Neyslulán komin í vanskil - hvað er til ráða?

Sævar Þór Jónsson lögmaður.
Sævar Þór Jónsson lögmaður.

Sævar Þór Jónsson lögmaður á Lögmannsstofu Sævars Þórs & Partners svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem er í vandræðum því hann á tvær íbúðir. 

Sæll. 

Ég bjó erlendis yfir 7 ára tímabil og var kominn með einhverjar skuldir þar, sem ég ætlað að greiða upp með sölu á húsnæði sem ég átti þar. Sökum galla á húsnæðinu fékkst ekkert út úr þeirri sölu og skuldir í formi neyslulána og kreditkorta fóru í vanskil. Í millitíðinni skiptum við um húsnæði á Íslandi, en ekki fór betur en svo að við náðum ekki að selja íbúðina og erum því með 2 eignir, aðra í útleigu. Ég og konan erum ekki skráð í sambúð og erum skráð 50/50 eigendur á báðum eignum. Fjárhagsramminn er það þröngur eins og stendur að ég hef ekki nokkur tök á að borga þessar skuldir upp úti. Geta erlendir kröfuhafar gert kröfu í húsnæðin okkar til fullnustu þessara krafna?

Kveðja, J

Sæll J. 

Í stuttu máli er svarið já. Motus er t.d. samstarfsaðili Intrum sem rekur skrifstofur í 23 löndum í Evrópu og er leiðandi í svokallaðri millilandainnheimtu. Þeir sem notfæra sér millilandainnheimtu geta unnið markvisst að innheimtu víðs vegar í heiminum með því einu að vera í sambandi við fulltrúa sinn hjá Motus.

Fulltrúar í millilandainnheimtu Motus annast öll samskipti við erlenda aðila og upplýsa erlenda kröfuhafa um framgang máls hverju sinni. Jafnframt geta erlendir kröfuhafar leitað til íslenskra lögmanna í því skyni að innheimta kröfur sínar. Í réttarfari okkar Íslendinga eru heldur engin sérstök takmörk á aðildarhæfi erlendra manna eða lögaðila. Þeir þurfa því í raun bara að lúta sömu skilyrðum og innlendir aðilar til að njóta aðildarhæfis að dómsmáli. Hvað varðar fullnustu hér á landi eru erlendir aðilar, sem og íslenskir, að meginstefnu til bundnir af íslenskum lögum. Því er skilyrði að krafan sé aðfararhæf svo hægt sé að gera kröfu í húsnæðið. Þannig að ef viðkomandi kröfuhafi hefur fengið dóm erlendis og/eða höfðar mál hérlendis gæti hann að gengnum dómi fullnustað kröfu sína á þeim grunni. 

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson lögmaður.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is