Hlátur meðal við sorginni

Alda Magnúsdóttir.
Alda Magnúsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Alda Magnúsdóttir sjúkraliði starfar sem jógakennari og hláturjógaleiðbeinandi. Hlátur er henni ofarlega í huga og segir hún það að hlæja vera allra meina bót. Hún byrjaði í hláturjóga í kjölfar þess að hún missti eiginmann sinn. Hún segir hlátur auðvelda henni að lifa með sorginni. Eins sýna rannsóknir að hlátur lengir lífið og færir heilbrigði inn í sál og líkama. 

Alda starfaði sem sjúkraliði fyrst á Landakotsspítala og síðan á Borgarspítala og Landspítala. Lengst af vann hún á bráðadeild hjartalækninga þar sem hún veitti hjartveiku fólki aðhlynningu.

„Þakklæti er mér efst í huga þegar ég horfi yfir starfsferil minn á spítölum landsins. Ég gæti aldrei starfað við tölvur eða setið allan daginn. Ég er mikill nærandi í mér og kann að meta að vera á ferðinni. Að hlúa að þeim sem veikir eru gaf mér lífsfyllingu og tilgang.“

Hefur upplifað djúpan sársauka

Alda giftist Bjarna Ólafssyni, athafnamanni og ráðgjafa, þegar hún var 19 ára gömul og eignuðust þau þrjú börn saman. Þau áttu 40 innihaldsrík og áhugaverð ár saman að hennar sögn, þar sem þau voru samrýnd. Þau hjónin bjuggu fjölskyldu sinni fallegt heimili, m.a. í gamla Vesturbænum. Bjarni eiginmaður Öldu lét lífið fyrir fimmtán árum úr hjartasjúkdómi. Eins hefur Alda misst einkadóttur þeirra hjóna úr krabbameini.

Þrátt fyrir þennan mikla missi fer Alda í gegnum hvern dag af auðmýkt og fegurð. Hún segir hláturjóga stóran hluta af því að hún fann leið til að lifa í gleði.

„Eftir að maðurinn minn dó tók við mikið sorgartímabil í mínu lífi. Það var einmitt á því tímabili sem hláturjóga kom inn í lífið mitt. Eins hef ég stundað sund daglega frá því ég var 27 ára gömul.“

Sund er allra meina bót

Alda spáir ekki mikið í það hvað hún ætti að vera að gera. Hvernig samfélagið vill að hún hagi sér. Hún hefur fundið sér áhugaverðan lífsstíl sem er mörgum öðrum til eftirbreytni. Hún tekur ekki inn nein lyf og er hraust á líkama og sál. Alda lifir lífinu á sínum forsendum.

„Já, ég hugsa lítið um það sem öðrum finnst. Enda ekki mitt að vera í því. Ég hef nóg með mig. Mér líkar vel að hafa nóg fyrir stafni. Ég tek inn magnesíum, kalsíum og þorskalýsi og svo stunda ég sundið til þess meðal annars að efla lungun í mér. Ég ræddi þetta einmitt við lækninn minn um daginn og sagði honum að mig langaði ekki til að taka inn astmalyf. Ég er á því að sundið geri mér kleift að vera án lyfja. Enda er sund að mínu mati allra meina bót, bæði fyrir líkama og sál.“

Hvað upplifir þú í sundi?

„Algjöra gleði og þá er ég í þeirri stund. Vatnið gerir okkur svo gott. Ég elska að vera ofan í vatni. Það geta allir farið í sund. Sund heldur niðri brjósklosi, gigtarverkjum og fleiru að mínu mati. Mér þykir ótrúlega vænt um að fá að koma þessu á framfæri. Enda er ég á því að við ættum öll að hittast í sundi oftar.

Enda til hvers eigum við allar þessar fallegu laugar, ekki til að hanga heima að mínu mati og hugsa til þeirra. Þú hefðir átt að sjá litlu börnin í lauginni í morgun, sem brostu allan hringinn. Syngjandi og hlæjandi að koma úr sundnámskeiði. Börn eru glöð í vatni og síðan sofna þau svo vel á kvöldin eftir baðið.“

Hvernig ferðu að því að vera svona glöð?

„Lífið hefur ekki alltaf verið auðvelt. En mér líður best í kringum jákvætt fólk. Ég vil alls ekki tala illa um aðra og kem mér oftast í burtu um leið og ég heyri slíkt. Við erum öll alls konar. Ég trúi því að þannig haldi maður í gleðina. Ég var mjög hláturmilt barn og síðan komu nokkur ár þar sem ég gleymdi hlátrinum. Þegar Bjarni, eiginmaður minn, dó þá sá ég auglýst hláturjóga sem vinkona mín úr Pólýfónkórnum var með. Ég varð forvitin að vita um hvað hláturjóga snerist.“

Hlátur var svo sannarlega ekki ofarlega í huga hjá Öldu, en hún er einmitt á því að þá geri hann hvað mest fyrir mann. „Hláturinn minn fór eftir að Bjarni dó og þegar ég fór í fyrsta hláturjógatímann minn þá fannst mér ekkert hlægilegt við þennan tíma. Þegar ég sá annað fólk hlæja í tímanum, hugsaði ég með mér hvað væri svona fyndið? Mér fannst ekkert fyndið, hvorki við tímann, né lífið. Í raun fannst mér þetta dálítið asnalegt í byrjun. Ég reyndi að hlæja af veikum mætti,“ segir Alda og leikur þvingaðan hlátur sem kemur djúpt neðan úr kviðnum.

„Kennarinn sagði okkur að hlæja þá bara af því að þetta væri svo asnalegt. Ég hélt áfram að mæta í tímana vikulega og áður en ég vissi af þá færðist hláturinn djúpt neðan úr maganum upp í bringu. Það varð auðveldara fyrir mig að sækja hláturinn og hann braust fram nokkrum sinnum yfir daginn. Það sem gerðist hjá mér og það sem mun gerast hjá þér ef þú æfir þig er að þú verður glaðari með tímanum og hugur þinn fyllist af jákvæðni og fallegum hugsunum. Þegar þú hlærð hugsarðu ekki neikvæðar hugsanir, þú ert ekki að bera þig saman við aðra. Það kemst ekki að. Hláturjóga er dásamleg leið út úr sorg til að opna fyrir gleðina aftur. Í raun held ég að hláturjóga sé það besta til að vinna sig út úr sorginni, eða réttara sagt, ég held það ekki heldur veit það. Þar sem ég hef prófað það sjálf.“

Þurfum ekki sérstakt leyfi til að hlæja

Alda bendir einnig á hvernig hlátur vekur röddina í okkur. „Áður en þú ferð að syngja er gott að grípa í hláturinn, eins áður en maður talar fyrir framan hóp af fólki. Ég nota hlátur mikið í bílnum þegar ég er að keyra á milli staða, að fara að kenna jóga og vil geta talað hátt og skýrt.“

Ætli það búi djúpt í þjóðarsálinni, að maður skyldi einungis hlæja þegar eitthvað er fyndið eða maður er ánægður?

„Alveg pottþétt. En við þurfum ekki leyfi til að hlæja, í raun ættum við að æfa okkur í að hlæja í bílnum eins og ég geri, eða að syngja. Þá kemst ekkert neikvætt inn í hugann. Rannsóknir sýna að hlátur kætir og lengir lífið. Skammtímaáhrifin eru þau að hlátur örvar líffæri og eykur súrefnisupptöku í líkamanum, örvar hjartað, virkjar og léttir á streituviðbrögðum og dregur úr spennu. Langtímaáhrifin eru þau að hlátur eflir ónæmiskerfið. Hann getur haft áhrif á blóðsykurinn og dregið úr sársauka og aukið slökun. Það er alveg galið að við skulum ekki hlæja meira. Yngsti nemandi minn í hláturjóga er 7 ára barnabarn mitt sem ég byrjaði að kenna hláturjóga þegar hún var fimm ára. Elsti nemandi minn er 97 ára að aldri. Það er auðveldara að kenna börnum að hlæja, þeim finnst allt fyndið og hlæja oft á dag. Við eldra fólkið hlæjum hins vegar bara nokkrum sinnum á dag og sumir aldrei. Ég las það einhvers staðar að börn hlæja 200 sinnum á dag og við fullorðna fólkið kannski þrjátíu sinnum á dag. Sumir fullorðnir hlæja meira að segja aldrei. Það er ekkert fyndið við það að vera svona alvörugefin eins og við getum orðið stundum.“

Ekki hægt að nota brandara endalaust

Síðan er húmor vandmeðfarinn ekki satt?

„Jú heldur betur. Þegar hláturjóga byrjaði þá hófust tímarnir vanalega á því að kennararnir sögðu brandara. Það gekk ekki til lengdar enda ekki hægt að segja sömu brandarana oft. Þessi aðferð lognaðist út af eins og gefur að skilja. Seinna kom dr. Madan Kataria og eiginkona hans frá Indlandi fram með nýja tækni sem byggist á leikrænni tjáningu. Það er sú tækni sem ég nota í dag við kennslu.“

Við megum vera hamingjusöm

Hvað hefur lífið kennt þér?

„Lífið hefur kennt mér að vera kærleiksrík við aðra. Að setja mig sjálfa í fyrsta sætið og hafa einlægt og gott fólk í kringum mig. Eins hefur lífið kennt mér að elska fjölskylduna mína meira. Ást er virðing í mínum huga, eða þannig var það í mínu hjónabandi. Eins finnst mér lífið hafa kennt mér að ég megi vera glöð á meðan ég er á lífi. Ég hlæ með fjölskyldunni og ég hlæ með vinum. Ef þú hlærð með vinum og starfsfélögum þá eruð þið teymi. Þið standið saman og eigið góðar minningar saman.“

Alda segir rannsóknir sýna að margir eru einmana. „Þegar þú hlærð þarftu ekki á öðrum að halda með hláturinn. Þú getur hlegið með sjálfri eða sjálfum þér eða í hóp með öðrum.“

Alda fór í ferðalag á dögunum og fann þá sterkt hvað hún þarf ekki frí frá lífinu sínu hér á landi. Að stunda böðin, jóga og hláturjóga er draumalífið að hennar mati. En ekki endilega sólarlandaferðir á framandi slóðir. Alda segir að hún lifi heilbrigðu lífi, drekki ekki gos eða kaffi. Borði hollan og fjölbreyttan mat sem nærir hana.

Á móti reykingum

„Ég er mikið á móti reykingum, en vil taka það fram að ég reykti eitt sinn sjálf. Ég fékk aðstoð við að hætta að reykja og það er sú lína sem ég er vanalega á í þessu lífi. Ég reyni ekki að gera allt ein heldur með aðstoð frá öðrum. Ég sem dæmi elska að aðstoða aðra með það sem ég hef náð tökum á sjálf. Þess vegna finnst mér svo gefandi að vera sjálf með jógatíma. Þá getur m.a. fólk komið til mín í hláturjóga, sem hluta af því að takast á við það sem það mætir í lífinu með hláturinn að vopni.“

Að hamingjan búi í hjarta okkar

Alda segir að lokum að það sé mikilvægt að allir gefi sér leyfi til þess að lifa lífinu lifandi. Ekki bara að lifa til að lifa af. „Ég er ekki háð því sem gerir mig leiða. Það er svo margt í lífinu sem getur dregið úr manni gleðina. Já, mér finnst skemmtilegra að lifa lífinu á meðan ég er lifandi. Það að ég gef mér leyfi til þess að vera glöð á hverjum degi, gefur svo vonandi öðrum hugrekki til að gera hið sama. Við eigum að mínu mati öll skilið að hamingjan búi í hjarta okkar hér.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál