Hvaða reglur gilda um inneignarnótur?

mbl.is/ThinkstockPhotos

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður svarar lesendum Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem á inneignarnótu sem hún hafði gleymt. 

Sæl

Ég var að taka til um daginn og fann þá innleggsnótu sem ég hafði steingleymt. Ég sá fram á að geta nýtt mér hana enda nýflutt að heiman og búðin selur ýmislegt sem ég gæti nýtt mér í nýju íbúðinni minni. Þegar ég fór að skoða innleggsnótuna betur sá ég að hún rann út í lok sumars og peningurinn minn þar með glataður. Mega búðir setja svona frest á innleggsnótur? Er þetta ekki í rauninni minn peningur?

Bestu kveðjur,

Konan með innleggsnótuna.

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður.
Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður. mbl.is/Valgarður Gíslason

Sæl kona með inneignarnótuna. 

Almenna reglan er sú að inneignarnótur teljast til kröfuréttinda sem fyrnast á 4 árum. Inneignarnótan ætti því almennt að gilda í fjögur ár frá útgáfu hennar, nema samið sé um annað eða gildistími sérstaklega skráður á inneignarnótuna.  Það er algengara en ekki að það sé skráður gildistími á inneignarnótum.

Engin lög eða reglur eru til sem binda kaupmenn í þessum efnum. Til eru verklagsreglur um skilarétt, gjafabréf og inneignarnótur frá árinu 2000 sem eru leiðbeinandi til seljenda og því hvílir ekki lagaskylda á þeim að fylgja reglunum. Í reglunum er sérstaklega tekið fram að gildistími inneignarnóta skuli aldrei vera skemmri en eitt ár.

Auðvitað er þetta ósanngjarnt gagnvart þeim sem skilar vöru og fær inneignarnótu, eins og þú bendir á er þetta þinn peningur. Neytendasamtökunum berast reglulega kvartanir yfir þessu og nú nýlega var lögð fram þingsályktunartillaga á Alþingi um að endurskoða þessar reglur til að auka vernd neytenda. Þetta var í fjórða sinn sem tillagan var lögð fram og því virðist ætla að ganga hægt að laga þetta óvissuástand.

Nú veit ég ekki hversu langur gildistími var ákveðinn á þinni inneignarnótu en mér þætti eðlilegt að þú færir í búðina og bentir þeim á þessar reglur og kannaðir hvort að það væri ekki mögulegt fyrir þig að nota inneignarnótuna.

Gangi þér vel!

Kær kveðja, 

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Heiðrúnu spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál