Ekki klikka á þessu í næsta atvinnuviðtali

Ekki þykjast hafa enga veikleika, enginn er fullkominn.
Ekki þykjast hafa enga veikleika, enginn er fullkominn. Pexels

Það getur verið stressandi stund að fara í atvinnuviðtal. Eftir strembið umsóknarferli ertu loksins komin í viðtalið og vilt auðvitað sýna þínar bestu hlíðar. Það er þó margt sem getur farið úrskeiðis í atvinnuviðtölum. Huffington Post tók saman nokkur atriði sem margir klikka á í atvinnuviðtölum.

Að þykjast hafa enga veikleika

Enginn er fullkominn. Stærstu mistökin sem margir gera í atvinnuviðtölum er að segjast ekki hafa neina veikleika eða galla. Ef þú ert spurður hvort þú hafir einhverja veikleika, dragðu upp heiðarlega mynd af sjálfri þér. Óheiðarleiki er ekki eitthvað sem þú vilt vera þekkt/ur fyrir.

Að tala illa um fyrrverandi yfirmann þinn

Að tala illa um fyrrverandi yfirmann þinn er ekki eitthvað sem þú vilt gera í atvinnuviðtali. Líkt og með stráka sem segja að fyrrverandi kærastan þeirra hafi verið klikkuð þá er þetta rauður fáni. Starfsmannastjórinn heyrir aðeins þína hlið af málinu sem getur verið tengd tilfinningum þínum til gamla vinnustaðarins. Ef þú varst ósátt með fyrrverandi yfirmann þinn, ekki segja það blákalt út í viðtalinu, haltu þig frekar við staðreyndirnar.

Að hafa ekki skoðað heimasíðu fyrirtækisins

Það er grundvallaratriði að kynna sér fyrirtækið sem maður sótti um vinnu hjá. Það kemur illa út í viðtali ef þú ert spurð um eitthvað einfalt í sambandi við fyrirtækið og getur ekki svarað. Kynntu þér heimasíðu fyrirtækisins og sinntu heimavinnunni þinni.

Mundu eftir að skoða heimasíðuna og kynna þér starfsemi fyrirtækisins.
Mundu eftir að skoða heimasíðuna og kynna þér starfsemi fyrirtækisins. Pexels

Að gleyma að þakka fyrir þig

Í öllum samskiptum þínum við fyrirtækið fyrir og í viðtalinu, mundu eftir að þakka fyrir að hafa fengið tækifæri og að þau hafi sýnt þér og umsókn þinni athygli. Sama hversu góð og flott ferilskráin þín lítur út, ef þú getur ekki sýnt þakklæti og kurteisi kemstu ekki langt.

Semja um laun þín eins og nýgræðingur

Ef þú ert í aðstöðu til að semja um laun þín, ekki útskýra af hverju þú þurfir ákveðna upphæð. Ekki segja að þú hafir verið að kaupa bíl eða hús og þurfir að eiga fyrir afborgunum. Gefðu upp tölu sem er aðeins hærri en upphæðin sem þú vilt fá.

Að fara yfir strikið hvað sjálfsöryggið varðar

Sjálfsöryggi er einn af bestu eiginleikunum sem þú getur tileinkað þér. Það er þó fín lína á milli sjálfsöryggis og að vera ókurteis. Ekki koma inn í viðtalið með 15 mínútna ræðu sem þú endar á að spyrja hvenær þú eigir að byrja. Leyfðu starfsmannastjóranum að byrja viðtalið og spyrja þig spurninga, en vertu þó tilbúin með svör við spurningunum.

Að taka vin þinn með (eða mömmu þína)

Það er stressandi að fara í atvinnuviðtal. Ef þú þarft stuðning frá einhverjum, ekki taka viðkomandi með í viðtalið. Þó að þetta sé fyrsta atvinnuviðtalið sem þú ferð í þá gefur það ekki góða mynd af þér ef mamma þín kemur með í viðtalið. Biddu þann sem þú vilt hafa með þér að bíða úti í bíl eða á næsta kaffihúsi.

Að spyrja ekki spurninga

Það kemur ekki vel út fyrir þig ef þú hefur engar spurningar í lok atvinnuviðtalsins. Sinntu heimavinnunni þinni og reyndu að undirbúa spurningar fyrir fram. Að skoða heimasíðuna er góður byrjunarreitur. Þá sýnir þú að þú hefur áhuga á starfsemi fyrirtækisins og starfinu sem þú sóttir um.

Að vera ókurteis við fólkið í móttökunni

Sama hversu vel ferilskráin þín lítur út og hversu vel þú stóðst þig í viðtalinu, ekki gleyma að vera kurteis við alla sem þú hittir á meðan þú ert innan veggja fyrirtækisins. Það sýnir að þú ert góð og kurteis manneskja sem gerir ekki upp á milli fólks, sama hvort það vinnur í móttökunni eða sé stjórnandi fyrirtækisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál