Hugmyndin kviknaði út frá kjaftasögu

Þetta er fyrsta bók Unnar.
Þetta er fyrsta bók Unnar. mbl.is/​Hari

Unnur Lilja Aradóttir gaf nýverið út sína fyrstu bók, Einfaldlega Emma, á dögunum. Hugmyndina að bókinni fékk Unnur þegar samstarfskona hennar á Landspítalanum sagði henni frá kjaftasögu sem hún kom óvart sjálf af stað um sig. Unnur segist hafa verið lengi að melta söguna en hún byrjaði fyrst á bókinni árið 2010. Nú 9 árum síðar er bókin komin út. 

Einfaldlega Emma fjallar um hina 35 ára gömlu Emmu sem verður ástfangin af 19 ára gömlum syni bestu vinkonu sinnar. 

Hvaðan kom hugmyndin að bókinni?

„Ég var að vinna á Landspítalanum þegar hugmyndin að þessari sögu kviknaði fyrst. Samstarfskona mín kom til mín eina vaktina og spurði mig hvort að ég hefði heyrt einhverjar skrítnar sögur um hana. Hún sagði mér þá frá því að tveimur dögum fyrr hefði hún verið á vakt og í einhverjum fíflagangi komið af stað orðrómi um að hún ætti í ástarsambandi við mun yngri mann sem vann með okkur en mamma hans var líka góð vinkona hennar. Það varð nú ekkert meira úr þessari kjaftasögu innan spítalans en hugmyndin var þarna komin í höfuðið á mér.“

Eigið þið Emma eitthvað sameiginlegt?

„Ég held að ég geti sagt að við Emma séum andstæður á flestum sviðum og það er ekki margt sem við eigum sameiginlegt sem persónur. Ég held þó að ég hafi náð nokkuð vel að setja mig í spor hennar þrátt fyrir það hve ólíkar við erum. Mér hefur verið sagt að ef manneskjan vissi ekki betur gæti hún alveg trúað því að þetta væri eitthvað sem ég hefði upplifað sjálf.“

Hvernig ferli var það að skrifa bókina?

„Það var nokkuð langt ferli að skrifa þessa bók. Ég byrjaði fyrst að skrifa söguna 2010 eða 2011. Ég fann það strax að ég væri með hugmynd sem ég yrði að koma frá mér. Ég hafði ekkert verið að skrifa síðan ég var unglingur svo þessi þörf fyrir að skrifa kom sjálfri mér svolítið á óvart. Ég vann í sögunni í nokkra mánuði en af einhverri ástæðu tók ég mér pásu og hætti alveg að hugsa um þetta í nokkur ár. Það var svo í byrjun árs  2017 sem ég las yfir það sem ég hafði skrifað öllum þessum árum áður. Það var ekki aftur snúið og ég byrjaði aftur að skrifa. Ég endurskrifaði þá það sem ég var þegar búin að skrifa og um leið kom til mín endirinn sem alltaf hafði vantað. Þegar ég hafði komið sögunni frá mér fannst mér að ég yrði að gera eitthvað meira með hana en bara geyma hana í tölvunni minni. Ég var búin að eyða svo miklum tíma í þetta verkefni og það tók alveg á að koma sögunni rétt til skila svo ég ákvað að leyfa fjölskyldumeðlim að lesa yfir handritið og í framhaldi af því fékk ég hvatningu til að fara lengra með söguna og gefa hana út.“ 

Hugmyndin kviknaði út frá kjaftasögu.
Hugmyndin kviknaði út frá kjaftasögu. mbl.is/​Hari

Heldurðu að það sé erfitt fyrir nýja höfunda að koma inn á markaðinn hér Íslandi? 

„Það getur eflaust verið erfitt fyrir nýja höfunda að koma inn á markaðinn hérlendis. Fólk er gjarnt á að lesa frekar bækur eftir höfunda sem það þekkir og nýir höfundar fá ekki alltaf tækifæri til að sanna sig. Markaðurinn er ekki stór og það getur verið erfitt að koma sér á framfæri. Ef maður hefur trú á því sem maður er að gera ætti maður þó ekki að gefast upp, það hlýtur að vera hægt að búa sér til pláss séu hæfileikarnir fyrir hendi.“

Af hverju ákvaðstu að skrifa svona bók, en ekki til dæmis glæpasögu sem eru svo vinsælar?

„Ástæðan fyrir því að ég ákvað að skrifa svona ástarsögu/drama frekar en eitthvað sem hefur verið vinsælla síðustu ár eins og tildæmis glæpasögur er einföld; þessi saga kom svona til mín og ég fékk engu um það ráðið. Það er svolítið erfitt að útskýra það en ég settist ekki niður einn daginn og ákvað að skrifa sögu. Sagan kom í höfuðið á mér nánast fullmótuð og bað um að láta skrifa sig.“

Hyggst þú skrifa fleiri bækur?

„Mér þykir mjög gaman að skrifa og búa til sögur og ég hef lært mikið af því ferli sem það hefur verið að skrifa og koma þessari fyrstu bók minni út. Þegar ég hafði lokið við að skrifa söguna um Emmu fann ég fljótt fyrir þörf til að halda áfram að skrifa og byrjaði á nýju verkefni sem nú er í vinnslu. Ég er spennt að sjá hvernig það þróast en það er alveg á hreinu að ég hef alls ekki lokið mér af, þetta er bara byrjunin.“

Fá lesendur kannski að fylgja eftir ævintýrum Emmu?

„Þó að mér þyki orðið mjög vænt um Emmu og hafi fundið fyrir vissum söknuði eftir að ég skilaði af mér handritinu efast ég stórlega um að ég skrifi fleiri bækur um hana. Einfaldlega Emma er hennar saga og eins og er finnst mér engu við söguna að bæta. Maður á þó aldrei að segja aldrei, hver veit nema ég vakni einn daginn með frábæra hugmynd að framhaldi. Ég er þessa stundina á kafi í að skrifa sögu annarrar konu sem er alveg ótengd Emmu og allt annar karakter svo ef fólk vill meira verður það bara að kynnast nýjum persónum í nýrri sögu.“

Einfaldlega Emma.
Einfaldlega Emma. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál