Ást kvenna til karla spilar stórt hlutverk

Ólöf Júlíusdóttir velti fyrir sér stöðu kvenna á vinnumarkaði í …
Ólöf Júlíusdóttir velti fyrir sér stöðu kvenna á vinnumarkaði í doktorsritgerð sinni í félagsfræði við Háskóla Íslands. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Ólöf Júlíusdóttir varði doktorsritgerð sína í félagsfræði á föstudaginn. Ritgerðin ber heitið Tíminn, ástin og fyrirtækjamenning: Valdaójafnvægi kvenna og karla í stjórnendastöðum í íslensku efnahagslífi. Ólöf hefur alltaf haft áhuga á hvers kyns mismunun og þegar henni bauðst tækifæri á að skoða valdaójafnvægi í íslensku viðskiptalífi lét hún slag standa. 

Tíminn, ástin og fyrirtækjamenning, hvernig tengjast þessi þrjú hugtök og hvers vegna urðu þau fyrir valinu?

„Þegar leitað var eftir skýringum á lágu hlutfalli kvenna eða að sama skapi á háu hlutfalli karla í æðstu stjórnendastöðum í íslensku viðskiptalífi voru þessi þemu; tíminn, ástin og fyrirtækjamenning áberandi þegar ég vann upp úr viðtölunum og könnuninni sem rannsóknin byggist á. Einnig byggist greiningin á þessum kenningarlegu nálgunum um tímann, ástina og fyrirtækjamenningu en Anna G. Jónasóttir, prófessor emeritus við háskólann í Örebro, kom fram með kenninguna um valdatengsl ástarinnar (e. Love power) sem eina af skýringum á undirskipun kvenna í nútíma samfélagi.

Þemun þrjú eiga það sameiginlegt að varpa ljósi á hvers vegna karlar (í gagnkynhneigðum samböndum) viðhalda völdum sínum í ábyrgðarfullum stöðum. Karlar hafa tímann meira á valdi sínu, þ.e.a.s. þeir hafa frekari tækifæri en konur til að firra sig fjölskylduábyrgð og geta þar af leiðandi veitt launaðri vinnu meiri tíma. Hvernig ástin er skipulögð og hugsuð í vestrænum samfélögum á einnig þátt í því að viðhalda kynjakerfinu þar sem karlar „græða“ meira á ást kvenna en öfugt. Karlar í æðstu stjórnendastöðum í viðskiptalífinu eiga frekar maka sem taka á sig fjölskyldu og heimilisábyrgð sem er hluti af ást kvenna til karla og þeir nýta sér það. Ástin gefur þeim þannig frelsi og tíma til að koma sér áfram á kostnað maka sinna. Fyrirtækjamenning er síðan önnur skýring en hún virðist vera hliðhollari körlum en konum. Til dæmis einkennir það stjórnendastöður að vinnudagurinn sé langur og að fara í veiðiferðir eða í golf þar sem að tengslanetin eru virkjuð. Hugtökin tengjast öll innbyrðis og eiga þátt í að skýra valdaójafnvægi meðal stjórnenda í viðskiptalífinu,“ segir Ólöf.

- Hvers vegna ákvaðstu að skoða valdaójafnvægi kvenna og karla í stjórnendastöðum í íslensku samfélagi?

„Fyrst og síðast hefur hvers konar mismunum sem við mannfólkið búum til heillað mig, þar með talin mismunun sem grundvallast af líffræðilegu/félagslegu kyni. Ég var því svo lánssöm að fá tækifæri á að taka þátt í rannsóknarverkefni sem Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor í félagsfræði og Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði voru að fara af stað með haustið 2014. Verkefnið ber heitið „Kynjakvótar og einsleitni við æðstu stjórnun fyrirtækja.“ Ég hafði frelsi til að beina rannsókninni í þann farveg sem mér fannst áhugaverðastur og úr varð að ég skoðaði valdaójafnvægi kvenna og karla í stjórnendastöðum með því að beina sjónum sérstaklega að samspili fjölskyldu og launaðri vinnu,“ segir hún.

- Hvað var það í niðurstöðunum sem kom þér á óvart?

„Ætli það hafi ekki komið mér mest á óvart að þrátt fyrir að Ísland hafi tekið mörg mikilvæg skref í að auka jafnrétti kynjanna þá eigum við enn langt í land þegar kemur að jafnrétti inni á heimilinu og í nánum samböndum. Það hefur síðan í för með sér að konur og karlar hafa ekki sömu tækifæri á vinnumarkaði og sérstaklega þegar kemur að valdamiklum stöðum eins og stjórnendastöðum í viðskiptalífinu. Það kom mér líka svolítið á óvart hversu algengt það var að þátttakendurnir í rannsókninni, konur og karlar, töluðu um val.

Til að mynda að það væri val hvers og eins að eiga börn og ef konur „velja“ að eignast börn þá fá þær líka að gjalda fyrir það líkt og konur í stjórnendastöðum hafa þurft að gera. enda kom það fram í viðtölunum að konur á barnseignaraldri væru síður álitnir kandídatar í ábyrgðarstöður á meðan það virtist ekki vera vandamál að ráða karla sem ættu von á barni. Það var algengara að þær þyrftu að sinna þessu tvennu jöfnum höndum fljótlega eftir barnsburð, foreldrahlutverkinu og stjórnendastarfinu, þrátt fyrir að eiga lagalegan rétt á 3-6 mánaða mæðraorlofi. Konurnar tóku því oft stutt fæðingarorlof eða tóku börnin með sér í vinnuna.

Að sama skapi getur maður í stjórnendastarfi valið að eiga barn og ákveðið að taka ekki þátt í að sinna því fyrstu mánuðina, hann getur því „valið“ að sinna að mestu launaðri vinnu þrátt fyrir að eiga rétt á 3 – 6 mánaða feðraorlofi. Það virðist nefnilega ekki fara vel saman að eiga börn og vera stjórnandi í viðskiptalífinu nema að hafa einhvern til að sinna fjölskylduábyrgðinni. Þrátt fyrir að hægt sé að kaupa sér þrif og pössun þá er ekki hægt að kaupa sig frá allri ábyrgð.

En við lifum á tímum frjálshyggjunnar þar sem tími er mældur í peningum og tíminn sem fer í að sinna fjölskyldunni nýtur síður virðingar í okkar samfélagi,“ segir hún.

Karlar þurfa að taka sig á

- Hvað er hægt að gera til að breyta ástandinu?

„Ég held að við þurfum að fara að hugsa meira heildrænt, þá hvernig fjölskylduábyrgð og launuð vinna fara saman. Til dæmis gætu stjórnvöld tekið meira tillit til þess við stefnumótunargerð að konur og karlar búa ekki við sömu tækifæri og að veruleiki þeirra er ekki eins. En einnig geta stjórnendur fyrirtækja sett sér stefnu um að breyta vinnumenningunni og sett sér markmið um að fjölga konum í stjórnendastöðum.

Þannig að ef konur eiga að hafa sömu tækifæri og karlar þá þurfa þeir að taka á sig meiri fjölskylduábyrgð. Eitt af því sem stjórnendur geta gert er að breyta fyrirtækjamenningunni, stytta vinnudagana, settt skilyrði um að tölvupóstar verði ekki sendir eftir einhvern ákveðinn tíma, veita möguleika á því að tengslanetin verði efld á vinnutíma og ekki síst að gera starfsfólki sínu ljóst, sérstaklega því sem klífur metorðastigann, að það eigi að taka það fæðingarorlof sem það hefur lagalegan rétt til. Enda er eitt markmiðum fæðingarorlofslöggafarinnar að börn eiga rétt á að vera sinnt af báðum foreldrum. Það væri líka til bóta ef fleiri ráðningar færu meira fram á faglegum forsendum heldur en að frændhygli réði ríkjum.“

- Gætu konur gert eitthvað öðruvísi til þess að ná meiri völdum?

„Ég myndi til að mynda vilja snúa þessari spurningu við og spyrja frekar hvað geta karlar gert til að hleypa konum að? Hvers vegna sitja þeir svona á þessum stöðum? Við eigum síður að veita því athygli hvað það sé sem konur geta gert heldur varpa ábyrgðinni yfir á karla. Rannsóknin mín bendir einmitt á það að karlar hafa mun meira vald yfir tímanum og þeir græða á ást maka sinna, eins og ég hef nefnt og það er til að mynda hluti af skýringunum hvers vegna þeir séu svona margir í valdastöðum. Við þurfum að hætta að vilja breyta konum heldur viðurkenna að þær eru nógu góðar eins og þær eru heldur séu það aðrir samverkandi þættir sem hafa áhrif á valdaleysi kvenna í stjórnendastöðum.“

- Hverju vildir þú ná fram með ritgerðinni?

„Ég vildi ná að sýna fram á að karlar geta gert mun meira til að jafna hlutfall kynjanna í stjórnendastöðum í viðskiptalífinu. Það má velta fyrir sér hvort að karlar séu hræddir um að missa þau völd sem þeir hafa yfir ástinni heimavið ef þeir veita konum meiri völd í stjórnendastöðum.

Karlar í stjórnendastöðum eru mun líklegri til að ráða karla. Möguleg ástæða getur verið sú að samband karla við aðra karla er ekki gegnsýrt af valdatengslum ástarinnar líkt og þeir hafa við konur og því engin hætta á að þeir missi þau völd sem ástin færir þeim.“

- Hvað tekur við núna eftir doktorsvörn?

„Nú tekur við kennsla við Háskóla Íslands enda margir áhugasamir nemendur að leggja leið sína þangað núna í haust. Að auki mun ég halda áfram að sinna rannsóknum og er svo heppin að fá að taka þátt í nýju rannsóknarverkefni sem ég hlakka til að fást við.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »