Þroski á sér stað ef við teygjum vitsmunalega á okkur

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.
Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valdimar Þór Svavarsson starfar sem ráðgjafi og fyrirlesari hjá ráðgjafarstofunni Fyrsta skrefinu ásamt eiginkonu sinni Berglindi Magnúsdóttur. Hann á ótrúlega sögu að baki og hefur sigrast á mörgu í lífinu. Valdimar varð nýlega 45 ára en hann er ungur í anda að eigin sögn. Hann segir að fólk eldist með aldrinum, en til að öðlast aukinn þroska þurfum við að reyna á okkur.

„Þegar ferill minn er skoðaður mætti áætla að um mjög óstöðuga manneskju væri að ræða, eiginlega týnda manneskju,“ segir Valdimar og hlær. „Ferillinn teygir anga sína í ýmsar áttir og hvort sem það er starfsreynsla eða menntun þá er fátt sem tengir það saman. Það væri reyndar hárrétt að segja að um óstöðugleika hafi verið að ræða enda var ég talsvert áttavilltur þegar ég kom út í lífið. Unglingsárin einkenndust af miklum öfgum sem tengdust áföllum og áfengisdrykkju og báru með sér að þarna var einstaklingur á ferð sem hafði lélegt sjálfsmat og vissi í raun alls ekki hvert hann ætti að stefna. Þegar ég var 22 ára gamall kom að uppgjöri gagnvart áfengi í mínu lífi. Ég sá á þeim tíma að ég og áfengi ættum illa saman. Upp úr því fór áhugi minn að vakna fyrir ýmsum þáttum tilverunnar sem snúa að sálrænni líðan, félagslegum þroska og sjálfsvirðingu.“

Leitin að mér

Valdimar hófst handa við að leita að sjálfum sér. „Síðan eru liðin 23 ár og ég er enn stöðugt að læra, bæði á sjálfan mig og aðra. Öfgar og hraði fylgdu mér í mörg ár í viðbót og endalaus leit að einhverju sem gæti breytt því hvernig mér liði. Hvort sem það hefur verið í gegnum veraldlega hluti af ýmsu tagi, að sækja í spennu, ójafnvægi í mataræði, öfgar í hreyfingu eða annarskonar stjórnleysi, þá hefur fátt stoppað mig í að reyna að breyta því hvernig mér líður. Í raun var ég að leita þar sem svarið er ekki að finna. Ég vil meina að ég hafi örlítið róast, áhuginn farinn að snúast meira um fjallgöngur og ritstörf, heldur en „motocross“ og „bootcamp“. Þessu eru ekki allir sammála, það er að segja að ég hafi róast mikið og þegar ég slasaði mig á snjósleða í vor, ýtti það undir þau rök að það megi enn hægja aðeins á.“

Fyrir sex árum veiktist Valdimar talsvert vegna skordýrabits sem átti sér stað í Noregi. „Bakteríusýking sem fylgdi þessu var nánast búin að leggja mig í gröfina og fyrstu fjögur til fimm árin á eftir þurfti ég virkilega á öllu mínu að halda til að halda mínu striki. Eitt af verkefnunum sem þessu hafa fylgt er að veikindi af þessu tagi eru ekki í kerfunum, það er að segja þau hafa ekki verið skilgreind í heilbrigðiskerfinu og því stendur maður svolítið einn í þessari vinnu. Þrátt fyrir að starfsgeta hafi á köflum verið lítil eða engin, þá hefur ekkert annað komið til greina en að halda áfram og finna leiðir til að komast af. Á þessum árum hef ég prufað ótal leiðir, bæði hefðbundnar og ekki síst óhefðbundnar, til þess að ná tökum á ástandinu. Eitt af því sem mér hefur þótt hjálpa hvað mest eru sérstakir dropar sem ég nota og eru unnir úr berki trjáa sem vaxa í yfir þúsund metra hæð í Perú. Eftir talsverða þrautagöngu er ég að komast nokkurn veginn á sama stað og ég var áður, bæði líkamlega og andlega. Það má segja að þessi reynsla sé búin að vera mjög dýrmæt og hefur hjálpað mér og okkur fjölskyldunni að skilja betur einstaklinga sem eiga við erfiðleika að stríða og hvaða álag það getur valdið á fjölskylduna í heild. Það hefur kennt okkur mikilvægi þess að eiga góða að og hvað skilgreinir góða vináttu. Ég byggi mína vinnu sem ráðgjafi ekki síður á þeim ósigrum sem ég hef upplifað og mistökum sem ég hef gert en þeim sigrum sem hafa unnist og ákvörðunum sem hafa skilað góðum árangri. Að mínu mati er mikilvægt að nálgast fólk þar sem það er statt, á einlægan máta.“

Heilbrigð sjálfsvirðing

„Eitt af mínum uppáhalds viðfangsefnum á síðustu árum hefur verið að skoða hvað mótar heilbrigða sjálfsvirðingu og sjálfstraust. Fjölmargir eiga erfitt uppdráttar hvað þetta varðar, eru óöruggir og þegar þeir eru spurðir „hver ert þú?“ þá komast margir að því að það er lítið um svör. Margir upplifa tómleika og ófullnægju, finnst eins og þeir séu ekki spennandi, að þeir geti ekki staðist kröfur samfélagsins eða haldið í við alla hina sem virðast á fljúgandi ferð. Í dag er þetta sérstaklega áberandi meðal ungs fólks þar sem í ljós kemur að mörgum líður illa með sig og sitt líf. Þar kemur meðal annars inn hraði og áreiti samfélagsins sem hefur stóraukist á fáeinum árum. Hvort sem það eru kunningjar úr skólanum eða vinnu, frægir einstaklingar á Íslandi eða útlöndum, þá eru flestir að senda frá sér myndir, myndbönd og frásagnir af einhverju skemmtilegu, einhverju flottu, einhverjum glæsilegum afrekum og þar fram eftir götunum. Fæstir eru að senda frá sér mynd af því þegar þeir detta í drullupoll eða eiga ömurlegan dag. Flottu myndirnar þjappast svo saman í símann í lófanum á okkur þar sem streyma inn myndir og myndbönd af öllu þessu glæsilega fólki sem virðist vera að upplifa stórkostlega hluti. Þá hættir mörgum til að finnast þeir lítils virði af því það er ekki það sama að gerast í þeirra lífi, þeir eru ekki með six-pack, ekki á flottum bíl, ekki að græða fullt af peningum eða útskrifast úr háskólanámi og eru ekki á ströndinni á Tenerife. Þetta veldur talsverðum áhyggjum hjá mörgum, bæði ungum og öldnum, sem getur leitt af sér depurð og vonleysi sem síðan hefur alvarlegri afleiðingar til langs tíma. Mikið ber á vandamálum tengdum þunglyndi og kvíða hjá ungu fólki, stjórnleysi á ýmsum sviðum svo sem tölvuleikjanotkun, lyfjanotkun, átröskunum, hárri tíðni örorku, brottfalli úr skólum og þeirri ömurlegu staðreynd að algengasta dánarorsök ungra manna eru sjálfsvíg. Það eru auðvitað fjölmargar orsakir fyrir því hvernig fólki líður, uppvöxturinn, umhverfið, karakterinn, líffræðilegir þættir og erfðir hafa allt sitt að segja. Þetta er allt áhugavert að skoða og mikilvægt að fara yfir alla mögulega þætti þegar einstaklingar vilja ná breytingum í sínu lífi.“

Leiðir til að auka þroska

Hvað getur þú sagt mér um námskeiðin sem eru haldin á ykkar vegum í haust?

„Hjá Fyrsta skrefinu eru fjölmörg námskeið á dagskrá næstu vikurnar, þar á meðal tvö sem eru ný. Langvinsælasta námskeiðið okkar heitir Meðvirkni og áföll í uppvextinum, en það fjallar um ýmsa þætti sem snúa að því hvernig við mótumst í uppvextinum, hvaða atriði skipta mestu máli þegar kemur að því að við þróum heilbrigða sjálfsvirðingu og getum sett sjálfum okkur og öðrum eðlileg mörk. Þetta námskeið er þriggja klukkustunda langt, öllum opið og stundum komast færri að en vilja. Annað námskeið sem vakið hefur talsverða athygli fjallar um ástarfíkn og óheilbrigð samskipti í samböndum en námskeiðið kallast Ástarfíkn og sambandsþrá og verður næst á dagskrá seinnipartinn í ágúst. Þetta námskeið höldum við saman, ég og Berglind og notum reynslu okkar á nokkuð hispurslausan hátt til þess að tengjast efninu. Á námskeiðinu er farið yfir hringrás sem margir þekkja úr samböndum sínum. Hringrásin hefst á því að mikil hrifning verður í upphafi sambands og annar aðilinn kemur svolítið eins og bjargvættur til leiks, á meðan hinn nýtur þess út í ystu æsar að falla í arma bjargvættarins, vill upplifa mikla nánd og tilfinningar. Þegar fram líða stundir kemur ákveðið ójafnvægi í ljós og annar aðili sambandsins fer að upplifa að maki hans sé ekki að sýna sambandinu nægan áhuga, virðist fjarlægur og taka aðra hluti fram yfir sambandið. þá byrjar mjög óþægileg atburðarás sem knúin er áfram af ótta við að verða hafnað þar sem annar aðilinn reynir hvað hann getur til að fá staðfestingu á sambandinu og meiri nálægð á meðan hinum finnst hann vera að kafna í sambandinu og þolir illa álagið. Við förum vel yfir þessa hringrás á námskeiðinu, hvað kemur henni af stað og hvernig hún þróast áfram, ásamt leiðum til að stíga út úr vítahringnum.

Í ágúst verður tveggja daga námskeið eða öllu heldur meðferð í höndum Berglindar Magnúsdóttur. Meðferðin kallast Intensive therapy – PIT og er lokað úrræði sem eingöngu er í boði fyrir fáa aðila sem þurfa að hafa lokið ákveðnu ferli áður en að meðferðinni kemur. Þetta úrræði hefur ekki verið í boði fyrr en nú þar sem allt meðferðarferlið fer fram á íslensku. Áður hafa erlendir PIT sérfræðingar komið til landsins og haldið meðferð af þessu tagi með áhugaverðum árangri. PIT stendur fyrir Post induction therapy meðferðarnálgun sem er hönnuð til að meðhöndla áföll sem verða til í samskiptum í uppvexti og þeim áhrifum sem áföllin hafa á þroska einstaklinga á fullorðinsaldri, betur þekkt sem meðvirkni. Aðferðin er byggð á vinnu Piu Mellody sem þekktust er fyrir rannsóknir sínar á meðvirkni og er aðferðin grunnur að starfi hjá meðferðarstofnuninni The Meadows í Bandaríkjunum. Meðferðarnálgunin byggir á sálgreiningu (e. psychoanalytic therapies), gestalt þerapíu (e. gestalt), fjölskyldukerfisfræði (e. family systems theory), tilfærslu í aldurgreiningu sjálfsins (e. transactional analysis), tilfinningalegri meðferðarnálgun (e. rational emotive therapy) ásamt því að styðjast við siðferðisþroskakenningu Eriks Erikson og mannúðarkenningu Carls Rogers. Meðferðin snýr að því að beita einstaklings- og hópmeðferðarnálgun þar sem skjólstæðingurinn lærir að takast á við áföllin í uppvexti sínum og síðari birtingarmyndum í daglegu lífi. Námskeiðið í ágúst er fullbókað en reikna má með að næsta námskeið verði haldið í september eða október.“

Valdimar Þór Svavarsson og Berglind Magnúsdóttir
Valdimar Þór Svavarsson og Berglind Magnúsdóttir mbl.is/Kristinn Magnúsosn

Sáttari ungir menn

Fyrsta september hefst nýtt námskeið sem heitir Sáttari ungir menn og er fyrir menn á aldrinum 20 til 30 ára. Námskeiðið á vel við í samfélaginu sem við búum í um þessar mundir. Hvað getur Valdimar sagt okkur um þetta námskeið?

