Þóreyju flökurt síðustu mínúturnar í sjónum

Þórey Vilhjálmsdóttir sem nú tekur þátt í boðsundi Marglytta yfir Ermasundið segir að seinni 30 mínúturnar í sjónum hafi liðið eins og þrír tímar. Hún átti erfitt með að ná takti fyrst en síðan náði hún að fljóta með sjónum. Hún upplifði flökurleika í lokin en hefur náð sér eftir það. 

„Þetta var æðislegt, en það var erfitt að ná takti fyrst í sjónum. Öndunin var erfið fyrstu fimm mínúturnar. Síðan náði ég að fljóta með sjónum. Ég held ég hafi gert mitt besta og það var það sem ég ætlaði að gera. Annars leið mér bara vel í sjónum,“ segir Þórey í viðtali sem tekið var við hana eftir að hafa synt sína fyrstu klukkustund í sjónum. 

Veður­skil­yrði fyr­ir Erm­ar­sund hafa verið óvenjuslæm í sum­ar og marg­ir sund­menn þurft að bíða lengi og jafn­vel ekki kom­ist af stað. Mar­glytt­urn­ar hafa verið við æf­ing­ar í Do­ver síðan 2. sept­em­ber og eru með sundrétt frá 3. til 10. sept­em­ber.

Þrátt fyr­ir góð veður­skil­yrði er vega­lengd­in sem synt er oft lengri sök­um strauma, en áætlað er að sundið muni taka Mar­glytt­urn­ar sex um 16-18 tíma. Hver og ein Mar­glytta mun synda tvisvar til þris­var í fyr­ir­fram ákveðinni röð. 

Þórey segir að tíminn ofan í sjónum hafi verið lengi að líða. 

„Tíminn var rosalega lengi að líða. Við fáum alltaf merki frá Grétu, sem er liðsstjórinn okkar. Fyrstu 30 mínúturnar voru frekar lengi að líða en seinni 30 mínúturnar voru meira eins og þrír klukkutímar. Það var frekar erfitt, síðan var mér orðið aðeins flökurt í lokin, en það var bara síðustu mínúturnar. Ég er alveg búin að jafna mig á því. Ég er mjög peppuð og þetta er bara hrikalega gaman.“

Mar­glytt­ur vilja sporna gegn plast­meng­un í hafi og eru að safna áheit­um fyr­ir Bláa her­inn. Mark­miðið með sund­ferðinni er að vekja at­hygli á áhrif­um plast­meng­un­ar á lífríki sjávar og mik­il­vægi þess að vernda auðlind­ir hafs­ins en ástand lífríkis í Erm­ar­sund­inu er mjög slæmt.

Hægt er að heita á Bláa her­inn í gegn­um AUR-appið í síma 788-9966, einnig er hægt að leggja inn fjár­hæð á reikn­ing 0537-14-650972, kt. 250766-5219. Hægt er að fylgj­ast með sundi Mar­glytt­anna á Face­book

mbl.is
Loka