Hver eru hagstæðustu húsnæðislánin?

Kristján Arnarsson.
Kristján Arnarsson.

Á að velja óverðtryggt eða verðtryggt? Er lægra veðhlutfall að skila sér í hagstæðari kjörum? Íbúðalánasjóður mun halda fræðslufundi um flókinn heim fasteignalána. 

„Flestir hafa einhverja hugmynd um hvernig fasteignalán virka, en marga skorti nákvæmari þekkingu á þeim lánamöguleikum sem standa til boða og þurfa fræðslu til að geta tekið upplýsta ákvörðun um sín lánamál,“ segir Kristján Arnarsson.

Kristján er sérfræðingur á húsnæðissviði Íbúðalánasjóðs en stofnunin mun efna til fræðslufunda á komandi vikum og mánuðum þar sem farið verður á skýran og skiljanlegan hátt yfir helstu hugtök fasteignalána. Fyrsti fundurinn verður haldinn í húsakynnum Íbúðalánasjóðs í Borgartúni 21, næstkomandi miðvikudag kl. 17.00 og í framhaldinu er stefnt að því að halda fleiri fundi bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni. „Jafnframt höldum við fundi í samvinnu við Rauða krossinn í Reykjavík þar sem fræðslan fer fram á pólsku, farsí og fleiri tungumálum, og gestir fræddir bæði um húsnæðislán en einnig um leigumarkaðinn og þá styrki sem eru í boði,“ útskýrir Kristján.

Fræðslufundirnir eru öllum opnir og ókeypis en skrá þarf þátttöku í gegnum heimasíðu Íbúðalánasjóðis, www.ils.is.

Greiðslubyrði og kostnaður

Kristján segir fundina endurspegla breytt hlutverk stofnunarinnar en Íbúðalánasjóður er að breytast úr því að vera fyrst og fremst lánasjóður yfir í að vera stofnun sem vinnur að því að tryggja að allir hafi aðgengi að húsnæði við sitt hæfi. Hann segir fasteignakaup og lántöku geta verið flókin við að eiga og kemur það sér vel fyrir þá sem eru í kauphugleiðingum að hafa betri skilning t.d. á muninum á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum og hvaða áhrif atriði eins og verðbólga og lánstími geta haft á greiðslubyrði og heildarkostnað lántakandans. „Annars getur það komið fólki mjög óþægilega á óvart ef t.d. verðbólguskot hefur þau áhrif að mánaðarlegar afborganir af verðtryggðu láni hækka allverulega. Lánin sem eru hagstæðust í byrjun eru ekki endilega hentugasti kosturinn þegar fram í sækir, á meðan lán með tiltölulega þunga greiðslubyrði fyrstu misserin og árin geta þýtt að afborganir verða mun viðráðanlegri seinna meir.“

Að sögn Kristjáns ættu fræðslufundirnir ekki aðeins að gagnast þeim sem hyggjast kaupa sína fyrstu fasteign, heldur líka þeim sem eru nú þegar með húsnæðislán. Með því að skilja lánamöguleikana betur má nefnilega stundum finna leiðir til að fá hagstæðari kjör. „Búið er að lækka stimpilgjöld og lántökugjöld, hægt að flytja lán á milli eigna og í sumum tilvikum má gera upp gömul lán án uppgreiðslugjalds. Hafi fólk tekið tiltölulega óhagstætt lán, en á rétt á þægilegri afborgunum eða lægri vöxtum annars staðar, getur endurfjármögnun gamla lánsins sparað háar fjárhæðir – en það verður samt að skoða mjög vandlega hvert tilvik fyrir sig.“

Þá er mikilvægt að hafa hugfast að stundum getur verið skynsamlegra að leigja en að kaupa. „Það hefur þótt einn helsti ókostur leigumarkaðarins að leigjendur búa við takmarkað húsnæðisöryggi, en vonir standa til að bæta úr því, s.s. með auknum umsvifum óhagnaðardrifinna leigufélaga. Á móti kemur að mun minni kostnaður fylgir því að skipta um leiguhúsnæði en að kaupa og selja fasteign, og leigjandinn þarf ekki að hafa áhyggjur af óvæntum kostnaði, s.s. vegna viðgerða og viðhalds.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál