Athyglisstjórnun, ekki tímastjórnun

Maður er fljótari að vinna verkefni sem maður hefur gaman ...
Maður er fljótari að vinna verkefni sem maður hefur gaman af að vinna. Pexels

Við sem samfélag erum með það á heilanum að við þurfum að vera upptekin og afkasta miklu. Tímastjórnun og skipulagning eru þar vinsæl tól til að ná að afkasta sem mestu á sem skemstum tíma.

Adam Grant, pistlahöfundur á New York Times, segir það vera algengan misskilning að fólk þurfi að skipuleggja tíma sinn betur. Grant er sjálfur með doktorsgráðu í skipulagssálfræði og hefur rannsakað afköst, vinnutíma og athygli í yfir 20 ár.

Samkvæmt honum skiptir máli hversu mikinn áhuga við höfum á tilteknum verkefnum. Til þess að vinna verkefni og klára það þurfum við að hafa í það minnsta smá athygli á því. Eftir því sem áhuginn eykst er líklegra að við höfum óskerta athygli við það. Þar af leiðandi klárum við verkefnið fyrr en ella.

Þá skiptir einnig máli hvaða tíma dags við ákveðum að vinna ákveðin verkefni. Það getur verið persónubundið hvaða tími dags hentar best til að einbeita sér. Með aukinni einbeitingu erum við fljótari að vinna verkefni og þannig getum við stytt vinnuvikuna eða verið skilvirkari. Þetta snýst ekki um hversu langan tíma, heldur hvenær.

Ef þú ert morgunmanneskja, reyndu að vinna öll leiðinlegu verkefnin snemma dags þegar þú ert með mikla athygli og skemmtilegu verkefnin seinna. Ef þú ert alls ekki morgunmanneskja, byrjaðu morguninn á skemmtilegu verkefnunum til að vekja þig og kláraðu leiðinlegu verkefnin seinna um daginn. Þetta snýst þó allt um að þú finnir hvað virkar best fyrir þig og hvenær þú er með mesta athygli.

Afköst snúast um að skipuleggja hvenær þú hefur sem mesta ...
Afköst snúast um að skipuleggja hvenær þú hefur sem mesta athygli. Pexels
mbl.is