Hjálpa nemendum að ná lengra

Iðunn Antonsdóttir er forstöðumaður Námsflokka.
Iðunn Antonsdóttir er forstöðumaður Námsflokka. mbl/Arnþór Birkisson

Námsflokkar Reykjavíkur sem eru elsta fullorðinsfræðslustofnun landsins, hófu starfsemi í febrúar árið 1939 og verða því 80 ára á næsta ári. Frá upphafi hefur starfsemin þróast í takt við þarfir samfélagsins og segir Iðunn Antonsdóttir, forstöðumaður Námsflokka Reykjavíkur, áhugavert að sjá hve framsýnn hópur fólks setti stofnunina á laggirna.

„Strax í upphafi er mörkuð sú stefna að gera samfélaginu gagn og fylla upp í skörð í framboði menntunar,“ segir hún. „Framan af fólst starfið einkum í að hjálpa fólki með stutta skólagöngu að auka menntun sína, en kennslan hefur þróast í sífellu í takt við óskir almennings hverju sinni um fræðslu á ólíkum sviðum.“

Námsflokkar Reykjavíkur hafa líka frá upphafi státað af einvalaliði kennara og ráðgjafa sem leggja allan sinn metnað í að liðsinna nemendum. „Gaman að segja frá því að á meðal þeirra fjölmörgu kennara sem unnið hafa hjá okkur eru tveir forsetar lýðveldisins, þau Vigdís Finnbogadóttir og Kristján Eldjárn,“ upplýsir Iðunn.

Virkja og efla

Í dag er aðalhlutverk Námsflokkanna að styðja við fólk sem þarf hvatningu til að koma aftur undir sig fótunum og þannig bæta eigin lífsgæði. „Þessir nemendur eiga það sameiginlegt að eiga lögheimili í Reykjavík, vera á endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun Íslands og hafa notið fjárhagsaðstoðar frá Reykjavíkurborg. Við leggjum okkur fram við að mæta nemendum á þeirra forsendum og gera þá færari í að takast á við vinnu og nám og verða virkari sem samfélagsþegnar.“

Námið er kynjaskipt; annars vegar er Kvennasmiðja og hins vegar Karlasmiðja. Kennt er í 10-15 manna hópum, 4-5 sinnum í viku og varir námið frá 9 upp í 18 mánuði. „Við bjóðum fram ýmsar hefðbundnar námsgreinar en kennum þær á sumpart óhefðbundinn hátt og t.d. eru enska og íslenska kenndar saman og þá í gegnum Njálu og Eglu. Verklegt og listrænt nám er líka veigamikill þáttur í Kvenna- og Karlasmiðju og geta nemendur t.d. lagt stund á grafíska hönnun, saum, silfursmíði, útskurð og stuttmyndagerð.“

Bakhjarlar unga fólksins

Hjá Námsflokkum Reykjavíkur er líka rekið öflugt starf til stuðnings 16-20 ára ungmennum sem þurfa leiðsögn og hvatningu. Er um að ræða verkefni sem unnið er í samstarfi við Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Fjölbrautaskólann við Ármúla. „Við erum með námsleiðina Námskraft sem stendur þeim til boða sem hafa hætt í skóla eða ekki byrjað nám á framhaldsskólastigi,“ segir Iðunnn. „Nemendurnir fá mikla ráðgjöf og hverjum hópi fylgir sérstakur hópsstjóri sem er náms- og starfsráðgjafi.“

Í Námskrafti læra nemendur heimspeki, stærðfræði, listrænar og verklegar greinar og segir Iðunn að það sé engin tilviljun að þessi fög hafi orðið fyrir valinu: „Mikil breidd er í hverju námskeiði og leitum við að styrkleikum hvers og eins. Þegar nemandinn hefur fundið það sem hann er góður í og hefur gaman af þá veitir það honum vonandi hvatann til að takast á við hin fögin og njóta sín í náminu.“

Ungu fólki stendur líka til boða að taka þátt í námsleiðinni Starfskraftur. „Um er að ræða bókalausan áfanga sem er ætlaður ungmennum sem hafa ekki áhuga á bóknámi en þurfa engu að síður að efla sig til að standa betur að vígi á vinnumarkaði og verða góðir starfskraftar,“ segir Iðunn. „Í þessu námi leggjum við áherslu á sjálfseflingu í víðum skilningi og leitum að styrkleikum nemendanna. Þátttakendur fara síðan í starfsþjálfun, t.d. við afgreiðslustörf, á leikskólum, hjá garðyrkjustöðvum eða hjá fyrirtækjum borgarinnar en halda áfram að vera hjá okkur tvisvar í viku.“

Iðunn segir að stundum kvikni áhugi hjá ungmennunum að setjast aftur á skólabekk og er þá tíminn hjá Námsflokkum Reykjavíkur búinn að veita þeim ágætan undirbúning: „Þau ljúka t.d. námi í skyndihjálp sem veitir þeim eina framhaldsskólaeiningu og getur það verkað hvetjandi. Nemendum sem lokið hafa Starfskrafti er velkomið að færa sig yfir á Námskraft á næstu önn og geta þannig búið sig enn betur undir að halda áfram námi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál