Eiga ekki pantað flug heim

Ísak Atli og Sigríður Lára flugu út í heim í …
Ísak Atli og Sigríður Lára flugu út í heim í ágúst og vita ekki hvenær þau koma næst heim. Ljósmynd/Aðsend

Landsbyggðarparið Sigríður Lára Stefánsdóttir og Ísak Atli Finnbogason hafa verið saman í þrjú og hálft ár og síðustu tvö árin hafa þau verið með annan fótinn í útlöndum. Þau Sigríður og Ísak sem eru 21 og 25 ára fóru til Kosta Ríka í ágúst síðastliðnum og eru ekki á leiðinni heim á Sauðárkrók á næstunni. 

Ísak segir í viðtali við Smartland að það þurfi ekki að vera dýrt að ferðast til framandi landa en hann og Sigríður hafa verið dugleg að birta myndir af ferðalögum sínum á Instagram. Þau hvetja aðra til þess að fylgja í fótspor þeirra og ef fólki vantar ferðaráðleggingar er hægt að biðja þau um ráð á samfélagsmiðlinum. 

Búin að vera meira og minna úti síðastliðin tvö ár

„Við fórum í fyrsta framandi ferðalagið okkar í byrjun september 2016. Þá vorum við í Kosta Ríka til jóla með viðkomu í Bocas Del Toro (Panama) og í New York. Eftir hátíðirnar eða í janúar 2017 fórum við svo niður til Taílands þar sem við vorum í um það bil fjóra mánuði. Reyndar ferðaðist Sigríður í sex vikur af þessum tíma með Margréti systur sinni um Laos, Víetnam, Kambódíu, Malasíu, Singapúr og Bali. Ég var eftir í Taílandi á meðan,“ segir Ísak um fyrstu ferðalögin þeirra. 

Ísak og Sigríður létu ekki staðar numið eftir ferðalagið um Taíland og í byrjun árs fóru þau í fjögurra mánaða ferðalag um Asíu. Þar skoðuðu þau Dubai, Maldíveyjar, Sri Lanka, Taíland og Filippseyjar. 

Á hvaða ferðalagi eru þið núna? 

„Við byrjuðum ferðalagið í lok ágúst. Fyrst tók við nótt í Amsterdam og svo önnur í París. Við tókum beint flug frá París til San José, höfuðborgar Kosta Ríka. Við erum svo búin að vera í litlum bæ syðst á karabíska hluta landsins sem kallast Puerto Viejo. Þar erum við búin að vera í sjálfboðaliðastarfi í Jagúar Rescue Center síðan í september. Þar er tekið við alls kyns villtum dýrum sem hafa annaðhvort slasast eða eru munaðarlaus og of ung til að sjá um sig sjálf. Þeim er svo sleppt aftur út í náttúruna þegar þau eru tilbúin. Þótt það séu alls konar dýr sem koma til okkar eru algengustu dýrin öskurapar og letidýr.

Sigríður Lára og Ísak Atli á ferðalagi.
Sigríður Lára og Ísak Atli á ferðalagi. Ljósmynd/Aðsend

Planið er að vera hér í um tvær vikur í viðbót, skreppa svo til Bocas Del Toro-eyjanna í Panama og ferðast svo um Kyrrahafshluta Kosta Ríka til jóla. Við munum svo eyða jólunum í litlum strandbæ á Spáni og áramótunum í Berlín. Eftir áramót liggur leiðin aftur til Asíu þar sem við munum byrja í Taílandi en ætlum einnig að reyna að heimsækja Víetnam, Myanmar, Filippseyjar og einhverjar eyjar í Indónesíu.

Við erum ekki alveg klár á því hvað við verðum lengi á hverjum stað eftir áramót. Við ætlum bara að spila af fingrum fram og sjá hvert ævintýrin leiða okkur. Eins og er eigum við ekki miða heim.“ 

Ódýrt að lifa á framandi slóðum

Þarf maður að safna lengi fyrir svona ferðalagi? 

„Það fer bara allt eftir því hvernig ferð þú vilt fara í. Að okkar mati geturðu farið í fína reisu í Asíu fyrir 500 þúsund. Jafnvel ódýrara ef þú tekur bara með handfarangursbakpoka og gistir á hostelum.

Að eyða lengri tíma á hverjum stað getur einnig verið hagstætt. Við fundum til dæmis út að mánaðarleiga á hóteli í Phuket með rækt og sundlaug á þakinu, nálægt Jamesbond Island, PhiPhi og fleira, kostaði 55 þúsund íslenskar, einnig er hægt að fá fínt stúdíóherbergi á hóteli án sundlaugar fyrir 35 þúsund á mánuði ef fólk vill spara enn meira.  

Stærsti kostnaðurinn við svona ferðir er augljóslega flugið, hlutfallslega þá helst leggirnir til og frá Íslandi. “

Þið talið um að flýja níu til fimm lífið, af hverju?

„Við vitum bara að það er meira í boði ef maður hugsar út fyrir kassann. Við viljum frekar vera í harkinu á eigin spýtum að elta okkar drauma en að vera föst í vinnu og hugsa „hvað ef?“.

Síðustu vikur höfum við náttúrulega verið í mikilli rútínu, vinna frá hálfátta til hálffjögur í dýraathvarfinu. Annars getum við ekki sagt að við söknum íslensku rútínunnar, okkur finnst mun betra að gera það sem við veljum að gera.“

Lítill heimur

Hvað er það skemmtilegasta sem þið hafið lent í á ferðalaginu?

„Erfið spurning, það er rosalega mikið sem kemur til greina. Lestarferðin frá Nuwara Eliya til Ella í Sri Lanka sem er talin sú fallegasta í heiminum, köfun á Maldíveyjum og öll skiptin sem fólkið á mörkuðunum í Taílandi kallar á eftir Sigríði eftir að hún gleymir símanum sínum á borðinu þeirra. 

Við lentum reyndar í ótrúlega fyndnu atviki á hóteli í Phuket í febrúar. Við hittum eigandann hann Anthony í anddyri hótelsins og fórum að spjalla við hann, sögðumst vera frá Íslandi. Hann var mjög spenntur yfir því og sagðist stundum heimsækja Ísland og eiga vin þar. Það kom svo í ljós að vinur hans er Guðjón íþróttakennari á Sauðárkróki sem við þekkjum. Þeir kynntust víst í Taílandi fyrir einhverjum árum og síðan hefur Anthony verið að heimsækja Krókinn og sniðið jakkaföt á stóran hluta Sauðkrækinga. Alveg magnað hvað þetta er lítill heimur.“

En hafi þið verið hrædd á einhverjum tímapunkti? 

„Það sem stendur upp úr verður að vera fellibylurinn Ottó árið 2016. Á ákveðnum tímapunkti stefndi í að hann myndi koma að landi þar sem við vorum í Kosta Ríka. Það hefði verið í fyrsta sinn í yfir 100 ár sem fellibylur kemur á land hér þannig að enginn vissi í rauninni hverjar afleiðingarnar myndu verða. Við versluðum nóg af vatni og mat til öryggis en sem betur fer sluppum við og fengum bara vont veður, úrhellisrigningu og rafmagnsleysi,“ segir Ísak. 

„Við viljum hvetja alla, sérstaklega ungt fólk sem er ekki alveg visst um hvað það vill gera í lífinu, að fara út í heim. Farið út fyrir þægindarammann og gerið bara eitthvað allt annað en þið eruð vön. Þið eigið eftir að víkka sjóndeildarhringinn svo mikið og mörg ykkar eigið eftir að komast að því hvað þið viljið raunverulega gera í lífinu,“ segir Ísak að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál