Úr herstöðinni beint í bakpokaferðalag

Una í fjallgöngu í Patagóníu í Argentínu.
Una í fjallgöngu í Patagóníu í Argentínu. Ljósmynd/Aðsend

Blaðamaðurinn Una Sighvatsdóttir fór á flakk um heiminn eftir að hún lauk störfum hjá Atlantshafsbandalaginu í Kabúl í Afganistan fyrr á árinu. Una starfaði sem upplýsingafulltrúi NATO og friðargæsluliði í 13 mánuði. Fyrir það starfaði hún meðal annars sem blaðamaður á mbl.is. 

Una er virk á Instagram, undir nafninu unagram þar sem hún deilir myndum og sögum af ferðalögum sínum. Hún var á ferðalagi í tæpa sex mánuði og ferðaðist til sjö landa í Suður-Ameríku. Una heimsótti Úrúgvæ, Argentínu, Chíle, Bólivíu, Ekvador, Perú og Kólumbíu á ferðalagi sínu. Þá fór hún einnig til Galapagos-eyjanna þar sem hún eyddi nokkrum vikum. 

Hér má sjá kort af ferðalagi Unu.
Hér má sjá kort af ferðalagi Unu. Ljósmynd/Aðsend

Una segist vera algjör fíkill í ferðalög en hún hefur komið til 50 landa. „Eiginlega eru það engar ýkjur að segja að undanfarin ár hafi ég nýtt allan minn frítíma og og allan minn pening í ferðalög, bæði löng og stutt. Það var samt búið að vera draumur hjá mér lengi að fara af stað í opið bakpokaferðalag, með flugmiða aðra leið þar sem lokaáfangastaður væri óákveðinn. Tækifærið kom þegar ég lauk störfum fyrir NATO í Afganistan í febrúar á þessu ári,“ segir Una.

Suður-Ameríka varð fyrir valinu, en það var eina heimsálfan sem hún átti eftir að heimsækja. Una fór ein í ferðalagið en hún ferðast oft ein. „Flestir vinir mínir eru með ung börn, auk þess sem ég ferðast mun meira og á fjarlægari slóðir heldur en flestir gefa sér tíma til að gera. Oft með stuttum fyrirvara líka. Svo það er hálfvonlaust fyrir mig að samræma mínar ferðaáætlanir með dagskrá annarra. Ég komst að þeirri niðurstöðu fyrir löngu að ef ég ætlaði alltaf að bíða eftir ferðafélaga þá myndi ég aldrei ná að gera helminginn af því sem mig langar til að gera, en þar fyrir utan finnst mér líka bara alveg frábært að ferðast ein,“ segir Una.

Á kólumbískri strönd við Karabíska hafið.
Á kólumbískri strönd við Karabíska hafið. Ljósmynd/Aðsend

Mikið frelsi í því að ferðast ein

„Því fylgir mikið frelsi, en líka áskoranir, svo maður verður að læra að treysta á sjálfa sig sem er gefandi lífsreynsla. Ég mæli með því að flestir prófi að ferðast einir síns liðs minnsta kosti einu sinni um ævina,“ segir Una. Hún segist upplifa staðina sem hún er á hverju sinni mun sterkar og betur þegar hún er ein, því athyglin er öll á umhverfinu. „Svo er það staðreynd að þeir sem eru einir á ferð eru mun líklegri til að kynnast öðru fólki, fá jafnvel heimboð til heimamanna eða boð frá öðrum ferðalöngum um að slást í lið með þeim,“ segir Una en hún eignaðist marga vini á ferðalagi sínu um Suður-Ameríku. Hún segir að hún hafi notað Instagram mikið, bæði til að halda tengslum við aðra ferðalanga, fá innblástur frá þeim og segja sína eigin ferðasögu.

Á saltsléttunum í Bólivíu.
Á saltsléttunum í Bólivíu. Ljósmynd/Aðsend

Náttúran í Suður-Ameríku heillaði

Una segir að það hafi verið margir hápunktar í ferðinni og erfitt að velja einhvern einn. Hún segir að náttúran hafi heillað meira en borgirnar. „Þó get ég sagt að sterkustu upplifanirnar átti ég úti í náttúrunni, því þótt borgir geti verið skemmtilegar eiga þær til að renna svolítið saman og verða keimlíkar með tímanum. Suður-Ameríka er hins vegar engu lík í náttúruundrum og þar eru margir stórkostlegir þjóðgarðar. Ég stundaði mikla útivist, mest fjallgöngur en líka fjallahjól, kafanir og snorkl. Uppáhaldssvæðin mín voru fjöllin í Patagóníu, sem er syðst í Argentínu og Chile, síðan fjallgarðarnir í Perú, hinar ótrúlegu Galapagos-eyjar og loks Karabíska hafið við strendur Kólumbíu,“ segir Una.

Við hina fornu borg í Macchu Picchu-fjöllunum í Perú.
Við hina fornu borg í Macchu Picchu-fjöllunum í Perú. Ljósmynd/Aðsend

Una þurfti að binda enda á ferðalagið í þetta skiptið því hún fékk annað starf hjá NATO sem fulltrúi Íslensku friðargæslunnar. Hún mun því flytja til höfuðborgar Georgíu, Tíblisi, um næstu mánaðamót. Ég hlakka til að takast á við nýtt starf og fá um leið tækifæri til að kynnast þessum heimshluta betur, á mörkum Austur-Evrópu og Asíu og veit að til dæmis er mjög mikið af fallegum gönguleiðum í Kákasusfjöllunum í Georgíu.“

Í borginni La Paz í Bólivíu.
Í borginni La Paz í Bólivíu. Ljósmynd/Aðsend

Hún hefur þó ekki alveg sagt skilið við Ameríku, í það minnsta í huganum. „Ég var tilbúin að ferðast alveg til ársloka þar. Ég sé fyrir mér að snúa kannski aftur þangað eftir nokkur ár, taka upp þráðinn þar sem frá var horfið í Kólumbíu og halda áfram að fikra mig upp eftir Mið-Ameríku og til Mexíkó. En það verður bara að koma í ljós, mér finnst best að gera ekki of stífar áætlanir fram í tímann, því lífið þróast oft öðru vísi en maður sér fyrir,“ segir Una.

Skoða má fleiri myndir af ferðalögum Unu og verunni í herstöðinni í Kabúl í Afganistan á Instagram

Una snorklaði við Galapagos-eyjarnar.
Una snorklaði við Galapagos-eyjarnar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál