Orðsporið það eina sem þú tekur með þér

Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff.
Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff.

Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff, sem fagnaði 90 ára afmæli á dögunum, hefur verið áberandi í FKA síðan félagið var stofnað fyrir 20 árum. Margrét er FKA-viður­kenn­ing­ar­hafi 2019 og segir hún að félagið hafi breytt mjög miklu í íslensku samfélagi og það sé dýrmætt fyrir konur að hafa gott tengslanet. Það þýði ekkert að vera á tossabekk þegar kemur að jafnréttismálum.

„Þegar ég gekk í FKA fyrir tæpum 20 árum þá rúmlega 35 ára snerist lífið aðallega um vinnuna og að sinna fjölskyldunni - þátttaka mín í íslensku viðskiptalífi var í raun bundin við rekstur Pfaff. FKA gjörbreytti þessu því fljótlega eftir að ég gekk í félagið settist ég í stjórn og varð seinna formaður. Þannig fór ég að hafa afskipti af og vilja breyta því umhverfi sem við vorum í og með hverju árinu stækkaði tengslanetið. FKA hefur því gert mjög mikið fyrir mig persónulega - þar hef ég eignast góðar vinkonur og gríðarlega gott tengslanet. FKA sýndi mér einnig að það var hægt að breyta hlutunum og var í raun ákveðinn stökkpallur inn í önnur störf í hagsmunagæslu fyrir atvinnulífið sem ég seinna tók að mér fyrir FÍS, Samtök verslunar og þjónustu og Samtök atvinnulífsins,“ segir Margrét.

-Hvers vegna skiptir FKA máli?

„Þó að okkur finnist hlutirnir ganga hægt þá er engu að síður mikill munur á þeirri stöðu sem blasir við okkur í dag og þegar FKA var stofnað fyrir 20 árum. Nægir að horfa til þeirra verkefna sem FKA hefur haft frumkvæði að til að sjá hverju félagið hefur áorkað og að mínu áliti vegur þar einna þyngst barátta félagsins að auka hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja. Þá baráttu leiddi FKA en fékk seinna öfluga bandamenn með sér í lið og skipti miklu að fá Viðskiptaráð og SA með í baráttuna enda varð fjölgun kvenna í stjórnum fyrirtækja fyrir vikið ekki sérstakt baráttumál kvenna heldur varð að baráttumáli alls viðskiptalífsins. En síðan má ekki gleyma að FKA er mjög góður vettvangur til að kynnast konum - en einnig körlum í atvinnulífinu - en gott tengslanet getur verið gulls ígildi,“ segir hún.

-Hvernig finnst þér kvennabaráttan hafa þróast á þessum 20 árum sem FKA hefur verið starfandi?

„Ég sagði það í þakkaræðu minni á FKA-hátíðinni að kannski hafi mín kynslóð orðið værukær með aldrinum enda margir sigrar í höfn - og ítrekað er Íslandi hampað fyrir að vera fremst í heimi þegar kemur að jafnréttismálum - efst á flestum listum þegar jafnrétti er vegið og mælt.  En ég sagði einnig að við værum ekki best - við værum einfaldlega skást og það er himinn og haf á milli þess að vera best og vera skást. Við erum því að skilja ungu kynslóðina eftir með risaverkefni því að mínu viti getur og á Ísland að taka afgerandi forystu í jafnréttismálum á alheimsvísu. Við eigum ekki að sætta okkur við að vera efst í tossabekk - heldur eigum við að gera þetta af alvöru því með samhentu átaki getum við svo sannarlega orðið dúxinn í jafnréttismálum,“ segir Margrét.

Margrét var heiðruð sérstaklega á FKA-hátíðinni sem haldin var á dögunum. Aðspurð hvernig henni varð við þegar hún fékk verðlaunin segir hún að henni hafi hlýnað mikið um hjartaræturnar við þetta.

„Ég get alveg viðurkennt að mér þykir sérstaklega vænt um þessa viðurkenningu enda alltaf litið á FKA sem „mitt“ félag og það er alltaf notalegt að fá klapp á bakið frá sínum félögum. En mér þótti sérstaklega vænt um tímasetninguna því FKA er 20 ára í ár og fjölskyldufyrirtækið okkar Pfaff fagnar 90 ára afmæli á sama tíma þ.a. mér þótti óneitanlega gaman að þetta skyldi lenda á þessum tímamótum. Svona viðurkenningar breyta kannski ekki miklu í hinu daglega lífi en beina þó í stutta stund athygli að þeim verkum sem þú hefur unnið að og þeim árangri sem náðst hefur. En ekki síst gaf viðurkenningin mér gott tækifæri til að brýna ungar konur í þeim verkefnum sem fram undan eru - því þó að mín kynslóð hafi náð að setja nokkrar sprungur í glerþakið verða þær að vera kynslóðin sem mölvar bévítans glerþakið,“ segir hún.

-Hvað er besta ráðið sem þú hefur fengið varðandi vinnuna? „Vertu heilt yfir almennileg manneskja - komdu fram við fólk eins og þú vilt að það komi fram við þig og mundu að orðsporið verður það eina sem þú tekur með þér í gröfina. Það verða allir að græða í fyrirtækjarekstri en það er mikill munur á gróða og græðgi,“ segir hún.

mbl.is