„Þetta er heilsdags námskeið, haldið á laugardegi og markmiðið er að efla sjálfstraust, styrkja sjálfsmyndina og finna sátt í eigin lífi. Námskeiðið er tilvalið fyrir alla unga menn sem eru að upplifa rótleysi og jafnvel áhugaleysi en langar að taka skrefið og skoða nýjar nálganir til þess að upplifa tilhlökkun og tilgang í sínu lífi. Þetta verður hvetjandi og skemmtilegt námskeið sem ég hlakka mikið til að taka þátt í. Nánar má lesa um námskeiðin og aðrar upplýsingar á heimasíðu okkar, www.fyrstaskrefid.is.“

Valdimar segja marga aðila koma í einstaklings- og pararáðgjöf til þeirra hjóna. „Þannig gefst tækifæri til að skoða mál hvers og eins ofan í kjölinn. Námskeið eru hins vegar frábær af því þannig fær fólk almennt mikið af upplýsingum á skömmum tíma og geta því verið mjög hagnýt til þess að leggja grunn að næstu skrefum. Það er líka gott að upplifa hlutina saman, heyra mismunandi skoðanir og upplifa sig sem hluta af hóp. Eftir nokkurra ára námskeiðs- og fyrirlestrahald hefur safnast saman dýrmæt reynsla í gegnum upplifanir þátttakenda. Það er sérstaklega ánægjulegt að fá í mörgum tilvikum að fylgja fólki áfram í kjölfar námskeiða, þar sem við fáum að sjá og heyra af þeim árangri og lífsbreytingum sem fólk upplifir. Það er ekki alltaf þannig, sumir ná ekki þeim árangri sem þeir stefndu að og þurfa mögulega að skoða aðrar leiðir en þær sem við getum boðið upp á. Það er líka gefandi að geta tekið þátt í að vísa á aðra möguleika og reyna þannig að taka þátt í að bæta lífsgæði fólks. Margir hafa upplifað nýtt líf eftir að þeir skoða sjálfa sig nánar og opna fyrir nýjum upplýsingum og leiðum til þess að breyta til. Það er alltaf ánægjulegt að sjá. Stundum er sagt að við þroskumst með aldrinum. Ég held að það sé ekki endilega rétt, nema þá kannski á líkamlega sviðinu. Eina sem er öruggt er að við eldumst með aldrinum. Þroski á sér stað ef við teygjum vitsmunalega á okkur, höldum áfram að skoða nýja hluti, læra og upplifa. Það er aldrei of seint að læra nýja hluti og fjölmargir aldraðir koma í viðtöl og á námskeið. Það er í raun sérstaklega gaman að spjalla við eldra fólk sem er búið að átta sig á að maður veit ekki allt, að maður hefur ekki alltaf rétt fyrir sér og að það er í lagi að umturna ákveðnum skoðunum sem hafa fylgt fólki í mörg ár. Slíkum samtölum fylgir gjarnan ákveðin ró og auðmýkt.

Flestir sem koma í viðtöl eða á námskeið eru að leita leiða til þess að líf þeirra geti orðið betra á einhvern hátt, að styrkja sjálfsvirðinguna, að vera sterkari í samskiptum, að eiga innilegra samband við annað fólk, að fá stuðning á erfiðum tímum, að vinna úr áföllum, að geta sett öðrum mörk, að ná tökum á stjórnleysi, að finna tilgang í lífinu, að ná markmiðum sínum og þannig mætti lengi telja. Stundum eru skilaboðin til okkar að ef okkur líður ekki vel, þá er eitthvað að sem verður að laga. Það er ekki alltaf þannig, okkur líður allavega og það er fullkomlega eðlilegt að upplifa ótta, reiði, kvíða, sorg og aðrar óþægilegar tilfinningar þegar þannig stendur á. Það er engu að síður gott að hafa einhvern að tala við þegar erfiðar tilfinningar banka upp á og sérstaklega ef þær hafa fylgt einstaklingum í langan tíma. Að sama skapi er mjög gott að fá ráðgjöf þegar maður telur sig á góðum stað en vill ná enn lengra, hvort sem það er í starfi, íþróttum eða hvað annað sem við sækjumst eftir. Í raun mætti segja að grunnþörfum flestra í hinum vestræna heimi sé fullnægt, við getum flest sofið með þak yfir höfuðið, við fáum að borða nokkuð reglulega og eigum flíkur til að klæðast. Í dag eru þessi grunnatriði ekki endilega að veita okkur mikla ánægju, við tökum þeim jafnvel sem sjálfsögðum hlut, atriði sem voru ekki svo sjálfsögð fyrir einungis fáum áratugum. Margir leita því að vellíðan í öðrum hlutum og þar spila markaðsöflin stórt hlutverk.“

Skilaboð Salomons konungs

Valdimar segir að okkur sé sagt á hverjum degi hvað það sé sem muni veita okkur gleði og hamingju í lífinu. „Nýjar tilbúnar þarfir verða til og okkur fer að langa mikið í eitthvað sem áður var ekki nauðsynlegt. Þar með er áherslan færð frá þörfum yfir í langanir og margir verða fyrir vonbrigðum með það, því það endist ekki. Salomon konungur ritaði um það hvað máli skipti í lífinu. Hann hafði eignast alla hluti sem hugurinn gat girnst, auðæfi, heilu hallirnar, landsvæði, þekkingu, vinnufólk og þjóna svo eitthvað sé nefnt. Hann ritaði raunaþungur um að allt slíkt væri hégómi, hlaup á eftir vindi. Það sem raunverulega veitti ánægju væri að setjast niður að loknu góðu dagsverki og njóta stundarinnar með sjálfum sér og öðrum. Abraham Maslow kom fram með þarfapíramída sem byggðist á fimm þrepum. Hann vildi meina að til þess að líða sem best þyrfti maðurinn að uppfylla meðfæddar grunnþarfir sem væru í raun líkamlegar, að fá að borða, að eiga einhvers staðar heima, öryggi í veraldlegum skilningi, að eiga góða að og að upplifa vináttu og virðing frá öðrum og virðingu fyrir sjálfum sér. Ef þessum atriðum væri fullnægt vildi Maslow meina að hægt væri að fara í efsta stig píramídans sem kallast sjálfsbirting, að vera besta eintakið að sjálfum sér. Það er erfitt að segja hvað nákvæmlega skiptir mestu máli og við erum misjöfn eins og við erum mörg. Það virðist samt vera að einfaldleikinn haldi alltaf velli á endanum, og að því leytinu til er áhugavert að skoða hvað Maslow hafði að segja. Ef við sinnum okkur, heilsunni, hugum að mataræði, svefni og hreyfingu þá er strax miklu komið til leiðar. Að vera í félagslegum tengslum, eiga góða vini og upplifa kærleika í nánum samböndum hlýjar okkur um hjartarætur. Ef við berum svo gæfu til að hafa frelsi og hugrekki til að finna þá góðu eiginleika sem í okkur búa og getum notið þess að fá útrás fyrir þá, þá eru talsverðar líkur á að við séum hamingjusöm. Fyrirstaðan er fyrst og fremst í huganum okkar, við erum með ýmsar hugmyndir um okkur sjálf og lífið í heild, sem geta verið að vinna gegn okkur og halda okkur uppteknum í ótta og óöryggi. Þessar hugmyndir eru mjög iðulega komnar frá fyrstu tíð, það er að segja úr uppvextinum þar sem við lærum af því að fylgjast með öðrum og í gegnum þeirra framkomu við okkur. Þar geta fjölmargar góðar aðferðir og lífsskoðanir leynst, en líka þær sem mætti endurskoða og jafnvel henda. Þess vegna er mikilvægt að vinna úr því til þess að fara að sjá upp yfir áhyggjurnar og fara að njóta alls þess sem lífið hefur upp á að bjóða.

Það er alveg sama hvað það er, ef við viljum breyta einhverju þá þurfum við að taka af skarið og gera eitthvað til þess að breytingar geti átt sér stað.“

Valdimar vísar í hvataráðgjafann Jim Rohn. „Hann var vanur að segja að ef við höldum áfram að gera það sama og við höfum verið að gera, þá eru allar líkur á því að við höldum áfram að fá það sem við höfum verið að fá. Það er mikið til í því. Ef það eru einhver atriði sem eru að valda einstaklingum vanlíðan, eru þrálát eða yfirþyrmandi, þá er um að gera að taka skrefið og gera eitthvað nýtt. Það getur verið að fara á námskeið, í viðtalstíma eða einfaldlega að gera eitthvað nýtt í lífinu. Mörgum þykir erfitt að fara af stað, hafa jafnvel reynslu af því að það hafi ekki gengið áður eða óttast sársaukann við að vinna í sér. Það er vel skiljanlegt. Það er engu að síður oftast þannig að fólk er ánægt þegar fram í sækir, þegar það sér að einhverjar breytingar hafa átt sér stað. Aðalatriðið er að taka fyrsta skrefið,“ segir Valdimar að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál