinni og ég tel eitt af þeim tækifærum komið. Af þeim sökum langar mig að ljá bæjarfélaginu krafta mína. Að þjónusta íbúa til að halda við því sem vel er gert og halda áfram að byggja upp gott og öflugt samfélag. Stór hluti af áframhaldandi uppbyggingu á staðnum væri að koma Fjarðarheiðagöngum á dagskrá. Það er orðið löngu tímabært og mikið hagsmunamál fyrir Seyðfirðinga.“

Hvernig sviðsmynd sér Þorvaldur Davíð fyrir sér á Seyðisfirði ef hann yrði bæjarstjóri?

„Ég sé fyrir mér að Seyðisfjörður geti orðið fyrirmynd fyrir smærri bæjarfélög víðs vegar um landið. Með fjölbreyttu atvinnu- og menningarlífi. Ég myndi vilja setja skýr og sterk markmið í umhverfismálum.  Ég sé fyrir mér að koma öllu því fallega sem á sér stað á svæðinu betur út til landsmanna. Sem dæmi þá eru tveir Danir að gera upp gömlu netagerðina frá grunni. Þeir halda utan um Lýðháskólann á svæðinu og eru að búa til húsnæði þar sem starfandi listamenn geta komið og skapað á svæðinu. Eins hafa flottar konur tekið upp á sína arma að taka Herðubreið í gegn og hýsa þar, meðal annars, listviðburði. Svo má ekki gleyma tækniminjasafni Austurlands og Skaftfelli.“

Nú finnst blaðamanni Þorvaldur Davíð hljóma eins og bæjarstjóri.

Hefur neista fyrir Seyðisfirði

„Já ég kann að meta það, en kannski getum við bara öll hljómað eins og bæjastórar á einhverjum tímapunkti. Í mínum huga er bæjarstjóri stjórnandi og ég þekki stjórnun úr eigin rekstri. Eins þarf bæjarstjóri að hafa neista fyrir staðnum og trú á verkefninu. Auðvitað þarf ég að brjótast út úr því boxi að vera leikari, þar sem fólk hefur fyrirframgefnar hugmyndir um mann á því sviði. En ég hef endalausa trú á fólki þó maður hugsi án efa að það væri þægilegt að geta farið í gegnum umsóknarferli án þess að vera dreginn inn í fyrirsagnir í blöðum um málið,“ segir Þorvaldur Davíð og brosir.

Þess má geta að blaðamaður hringdi í hann og spurði um málið en ekki öfugt. „En auðvitað nýti ég tækifærið bæði til að benda á hvað staðurinn er frábær á sama tíma og það kemur fram með mínum orðum af hverju hlutverkið heillar mig á þessum stað í lífinu. Hvort sem af þessu verður eða ekki þá er ég sáttur í hjarta með að hafa sótt um þessa stöðu,“ segir Þorvaldur Davíð að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál