Stígur fyrstu skrefin eftir 30 ár í neyslu

Atli Heiðar Gunnlaugsson.
Atli Heiðar Gunnlaugsson.

Eftir tæpa þrjá áratugi í neyslu fíkniefna með öllu því sem henni fylgir eru það stór skref að stíga aftur inn í samfélagið. Atli Heiðar Gunnlaugsson hafði misst allan lífsneista þegar hann fór í níu mánaða meðferð í Hlaðgerðarkoti. Hann hefur með aðstoð Samhjálpar snúið við blaðinu og hafið nýtt líf með tveggja ára dóttur sinni, Kristbjörgu. Viðtalið er birt með leyfi Samhjálpar. 

Atli Heiðar tekur vel á móti blaðamanni Samhjálparblaðsins á heimili sínu. Hann er þá nýbúinn að sækja Kristbjörgu dóttur sína á leikskólann. Kristbjörg fagnar einnig félagsskapnum og lætur ekki samtal fullorðinna manna trufla sig í því að sýna dótið sitt. Fljótt kemur að heilagri stund hjá lítilli stúlku þegar hún fær mjólk og kleinu um kaffileytið.
Sú stutta nýtur þess til fulls á meðan faðir hennar rekur sögu sína.

Atli Heiðar er fæddur á Egilsstöðum árið 1974 og er því 44 ára gamall. Hann gekk í skóla fyrir austan, er alinn upp á góðu heimili og stundaði frjálsar íþróttir af miklu kappi fram á unglingsár.

„Ég hugsa að saga mín væri svolítið öðruvísi ef ég hefði haldið áfram í íþróttum,“ segir Atli Heiðar um leið og hann sýnir blaðamanni stoltur fullan kassa af verðlaunapeningum frá því að hann stundaði íþróttir. Móðir hans, sem lést árið 2013, hélt sem betur fer upp á
verðlaunapeningasafnið. Atli Heiðar var 14 ára þegar hann smakkaði fyrst áfengi, en ári síðar var hann farinn að reykja kannabis.

„Ég drakk mjög illa frá fyrsta degi og drapst áfengisdauða í fyrsta sinn sem ég drakk,“ segir Atli Heiðar.

„Ári síðar fór ég að reykja kannabis því það þótti, svo undarlega sem það hljómar,
mótvægið við því að drekka sig fullan og vitlausan.“


Næstu ár á eftir einkenndust af þessum lífsstíl, drykkju og kannabisreykingum. Þegar
Atli Heiðar var 17 ára lenti hann hins vegar í alvarlegu bílslysi við Hallormsstað, þar sem
hann var að keyra undir áhrifum. Hann var heppinn að sleppa lifandi úr slysinu, en þessi
atburður leiddi þó til þess að hann fór, fyrir atbeina foreldra sinna, í sína fyrstu meðferð.
Þetta var árið 1991. Eftir meðferðina kynntist hann stúlku og tveimur árum síðar eignuðust þau dóttur. Atli Heiðar var edrú næstu fjögur ár og stefndi að því að leggja fyrir sig myndlist, enda hafði hann hæfileika til þess. Hann tók þátt í því að búa til vinsælt spil á þeim tíma, Ask
Yggdrasils, og hóf síðar blaðaútgáfu í samstarfi við aðra. Það átti þó eftir að hafa afleiðingar.
Árið 1995 var útgáfu blaðsins fagnað á skemmtistaðnum Tunglinu, en á þeim viðburði neytti Atli Heiðar, sem þá hafði verið edrú í fjögur ár, örvandi efna í fyrsta sinn.

„Á hálfu ári tókst mér að rústa öllu sem hægt var að rústa og leiðin lá niður á við,“ segir Atli Heiðar.

„En það er auðvitað einhver aðdragandi og maður áttar sig á því síðar þegar maður setur það í samhengi. Það gerist ekki bara allt í einu að maður fái sér kókaín eftir fjögur ár af edrúmennsku, en þarna hafði ég ekki verið að sinna því sem ég átti að vera að sinna. Í
kjölfarið tók við mikið stjórnleysi. Þegar ég var 21 árs var ég orðinn gjaldþrota og miðað
við þann tilfinningaþroska sem maður hefur á þeim aldri þá er það mikið hrun og maður
sér ekki fram á að ná sér upp úr því. Ég í raun stimplaði mig út úr samfélaginu, heimurinn
gafst upp á mér og ég gafst upp á heiminum.“

Næstu ár á eftir tók við tímabil sem einkenndist af aukinni neyslu og tíðum innlögnum á meðferðarstofnanir. Þessar innlagnir nýttust að hluta til niðurtröppunar, en Atli Heiðar náði aldrei bata. Neyslusagan verður ekki rakin í smáatriðum hér enda er erfitt að búa til línulega frásögn af þannig lífi yfir lengri tíma. Stór hluti af því gleymist og tíminn rennur saman þegar lífið gengur út á það eitt að neyta fíkniefna. Lesendur geta gert sér í hugarlund hvernig það líf er. Við stöldrum þó við árið 2006 þegar Atli Heiðar endaði í fangelsi í Frakklandi eftir að hafa verið tekinn við fíkniefnasmygl. Hann fékk ársdóm og sat inni í tæpa ellefu mánuði.

„Þetta var mjög erfiður tími, enda grimmur staður og erfitt að vera þarna,“ segir Atli Heiðar sem var lokaður inni í átta fermetra klefa í 22 klst. á sólarhring. Lýsingar Atla Heiðars af afplánuninni eru eins og gróf bíómynd. Lífið þar snerist um að komast lífs af, bæði frá öðrum föngum og ekki síður frá fíkninni. Atli Heiðar átti líka eftir að sitja inni hér á landi, en árið 2009 rændi hann apótek í Reykjavík í þeim tilgangi að útvega sér lyfseðilsskyld efni.

„Saga mín frá þessum árum einkennist af myrkri og svartnætti,“ segir Atli Heiðar.

„Maður er enginn töffari þegar maður situr grátandi inni í fangaklefa og óskar sér þess að
lífið væri einhvern veginn öðruvísi.“

Var níu mánuði í meðferð


Í byrjun júní 2017, eftir 22 ár í stanslausri neyslu og öllu því sem henni fylgir, fór Atli Heiðar loksins í meðferð í Hlaðgerðarkoti þar sem hann dvaldi næstu níu mánuði. Hann hafði þá nýlega eignast aðra dóttur, Kristbjörgu. Þrátt fyrir allt sem á undan var gengið gerði hann sér grein fyrir því að ef hann ætlaði sér einhvern tímann að eiga framtíð með dóttur sinni yrði hann að ná bata. Móðirin, sem einnig var í neyslu, hafði þá forræði yfir stúlkunni og hann hafði ekki séð hana í nokkurn tíma.

„Ég var uppfullur af vonleysi. Ég áttaði mig þó á því að ég fengi aldrei að sjá dóttur mína nema ég kæmi mér í lag og ég fór í meðferð með það markmið að geta barist fyrir henni og fyrir hana,“ segir Atli Heiðar.

„Ég hafði þó enga sértaka trú á því að ég hefði nokkra getu eða hæfileika til að sjá um barn, en ég vissi á sama tíma að ef ég héldi áfram í neyslu myndi ég aldrei verða hluti af hennar lífi. Þetta er sjúkdómur sem maður þarf að takast á við. Það leikur sér enginn að því að drekka frá sér vini, fjölskyldu, vinnu og loks lífið sjálft.“

Eins og áður hefur verið fjallað um hér í Samhjálparblaðinu hafa miklar breytingar átt sér stað í Hlaðgerðarkoti. Ein af þeim er sú að niðurtröppun eða afeitrun eins og það er stundum kallað fer ekki lengur fram í Hlaðgerðarkoti og þeir skjólstæðingar sem þangað koma þurfa að hafa verið edrú í að minnsta kosti tíu daga. Atli Heiðar neytti þó efna sama dag og hann fór inn en tókst að fela það, þó hann hafi viðurkennt það fyrir starfsfólki síðar.

„Fyrstu dagarnir voru mjög sársaukafullir, bæði líkamlega og andlega,“ segir Atli
Heiðar.

„Þetta var um hásumar og ég var það heppinn að vera einn í herbergi fyrst um sinn. Ég náði mér í aukasæng og kodda og nokkur handklæði til að hafa inn á herbergi. Fyrstu næturnar var rúmið gegnsósa af svita og ég þurfti að færa mig reglulega á milli rúma þar sem þau voru orðin of blaut til að liggja í. Þarna voru efnin að fara úr líkamanum með öllum þeim kvölum sem því fylgir, ég svaf í mesta lagi 2-4 klst. á nóttu og sársaukinn var gífurlegur. En ég beit á jaxlinn því ég var ákveðinn í að klára þetta. Á sama tíma og ég var að stíga mín
fyrstu skref í bata var ég haldinn þráhyggju og ótta um dóttur mína sem ég vissi að var í
slæmum aðstæðum.“

Sem fyrr segir var Atli Heiðar í meðferð í níu mánuði. Tilhugsunin um að geta séð um dóttur sína hélt honum gangandi allan þann tíma.

„Ég á þó bara takmarkaðan hlut í þessu, þetta er kraftaverk og Guð á allan heiðurinn,“ segir Atli Heiðar.

„Ég átta mig á því að það að vera trúaður rímar ekki endilega við tískubrigði nútímans, en hér stend ég lifandi og án þess að nota áfengi eða fíkniefni og það er fyrst og fremst trúnni að þakka. Síðustu þrjá áratugi hef ég verið góður í því einu að klúðra hlutum, jafnvel þó svo að mikið sé í húfi. En ég lít þannig á að ég hafi farið í gegnum eldinn og þetta er búin að vera ein sigurganga síðan ég fór í meðferð. Ég hef tapað mörgum orrustum um ævina, en ég vann samt stríðið. Verðlaunin fyrir að vinna stríðið er að vera á lífi og geta hugsað um dóttur mína.“

Atli Heiðar segir að frá því að hann kom úr Hlaðgerðarkoti hafi hann aldrei fengið löngun í áfengi eða fíkniefni. Það er af sem áður var því áður varð hann alltaf undir í þeirri baráttu.

„Í fyrri meðferðum tókst ég aldrei á við sjálfan mig og því var gatan greið að falli,“
segir Atli Heiðar.

„Nú er ég búinn að takast á við það sem ég þurfti að takast á við. Er að vinna tólf-spora vinnuna, fara á fundi, tala við sponsor, biðja og lesa í Biblíunni og rækta samband við gott
fólk í kringum mig. Allt skiptir þetta miklu máli fyrir þá sem stefna að því að halda sér
í bata.“

Takmörkuð lífsleikni eftir langa neyslu

Miðað við sögu Atla Heiðars, sem rakin hefur verið hér að nokkru leyti, má með sanni segja að það sé kraftaverki líkast að hann skuli vera á lífi. Það er einnig kraftaverki líkast að hann skuli nú hafa Kristbjörgu hjá sér og vera í þeirri stöðu að geta búið þeim heimili. Rétt er að taka fram að Atli Heiðar hafði sjálfur frumkvæði að því að hafa samband við barnaverndaryfirvöld þar sem barnsmóðir hans var í neyslu og með litlu stúlkuna hjá sér. Hann er í dag í góðu sambandi við barnaverndaryfirvöld í Reykjavík sem fylgjast náið með. Aðspurður segist hann hafa mætt góðu viðmóti þar og að öll vinnubrögð hafi verið til fyrirmyndar. Allt þetta ferli hefur þó ekki verið neinn dans á rósum, og það er að mörgu leyti
merkilegt hvað tekur við eftir nær þrjá áratugi af neyslu fíkniefna. Til dæmis má nefna að Atli Heiðar hefur fram til þessa aldrei notað heimabanka, og aðrir þættir, sem við myndum telja eðlilega í okkar daglega lífi, eru eftir tilvikum honum ókunnir.

„Ég er að stíga mín fyrstu skref í að nota heimabanka, þetta kemur allt saman,“ segir
Atli Heiðar og hlær þegar hann er spurður út í þessi atriði.

„En í tæpa þrjá áratugi hef ég þó lifað þannig að ég hef aldrei talið mig lifa út það árið, með öðrum orðum allt eins gert ráð fyrir því að ég myndi deyja. Lífsneistinn hverfur smátt og smátt þegar maður er í neyslu, eiturlyfin hafa stráfellt gamla neyslufélaga og þú gerir allt eins ráð fyrir því að vera næstur. Líf fíkniefnaneytandans er blandað reiði og sektarkennd og með fullri meðvitund reynir maður að deyfa sig frá raunveruleikanum og sársaukanum sem
því fylgir. Það er því að hluta til eðlilegt að félagsþroskinn og lífsleiknin sé ekki mikil.
En það má allt bæta og ég er meðvitaður um að það tekur bara tíma.“

Að meðferð lokinni fékk Atli Heiðar umsjón með Kristbjörgu, sem er hjá honum í dag. Honum tókst að safna sér fyrir ódýrri bifreið sem hann þarf að nota til að geta skutlað Kristbjörgu á leikskóla. Það að eiga bifreið var þó ekki sjálfgefið. Eftir að Atli Heiðar eignaðist lögheimili, í fyrsta sinn í áratugi, byrjaði gluggapóstinum að rigna inn, enda hafði hann hvorki greitt meðlag né önnur opinber gjöld þann tíma sem hann var í neyslu. Fljótt var honum tilkynnt að bifreiðin, sem var hans eina efnislega eign, yrði tekin af honum. Hann þurfti að berjast fyrir því að fá að halda bifreiðinni, enda var hún forsenda þess að hann fengi að halda dóttur sinni. Að lokum tókst honum að semja þannig að hann fengi að halda bifreiðinni.

„Ég hef nú aldeilis þurft að berjast fyrir þessum bíl,“ segir Atli Heiðar léttur í bragði.

„Ég hef þurft að sitja hér seint að kvöldi til, of þreyttur til að gráta, og skrifa greinargerðir til að reyna að semja við opinbera aðila, bæði til að reyna að gera upp þær skuldir sem fyrir liggja, en fyrst og fremst til að halda bílnum. Þetta er búinn að vera mikill rússíbani, sem ég hafði svo gott sem enga getu eða þroska til að takast á við. Ég fékk þó aðstoð hjá starfsfólki Samhjálpar til að takast á við þessi atriði og sú aðstoð var og er ómetanleg.“

Aðspurður segir Atli Heiðar þó að ekkert af þessum atriðum séu til þess fallin að fella hann.

„Vissulega þyrmir stundum yfir og sú tilfinning er ekki góð. Það er ekki skemmtilegt að vera í þessari stöðu, en ég veit að ég þarf að halda áfram og gera mitt besta. Lífið er ekki Disney-mynd, það vita það flestir. Maður þarf að taka eitt verkefni fyrir í einu, sinna því sem hægt er að sinna og gera sitt besta. Meira getur maður ekki gert. Ég veit að ég er á réttri leið,“ segir Atli Heiðar.

Atli Heiðar með Kristbjörgu dóttur sína.
Atli Heiðar með Kristbjörgu dóttur sína.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál