Greiðslumatið klárt á nokkrum mínútum

Með greiðslumat í höndunum veit fólk betur hvar það stendur í leitinni að réttu fasteigninni. Stefán Karl Sævarsson og Jarþrúður Birgisdóttir hjá Arion banka segja það gott fyrsta skref fyrir fólk í fasteignakaupahugleiðingum að fá rafrænt greiðslumat. Framfarir í fjártækni hafa gert það að verkum að núna tekur aðeins örfáar mínútur að fá greiðslumat en gat tekið marga daga áður:

Jarþrúður Birgisdóttir.
Jarþrúður Birgisdóttir.

„Arion banki hefur boðið upp á rafrænt greiðslumat á netinu frá því í árslok 2016 og tekur um þrjár mínútur að fá niðurstöðu, og síðan hægt að taka lán á fimm mínútum. Áður gat það tekið á bilinu 7-10 daga að gera greiðslumat og sjálft lánsferlið gat tekið heilan mánuð,“ segir Jarþrúður en hún er þjónustustjóri fjármálaráðgjafa hjá bankanum.

Stefán er vörustjóri íbúðalána og segir hann að ekki þurfi lengur að koma með bunka af skjölum í bankann heldur eru allar þær upplýsingar sem notaðar eru við greiðslumatið sóttar sjálfkrafa til Ríkisskattstjóra, Creditinfo, Þjóðskrár og fleiri aðila. „Það eina sem þarf er rafræn skilríki í síma og kostar greiðslumatið 8.800 kr fyrir hjón og sambýlisfólk en 5.500 fyrir einstaklinga,“ útskýrir Stefán en gjaldið stendur undir útlögðum kostnaði bankans við þjónustuna enda þarf að greiða fyrir gögnin sem sótt eru.

Gott að eiga sparnað

Greiðslumatið segir til um hversu hátt lán umsækjandinn gæti fengið, en Jarþrúður segir gagnlegt að fylgja greiðslumatinu eftir með fundi með fjármálaráðgjafa til að fara betur yfir stöðuna og hvaða valmöguleikar gætu hentað best bæði við val á fasteign og fjármögnunarleið.

Stefán Karl Sævarsson.
Stefán Karl Sævarsson.

Stefán minnir á að þegar keypt er eign verði lántakandi að geta reitt fram a.m.k. 20% af upphæð kaupsamningsins en 15% ef um er að ræða fyrstu kaup. Er því góð regla að byrja að spara snemma til að hafa meira fjárhagslegt svigrúm þegar kemur að því að kaupa fasteign. Þá sé mikilvægt að fara vandlega yfir þá lánamöguleika sem standa til boða enda getur heildarlántökukostnaður og greiðslubyrði verið mjög breytileg eftir því hvort tekið er verðtryggt lán eða óverðtryggt, langt lán eða stutt. „Ef t.d. tekið er verðtryggt jafngreiðslulán með 3,65% föstum vöxtum, og miðað við 4% verðbólgu, þá byrjar höfuðstóll 40 ára láns ekki að lækka fyrr en eftir 22 ár, en það byrjar að saxast á höfuðstólinn eftir rösklega 7 ár ef tekið er lán með 25 ára endurgreiðslutíma,“ segir Jarþrúður. „Mánaðarlegar afborganir af 20 milljóna króna láni til 40 ára eru 80 þúsund í samanburði við 102 þúsund fyrir 25 ára lán, hins vegar eru heildargreiðslur fyrir 40 ára lán 92 milljónir en 52 milljónir fyrir 25 ára lán.“

Með séreignarsparnað uppi í erminni

Stefán bendir á að ungt fólk geti líka brúað bilið við kaup á fyrstu eign með því að taka út séreignarsparnað . „Séreignarsparnaður er því sniðug leið fyrir marga til að spara fyrir fasteignakaupum enda greiðir vinnuveitandi framlag á móti því sem lagt er fyrir í mánuði hverjum. Verður þó að muna að séreignarsparnaðinn er ekki hægt að taka út fyrr nema með því að framvísa þinglýstum kaupsamningi og því hentugt að nota þennan sparnað upp í afsalsgreiðsluna.“

Bætir Jarþrúður því við að ef til stendur að kaupa fasteign verði að muna að taka með í reikninginn viðhaldskostnað og ýmsa skatta sem þarf að greiða. „Það kemur fólki oft í opna skjöldu ef það t.d. greiðir nú þegar 200.000 kr. á mánuði í leigu að það fær ekki greiðslumat fyrir láni sem hefði jafnháa greiðslubyrði á mánuði. Kemur það einmitt til af því að alls kyns viðbótarkostnaður fylgir því að eiga fasteign, s.s. fasteignagjöld, greiðslur í hússjóð, viðhald og viðgerðir.“

Skiptir líka miklu, að mati Stefáns, að lántakendur gæti þess að spenna bogann ekki of hátt. „Frekar en að hafa það sem útgangspunt hvaða upphæð væri að hámarki hægt að taka að láni ætti fólk að vega vandlega og meta hvers konar eign það þarf og sníða sér stakk eftir vexti. Það koma nefnilega alltaf upp einhverjir óvæntir hlutir í lífinu og þá er vissara að hafa nægilegt fjárhagslegt svigrúm.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »