Þetta skiptir mestu máli í brúðkaupum

Ekki eru það skreytingarnar á borðunum sem skipta mestu máli.
Ekki eru það skreytingarnar á borðunum sem skipta mestu máli. Pexels

Nú stendur yfir stærsta brúðkaupsvertíðin og því eflaust mörg pör sem eru að velta fyrir sér hvað sé mikilvægast að hugsa fyrir stóra daginn. Það eru auðvitað óteljandi verk sem þarf að vinna og hjá sumum er margra mánaða skipulagstími. 

American Express skoðaði í könnun hvað í brúðkaupsveislum skipti gestina mestu máli. Það voru ekki blómvendir, skreytingar eða tónlistin, heldur hlutir sem kosta alls ekki mikið, jafnvel ekki neitt. 

Um 44 prósent aðspurðra sögðu að það skipti langmestu máli að þekkja aðra gesti sem eru í brúðkaupinu. Því miður fyrir okkur Íslendinga sögðu 42 prósent að veðrið skipti miklu máli. Það er því lítið hægt að gera í því nema vona það besta. 

Um 41 prósent sögðu að það skipti miklu máli hversu mikið það þekkti brúðhjónin. 38 prósent sögðu að salurinn eða staðurinn þar sem brúðkaupið færi fram skipti miklu máli. Um 37 prósent sögðu svo að veitingarnar skiptu miklu máli. 

Það sem skipti brúðkaupsgesti svo minnstu máli voru gjafapokar, ræður, að kynnast nýju fólki, möguleikinn á að fá að koma með börn og möguleikinn á að koma með maka/vin.

Þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta um að hanna atburðarás og gera daginn þannig að ekki bara brúðhjónin njóti sín heldur gestirnir líka. Sætaskipan skiptir líka máli og er eitthvað sem brúðhjónin ættu að leggja metnað í ef það á að vera gaman í veislunni. 

Það eru heldur ekki ræðurnar sem skipta mestu máli.
Það eru heldur ekki ræðurnar sem skipta mestu máli. Pexels
mbl.is