Gat ekki ímyndað sér neitt hræðilegra

Ebba Sig fyrir Smartland.
Ebba Sig fyrir Smartland. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Leikkonan Þuríður Elín Sigurðardóttir eða Ebba Sig eins og hún kallar sig fór óvart út í uppistand í vetur en hún byggir uppistandið á sínu eigin lífi. Það er augljóst að Ebba hefur húmor fyrir sjálfri sér og á auðvelt með að fá fólk til að hlæja, að minnsta kosti átti blaðamaður erfitt með að skella ekki upp úr þegar hann spurði Ebbu út í uppistandið.

Ebba útskrifaðist úr leiklistarháskólanum Rose Bruford í London árið 2015. „Ég flutti heim og byrjaði að vinna í níu til fimm vinnu og byrjaði að skrifa sjónvarvarpsþætti með vinkonu minni henni Gunnhildi. Það var eitthvað að ganga frekar hægt og ég var með svo mikið af sögum og ákvað bara að henda í einleik sem heitir Guðmóðirin sem ég sýndi fyrir áramót á Kaffi Laugalæk,“ segir Ebba og segir að í kjölfarið hafi boltinn farið að rúlla. Yfirmaðurinn á Kaffi Laugalæk fékk Ebbu til að skemmta í starfsmannapartíi og nú kemur hún fram á kaffihúsinu einu sinni í mánuði auk þess sem hún er bókuð í einkasamkvæmi.

Kom þetta á óvart?

Já, í raun og veru. Ég bjóst aldrei við því að ég færi í uppistand. Fólk var búið að nefna þetta við mig áður en þetta var það hræðilegasta sem ég gat ímyndað mér. Að standa og vera ég sjálf og vonast til þess að fólk þætti ég fyndin. Það var alveg það hrikalegasta. Það er miklu auðveldara fyrir mig að lesa handrit, læra línurnar og leika. Það venst og nú finnst mér þetta ógeðslega skemmtilegt.“

Ebba Sig fyrir Smartland.
Ebba Sig fyrir Smartland. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Var einleikurinn þá svona fyndinn?

„Einleikurinn var fyndinn en með alvarlegum undirtón. Ég var að tala um kynferðislegt ofbeldi eins og ég lenti í sjálf og ýmislegt sem konur lenda í í kynlífi sem maður er kannski ekki alltaf að tala um opinskátt. Það var þunn lína milli alvarleikans og húmorsins en alltaf stutt í grínið,“ segir Ebba.

Er ekkert erfitt stundum að dansa á þessari línu?

„Jú, ég geri til dæmis ekki grín að kynferðisofbeldi af því það er ekki fyndið. Meira eitthvað sem maður er að lenda í í sambandi við karlmenn sem er kannski ekki kynferðisofbeldi en það er eitthvað óþægilegt og maður veit ekki hvernig maður á að tækla það af því það er ekki talað um það.“

Eins og hvað?

„Ég til dæmis talaði um það í einleiknum mínum að það er oft ætlast til þess að feitar konur geri meira en þær sem eru ekki feitar. Auðvitað lenda konur líka í því sem eru ekki feitar. En þetta er bara svona: „Æ, kommon ég er að sofa hjá þér, þú átt bara vera þakklát að ég sé að sofa hjá þér“. Einhver að vippa typpinu út í bílnum og biðja mann um að runka sér. Maður er bara: „Heldurðu að þetta sé í lagi?“ En veit samt ekki hvað maður á að segja. Ég reyni að tala um alla þessa hluti sem maður hefur lent í sem eru kannski ekki grafalvarlegir en þannig að konur vita að þær eru ekki einar, við erum fleiri sem erum að lenda í alls kyns uppákomum.

Sögur af lífi einhleypu stelpunnar eru því fyrirferðarmiklar en Ebba segir stefnumótamarkaðinn ólíkan því sem hún kynntist í London á námsárunum. „Þar fór maður á stefnumót en Tinder hérna, eða svona Tinder sem ég lendi í, það er kannski einhver með allt aðra sögu, er strax bara: „Má ég koma í heimsókn? „Eigum við að ríða?“ Ekkert svona spjall en það er kannski bara eitthvað sem fólk er að leita eftir þar,“ segir Ebba en viðurkennir hlæjandi að hún noti oftast Tinder í frekar annarlegu ástandi.

Ebba Sig.
Ebba Sig. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Ebba er þeim kostum gædd að geta litið á spaugilegu hliðina á lífinu og margt annað en stefnumótamarkaðurinn sem kemst inn í uppistandið hennar. „Ég tala til dæmis um kvíða, ég er með ofsakvíða og heilsukvíða. Ég reyni að lýsa því á opinskáan hátt. Það getur verið mjög fyndið þegar ég pæli í því eftir á en svo þegar maður er í kvíðakasti er það ekkert fyndið. En maður getur horft á það til baka og hugsað hvað í andskotanum var í gangi í hausnum á mér þarna þegar ég hélt ég væri að fá hjartaáfall. Ég er 27 ára og ekki með hjartagalla og því frekar ólíklegt að ég sé að fá hjartaáfall en akkúrat þegar það er að gerast þá er ég bara: „Þetta er að gerast, þetta er að gerast.“ Svo er ég með IBS-sjúkdóm, maður hefur lent í alls konar hlutum tengdum því sem eru óþægilegir. Er kannski bara að kúka á mig og þarf einhvern veginn að finna leið án þess að gera það,“ segir Ebba sem gerir líka grín að því að hún búi heima hjá mömmu sinni á meðan vinkonur hennar eru að kaupa sér íbúð.

Draumurinn um sjónvarpsþáttinn er þó ekki horfinn þótt einleikurinn hafi gengið vel og uppistandið farið á flug. Þær Ebba og Gunnhildur Þorkelsdóttir vinkona hennar eru búnar að skrifa handritið og eru nú að vinna með framleiðanda. Ebba segir þættina vera blöndu af drama og gríni og kallar það „dramedy“. Rétt eins og uppistandið og einleikurinn byggir handritið á lífi Ebbu en líka vinkvenna hennar.

„Okkur langar svo til að sjá stelpur sem eru raunverulegar, ekki ótrúlega ýktar og gervi, heldur flóknar persónur. Ekki einhliða konur sem hefur verið svo mikið í gegnum tíðina í sjónvarpi. Þetta fjallar um sambönd, kynvitund og atvinnu, allan pakkann bara,“ segir Ebba að lokum og tekur undir það að slíkt efni hafi vantað í íslenska sjónvarpsþáttagerð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál