Fór óhefðbundna leið í einn besta háskóla í heimi

Guðrún Svava stundar nám við Cornell-háskólann í New York.
Guðrún Svava stundar nám við Cornell-háskólann í New York.

Guðrún Svava Kristinsdóttir stefnir á að klára tvær meistaragráður í vor frá Cornell-háskólanum í Bandaríkjunum. Guðrún Svava segir draum að stunda háskólanám í New York og vinna með einu færasta vísindafólki í heimi. Háskólanámið er þó ekki dans á rósum og nú þegar hún á eina önn eftir er hún búin að klára lánasjóð LÍN og meistaragráðurnar í hættu. Hún safnar fyrir síðustu önninni á GoFoundMe auk þess sem hún vonast til þess að fá styrki frá íslenskum fyrirtækjum. 

Guðrún Svava leggur stund á nám sem kallað er Applied Information Science og Information Systems. Hún lýsir náminu sem blöndu af upplýsingaverkfræði og tölvunarfræði og tekur áfanga á sviði gervigreindar. „Til dæmis er ég í áfanga í hegðunarhagfræði (e. behavioral economics) sem hagfræðingurinn Richard Thaler fékk nýverið Nóbelsverðlaun fyrir að setja á fót. Þessi grein hagfræðinnar reynir að útskýra og mæla órökrétta hegðun mannsins sem venjulega er ekki tekin með í hefðbundin hagfræðilíkön en spáir mun betur um hegðun markaða. Ég les líka um siðfræði og löggjöf í tengslum við tölvutækni en það eru svið í mikilli þróun.“

„Leið mín hingað í Cornell er ekki alveg hefðbundin en eftir menntaskóla hélt ég út til New York í dansnám í Martha Graham-dansskólann,“ segir Guðrún Svava um námsferil sinn. „Ég stundaði dansnámið í New York í þrjú ár en eftir meiðsli ákvað ég að flytja heim aftur og skrá mig í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands. Ég ætlaði að tækla stærðfræðina á meðan ég gæfi líkamanum frí og vildi ná mér í gott og hagnýtt nám í bland við dansinn. Það var erfitt að komast í gegnum verkfræðinámið eftir nokkurt hlé frá bóknámi, en það gaf mér ákveðna auðmýkt sem ég er þakklát fyrir í dag,“ segir Guðrún Svava sem heldur áfram að miðla dansþekkingu í gegnum kennslu.

Cornell er virtur skóli, var það draumur að komast inn í hann?

„Já það var langþráður draumur að fá að stunda framhaldsnám við toppháskóla í Bandaríkjunum. Ég var búin að láta mig dreyma um það í nokkurn tíma. Ég hafði alltaf ákveðna glansmynd af flottu gömlu háskólunum í Bandaríkjunum sérstaklega þeim sem kallaðir eru „Ivy-League“ þar sem merkilegir vísindamenn stunda framúrskarandi rannsóknir og bestu nemendur heims koma saman og stunda nám.“

Guðrún Svava fyrir utan Tata Innovation Center sem er skólabygging …
Guðrún Svava fyrir utan Tata Innovation Center sem er skólabygging á Cornell Tech campusnum í New York borg.

Guðrún Svava vinnur að spennandi rannsóknum í meistaranámi sínu.

„Ég fæ tækifæri til að stunda áhugaverðar rannsóknir en ég er til dæmis að vinna að rannsóknum í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar í digital-identity sýrlenskra flóttamanna með Nicola Dell sem er prófessor í Human-Interaction við Cornell-háskóla. Í þróun eru staðlar og vinnureglur um gagnavernd og hönnun tölvukerfa sem sjá um biometric data og hvernig auðkenna má persónur á flótta.

Ég er einnig þessa stundina að vinna, ásamt öðrum, að rannsóknarverkefni í skólanum á því sem heitir Gram Panchayat en það er hugtak sem nær yfir sveitarstjórnarskipan í þorpum á Indlandi. Rannsóknarverkefnið fjallar um hvernig hanna megi tækni til þess að sporna gegn stéttaskiptingu, fordómum og kynjamisrétti og hvernig gera megi ákvarðanatöku sveitarstjórna gegnsærri. Um 70% Indverja búa í þorpum og Indverjar eru rúmlega einn sjötti af mannfjölda heimsins þannig að skalinn og stærðin á þeim málefnum sem við erum að vinna að er gríðarlegur.“

Hvernig er að vera námsmaður í New York?

„Það er engu líkt. Þessi borg er eins og stórkostleg lífvera út af fyrir sig. Hér kynnist maður rosalega mörgu og mörgum ótrúlega ólíkum menningarheimum á í raun mjög litlu fermetrasvæði. Hér er allt af öllu. Ég hef bæði verið tækni- og listnemandi í þessari borg, leigt sófa í Harlem-hverfinu, búið með írönskum náttúruverndarsinnum og búið ein á stúdentagörðum. Ég hef kynnst leikhús- og listalífinu og startup sem og Wall-Street jakkafataumhverfinu.“

Eins og fram hefur komið er ekki ókeypis að stunda nám við toppháskóla í New York. Guðrún Svava segir að skjólagjöldin hennar séu að meðaltali um 2,5 milljónir á önn og ofan á það komi svo leiga og uppihald sem kostar sitt í New York. „Ég vinn eins mikið og ég get með náminu og hef fengið stöður sem aðstoðarkennari í tveimur áföngum, gagnavísindum (e. Data science) og vöruþróun (e. Product development). LÍN er með ákveðið lánshámark til námsmanna í Bandaríkjunum, 44 þúsund Bandaríkjadali. Það er um það bil helmingurinn af því sem námið mitt kostar. Ég hef líka tekið lán hjá Framtíðinni lánasjóði og reyni að safna styrkjum fyrir síðustu önninni,“ segir Guðrún Svava og tekur sem dæmi GoFoundMe-síðuna þar sem fjölskylda og velunnarar hafa lagt henni lið og er hún afar þakklát.

Hver er þín skoðun á íslenska námslánakerfinu?

„Það er margt gott við LÍN en annað mætti laga. Skólagjaldalán duga kannski fyrir helmingi skólagjalda við bestu og jafnframt dýrustu háskólana. Ég þekki nokkra sem hafa fengið aðstoð foreldra við að borga mismuninn eða gera eins og ég, taka mjög óhagstæð lán á háum vöxtum eins og hjá einkareknum lánasjóðum eða bönkum. Það þarf því að hækka lánin sem LÍN veitir svo hægt sé að greiða með þeim skólagjöldin. Það má líka breyta tilhögun lánsáætlana. Til dæmis eru skólagjöldin mín komin í gjalddaga tveim mánuðum áður en LÍN gefur út lánsáætlun þannig að vextir byrja strax að tikka inn á skólagjöldin í ágúst og það þarf að greiða gjöld fyrir að borga ekki á eindaga.“

Hvað gerist ef þú nærð ekki að borga lokaupphæðina?

„Ég ætla mér að útskrifast og þess vegna er ég með söfnun í gangi núna á gofundme.com. Það væri möguleiki fyrir mig að útskrifast ekki og fá 75% skólagjalda endurgreidd frá Cornell og hætta í náminu án gráðu. Ég mun þó borga lokaupphæðina sama hvernig ég fer að, því ég ætla að útskrifast með þær gráður sem ég er búin að vinna að.“

View this post on Instagram

Thank you body ❤️ ⠀⠀⠀⠀⠀⠀⠀⠀ . #yoga #skyline #newyork

A post shared by Svava Kristinsdóttir (@gudrun_svava) on Mar 12, 2019 at 10:47pm PDT

Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér eftir háskólanám?

„Námið hefur veitt mér ótrúlega sýn á allt í senn tölvutækni, verkfræði og mannlegt eðli. Ég hef verið að skoða nokkur tæknifyrirtæki hér í New York og í San Francisco og möguleikarnir eru margir. Mér finnst mikilvægt að vinna að málefnum sem skipta máli fyrir samfélagið, umhverfið og mannkynið yfir höfuð því að tölvutæknin getur skipt sköpum.

Ég hef áhuga á að kenna og fræða um allt sem ég er búin að læra. Mig langar að bjóða upp á stjórnendaþjálfun í tengslum við nýjustu tækniþróun og hvert hún stefnir.  Til dæmis um möguleika í tengslum við blandaðan veruleika (e. mixed reality), blockchain og gervigreind. Enn fremur við ráðgjöf um þau verðmæti sem liggja í gögnum sem fyrirtæki, ríki og sveitarfélög eiga en eru ekki að nýta.

Tæknin er svo ótrúleg í dag og það hefur átt sér stað svo mikil framþróun í gagnavísindum og margar leiðir fyrir fyrirtæki að spara, straumlínulaga og veita betri þjónustu bara með því að beisla mátt fyrirliggjandi gagna með réttum aðferðum. Eitt besta tækifærið sé ég í úrbótum á heilbrigðiskerfinu. Ísland býr svo vel að vera með góða gagnabanka, við erum líka svo fá að það er auðvelt að smíða kerfi og innleiða fyrir stjórnendur sem og lækna o.fl. heilbrigðisstéttir að vinna betur til hagsbóta fyrir sjúklingana.

Bara það að gefa læknum færi á að nýta gögn um „svipaða“ sjúklinga og meðferðarúrræði sem reyndust best út frá sögulegum gögnum og veita læknum og hjúkrunarfræðingum tölfræðileg gögn um lyfjagjöf og útkomur svipaðra sjúklinga með þessum hætti er gríðarlega verðmætt. Einnig fyrir stjórnendur að spá betur fyrir um starfsmannamál og skipulag og rekstur yfir höfuð,“ segir Guðrún Svava ákveðin í að útskrifast með gráðurnar sínar í vor og spennt fyrir möguleikunum sem ný tækni býður til að bæta samfélagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál