Fóru í fimm trúlofunarmyndatökur

Alina og Þorvarður eru búin að vera saman í sjö ...
Alina og Þorvarður eru búin að vera saman í sjö ár. alinaogthorvardur.com

Alina Vilhjálmsdóttir og Þorvarður Bergmann Kjartansson ganga í það heilaga 27. júlí. Þau hafa verið saman í um sjö ár og trúlofuð í tvö ár. Þau hafa útbúið einstaklega flotta vefsíðu tileinkaða brúðkaupinu þar sem finna má myndir úr myndatökum sem þau hafa farið í, allar helstu upplýsingar um brúðkaupið og upplýsingar um brúðkaupsferðina þeirra.

Alina segist vera mjög hrifin af bandarískum hefðum og því er allt í kringum brúðkaupið eins og í bandarískri bíómynd. Þaðan fengu þau einmitt hugmyndina að fara í trúlofunarmyndatöku, en þau hafa farið í fimm myndatökur . Þau bókuðu reyndar bara tíma í eina myndatöku, en voru beðin um að vera fyrirsætur í hinum tökunum. Myndirnar nýttust hins vegar mjög vel á brúðkaupsvefnum þeirra.

Alina og Þorvarður kynntust í menntaskóla, en Þorvarður féll í íslensku í skólanum sem hann var í og þurfti því að flytja sig yfir í annan menntaskóla. Þar kynntist hann Alinu og þau hafa verið saman síðan þá. Þau trúlofuðu sig fyrir tveimur árum en voru ekki að drífa sig að skipuleggja brúðkaupið. Þegar Alina fann fyrir tilviljun hinn fullkomna brúðarkjól fór hins vegar boltinn að rúlla og þau ákváðu að gifta sig ári síðar.

Alina fæddist í Lettlandi en flutti hingað til lands þegar hún var 5 ára gömul. Það var skemmtileg tilviljun en hún fann einmitt brúðarkjólinn í Lettlandi. „Mér fannst bara stíllinn sem ég sá þar eiga meira við mig heldur en það sem ég hafði séð hér á Íslandi,“ sagði Alina í viðtali við Smartland.

Hún segir þemað vera blanda af vintage, boheimian og rómantískum stíl. Brúðarkjóllinn er í rómantískum stíl og svo verður veislan haldin í Iðnó.

Á brúðkaupsdaginn mun par frá Texas í Bandaríkjunum taka ljósmyndir og myndbönd af þeim og skrásetja stóra daginn fyrir þau. „Ég fann þau fyrir tilviljun. Aftur þá var ég ekki nógu hrifin af þeim sem ég var búin að finna hér á Íslandi, þannig að ég leitaði bara út um allan heim í gegnum Instagram,“ segir Alina. Þeim finnst ljósmyndirnar úr brúðkaupinu skipta miklu máli og vildu því vanda valið vel.

Þau hófu að skipuleggja brúðkaupið þegar Alina fann brúðarkjólinn. alinaogthorvardur.com

Að bandarískum sið er Alina með fjórar brúðarmeyjar og Þorvarður fjóra brúðgumasveina. Þorvarður og brúðgumasveinarnir fóru allir saman í helgarferð til Lettlands í steggja-ferð. Alina og brúðarmeyjarnar ákváðu að vera hér og fóru í spa og út á lífið.

Eftir brúðkaupið stefna þau á tveggja vikna ferð um Evrópu. Þau byrja ferðina á að fljúga með Saga class til Parísar í Frakklandi. Þaðan ætla þau að fara með lest eða á bílaleigubíl til Lyon og Nice og þaðan ætla þau að keyra yfir til Ítalíu og eyða restinni af ferðinni í að ferðast um suðurströnd Ítalíu.

mbl.is