Gengur illa að búa til fræg vörumerki

Viggó Jónsson hélt erindi á Charge ráðstefnunni.
Viggó Jónsson hélt erindi á Charge ráðstefnunni.

Viggó Jónsson er annar stofnenda og eigenda Jónsson & Le'macks. Hann hefur unnið mikið fyrir orkufyrirtækin í gegnum árin. 

„Ég byrjaði í auglýsingabransanum í sumarvinnu eftir menntaskóla. Ég var á leiðinni í verkfræði en sumarstarfið átti vel við mig og var prýðilega launað á þeim tíma. Það var skemmtilegt og ég var mjög fljótt farinn að vinna stór verkefni. Ég hætti því aldrei í sumarvinnunni,“ segir hann og brosir. „Við Agnar Tr. Lemacks stofnuðum J&L vorið 2003. Planið var að gera eitt verkefni sem allir myndu taka eftir og gera okkur pínu fræga. Við höfðum samband við 66°Norður og okkar fyrsta verkefni var blaðaauglýsing sem var upphafið að endurmörkun þess ágæta fyrirtækis. Samstarf J&L og 66 stendur enn eftir 15 ár.“

Ræðir ný tækifæri

„Á Charge ráðstefnunni mun ég fjalla um hvernig breytt gildismat á Vesturlöndum hefur búið til nýja tegund af vörum og opnað tækifæri sem hefðu þótt fjarlæg fyrir ekki löngu síðan. Fólk hefur minni áhuga á eiginleikum vörunnar sjálfrar en vaxandi áhyggjur af því hvernig þær eru búnar til. Eru þær umhverfisvænar? Er framleiðslan mannúðleg? Eru fólki greidd sómasamleg laun? Eru dýr drepin? Er farið illa með dýr? Eru viðskiptahættir góðir? Á framleiðslan sér stað í landi þar sem mannréttindi eru fótum troðin? Eru eigendur flæktir í einhverja vandræðalega hluti? Er jafnrétti virt? Og svo framvegis og svo framvegis.“

Viggó heldur áfram og útskýrir. „Vörur sem eru vottaðar á viðeigandi hátt eru því orðnar dýrari en hinar enda verðmætari því þær fela í sér þá jákvæðu tilfinningu að kaupandinn sé að láta gott af sér leiða. Með því að velja réttu vörurnar ertu að vinna gegn plasti í sjónum eða slæmri meðferð dýra.

Þarna liggja mikil tækifæri fyrir íslenska orku. Við erum í algerlega einstakri stöðu hér þar sem öll innlend orkuframleiðsla er endurnýjanleg. Það er ótrúlega mikilvæg sérstaða og frábær saga fyrir öll íslensk útflutningsfyrirtæki.“

Hvert er virði grænnar orku í dag? „Græna orkan verður sífellt verðmætari. Til þess að auka virðið þurfa framleiðendur endurnýjanlegrar orku að vera mun skýrari og skarpari í skilaboðum. Á Íslandi eru það að lokum stjórnvöld og mikilvægasta verkefni Íslandsstofu, held ég, er að gera Ísland þekktara sem upprunaland umhverfisvænnar orku. Þetta er viðfangsefni mörkunar.

Ísland sem land endurnýjanlegrar orku. Þetta er ekki bara stór og mikil saga – hún er líka skemmtileg, forvitnileg og hún er sönn – ólíkt sumu af því sem Ísland er að bjóða upp á í ferðamennskusölunni.“

Verðmæt staðreynd fyrir Ísland

Hverju getur góð markaðssetning skilað sér fyrir þjóðina í heild? „Öll orka sem er unnin á Íslandi er endurnýjanleg. Þetta er gríðarlega verðmæt staðreynd sem hefur alls ekki verið nýtt sem skyldi. Vegna þess að fólk á Vesturlöndum er tilbúið að borga meira fyrir umhverfisvænar vörur ættu allar vörur unnar úr íslenskri orku að hafa premium. Þetta gildir ekki bara um álið heldur alveg jafn mikið um landbúnaðarafurðir og fiskvinnslu.

Vörurnar okkar hafa nú þegar greiðari aðgang að verslunum sem leggja áherslu á umhverfisvænar og lífrænar vörur. Ég hef heyrt nógu margar sögur frá útflutningsfyrirtækjum um það.“ Viggó segir að margt af því sem er framleitt hér hafi lengi verið hálfgerð staðkvæmdarvara. „Íslendingum hefur gengið frekar brösuglega að búa til heimsfræg vörumerki og það er ekki góð staða í markaðsstarfi. Aðgreining sem byggist á endurnýjanlegri orku getur hins vegar skipt máli á undarlegustu stöðum. Við framleiðum t.d. fiskimjöl í miklu magni. Sú framleiðsla er orkufrek og það skiptir bara máli núorðið fyrir fiskeldisfyrirtæki sem ætla að keppa á verðmætustu mörkuðunum að þeirra afurðakeðja sé umhverfisvæn.“

Ný skilaboð að verða til

Gilda önnur lögmál fyrir þennan iðnað en annan iðnað sem þú þekkir? „Rafmagn er í raun ekkert minna skiljanleg vara en t.d. símaþjónusta. Sú var tíðin að Póstur & sími var óáhugavert einokunarfyrirtæki og engum datt í hug að markaðssetning á símaþjónustu yrði nokkurn tímann eitthvað.

Ég held að orkan sé á sama stað á alþjóðavísu vegna þess að algerlega ný skilaboð eru að verða til og nýjar söluleiðir að koma fram sem breyta hugmyndum okkar um hver varan er.

Þannig að svarið er nei – eins og í öllu öðru markaðsstarfi þarftu að vera viss um að varan sé í lagi, skilja eigin sérstöðu og hafa skýr markmið áður en þú byrjar að augýsa eitthvað.“

Hvernig sérðu framtíðina? „Á meginlandinu er nú þegar hægt að velja orkusala út frá vistspori og það mun verða sífellt algengari ástæða fyrir vali neytenda. Kaup og sala á rafmagni á neytendamarkaði mun verða til sem iðnaður – nýjar leiðir sem auðvelda val neytenda.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál