Allir geta lært nýja hluti

Erla Aradóttir er kennari af líf og sál. Hún segir …
Erla Aradóttir er kennari af líf og sál. Hún segir að allir geti lært tungumál á sínum hraða. Ljósmynd/Aðsend

Erla Ara, eins og hún er vanalega kölluð, er með framhaldsskólaréttindi sem enskukennari og er með meistaragráðu í enskukennslu fyrir útlendinga frá The University of East Anglia. Hún hefur kennt ensku í grunnskóla, framhaldsskóla og fullorðinsfræðslu.

„Við bjóðum upp á níu vikna námskeið í Hafnarfirði. Þau eru fyrir 35 ára og eldri og hefjast í september ár hvert og síðan aftur í janúar. Í boði eru 10 getustig, frá byrjendum upp í framhaldshópa, og er lögð áhersla á tal í öllum hópum. Einnig er lögð áhersla á að þjálfa lesskilning og fylgir hljóðdiskur öllu lesefni.

Á sumrin stendur nemendum til boða að fara í námsferð til Englands. Nemendur stunda þá enskunám í tvær vikur í Kent School of English auk þess sem þeir njóta þess að kynnast enskri menningu. Boðið er upp á dagsferðir til Cambridge og Canterbury og einnig er enska sveitin heimsótt sem rómuð er fyrir sín fallegu sveitaþorp og kastala,“ segir hún. „Við förum einnig í göngutúra meðfram fallegri klettaströndinni, kíkjum við á krám og kaffihúsum þar sem við gæðum okkur á English Cream Tea.“

Að heimsækja ensku sveitina er mögnuð upplifun. Þannig getur tungumálanámið …
Að heimsækja ensku sveitina er mögnuð upplifun. Þannig getur tungumálanámið verið lifandi og skemmtilegt. Ljósmynd/Aðsend

Þess fyrir utan eru námsferðir fyrir 13-16 ára og í því tilfelli er um að ræða unglinga alls staðar að af Íslandi sem halda utan í tveggja vikna námsferð til Broadstairs, þar sem þeir stunda nám í Kent School of English með hóp unglinga sem koma víða að úr Evrópu. „Skólinn hefur staðið fyrir námsferðum nemenda vítt og breitt um England og komið víða við á ferðalögum um landið. Á vegum skólans hafa rúmlega eitt þúsund manns farið til enskunáms í Englandi.“

Kennsla í blóð borin

„Kennsla virðist vera mér í blóð borin því ég hef unnið við kennslu í fjörutíu ár og notið þess að kenna á nær öllum aldursstigum auk þess sem ég hef haft yndi af því að stofna minn eigin skóla. Í skólann sækja tæplega tvöhundruð nemendur á hverri önn, 95% af þeim eru konur, meðalaldur í kringum 50 ára og bakgrunnur þeirra ólíkur. Þau koma úr hinum ýmsu starfsstéttum og hafa allt frá grunnskóla- upp í háskólamenntun að baki. Þau koma flest frá höfuðborgarsvæðinu en þó nokkuð margir koma frá Selfossi, Hveragerði, Akranesi, Suðurnesjum og alltaf einn eða tveir sem koma lengra að eins og til dæmis frá Borgarnesi, Stykkishólmi og Ólafsvík,“ segir Erla. 

Að taka sig ekki of hátíðlega

Erla segir að ekkert gleðji hana meira en að heyra frá nemendum sem oft og tíðum hafa haft löngun lengi til að koma og í skólann.

„Ég legg ríka áherslu á að nemendur séu í hópi við hæfi og reyni að efla sjálfstraust þeirra, að þeim líði vel, taki sig ekki of hátíðlega, sætti sig við að gera mistök og hafi gaman að því að læra. Allir geta lært, bara mishratt,“ segir hún að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál