Leið Cindy Crawford að stresslausu lífi

Fyrirsætan Cindy Crawford skipuleggur sig vel.
Fyrirsætan Cindy Crawford skipuleggur sig vel. AFP

Þrátt fyrir að vera orðin 52 ára er Cindy Crawford enn þann dag í dag eitt þekktasta nafnið í fyrirsætubransanum, hún er þó ekki bara fyrirsæta heldur er líka með sína eigin snyrtivörulínu, Meaningful Beauty. Í viðtali við Byrdie seigr hún að hún komi í veg fyrir að stressast upp með að skipuleggja sig vel.  

Crawford reynir að vera farin að sofa klukkan 11 á kvöldin þar sem hún vaknar eldsnemma, stundum fjögur eða fimm á morgnana. Hún segist frekar vilja sofa til sex, hálfsjö en ef hún vaknar klukkan fjögur þá sé hún vöknuð. Hún vaknar því á undan restinni af fjölskyldunni og fer út og gerir tvennt, að þakka fyrir það sem hún hefur og fer í gegnum daginn í huganum. 

„Ég fer eiginlega í gegnum allan daginn minn til að finna út hvar gætu komið upp vandamál, þannig ég hafi tíma til að lagfæra. Jafnvel þótt ég þurfi að segja við þjálfarann; „Við þurfum að klára tíu mínútum fyrr í dag.“ Af því að ég þoli ekki að vera alltaf að flýta mér og ég þoli ekki að vera of sein. Þetta snýst um að skipuleggja daginn raunsætt,“ segir Crawford. 

Það tekur Crawford klukkutíma að komast frá húsinu sínu og niður í bæ og gefur hún sér því alltaf rúman klukkutíma til að koma sér á milli staða í stað 50 mínútna og vera of sein. „Ég vil frekar plana klukkutíma og tíu mínútur og bíða þá tíu mínútur í bílnum, skoða tölvupóst eða fara á Starbucks eða hvað sem er. Ég held að þessir hlutir haldi mér heilli á geði.“

Auk þess að fara snemma að sofa og skipuleggja sig segir hún að það hjálpi til að gera það sem hún elskar. „Ég meina ég elska ekki allt. Ég elska ekkert sérstaklega að fara í gegnum PowerPoint-kynningar. Ég elska ekki hverja einustu stund sem ég þarf að sitja á stjórnarfundum. En ég elska Meaningful Beuty. Ég elska myndatökur. Svo það hjálpar vissulega. Það sem er hvetjandi dag frá degi er að skrifa lista yfir það sem ég þarf að gera í dag, á viku, á mánuði. Þegar þú strikar eitthvað út af listanum skrifarðu hann upp á nýtt,“ segir fyrirsætan og segir það ánægjulegt að sjá greinilega hverju hún hefur áorkað. 

Cindy Crawford.
Cindy Crawford. AFP
mbl.is