Með svarta beltið í kynheilbrigði

Sóley Bender.
Sóley Bender. mbl.is/Árni Sæberg

Þeir sem sitja námskeið Sóleyjar Bender þurfa að horfast í augu við sín eigin viðhorf þegar kemur að kynlífi og kynhneigð svo þeir geti hjálpað öðrum án fordóma. Mannskepnan er kynvera frá fæðingu til dauðadags.

Þó að margt hafi breyst til betri vegar, umræðan opnast upp á gátt og aðgengi að upplýsingum aldrei verið betra, þá er það svo að flestum okkar veitir ekki af að öðlast dýpri skilning á kynheilbrigði. Á það alveg sérstaklega við um fagfólk í heilbrigðis- og menntakerfinu, og þá sem sinna umönnunarstörfum, að oft reynir á getuna til að vinna með og hugsa um fólk sem glímir við vanda eða árekstra tengda kynlífi.

Sóley S. Bender, prófessor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og sérfræðingur í kynheilbrigði, kennir á haustmisseri tvö löng námskeið hjá Endurmenntun HÍ þar sem kafað er ofan í þetta forvitnilega viðfangsefni. Námskeiðin eru hluti af námsskrá Háskóla Íslands og er annars vegar um að ræða námskeiðið Kynheilbrigði, sem er ætlað hjúkrunarfræðinemum og m.a. forkrafa fyrir þá sem hyggjast leggja fyrir sig nám í ljósmóðurfræðum. Hins vegar er námskeiðið Kroppurinn, kynlíf og kynheilsa, sem er opið öllum sem lokið hafa grunngráðu frá háskóla innan heilbrigðis-, uppeldis-, hug- og félagsvísinda og hægt að taka sér eða sem hluta af diplómanámi í kynfræði. Fyrrnefnda námskeiðið er sex einingar en það síðarnefnda tíu einingar.

„Áherslurnar eru ólíkar en námskeiðin eiga það þó sameiginlegt að skoða hugmyndafræði kynheilbrigðis, þætti sem hafa áhrif á kynheilbrigði, og kynlífsvandamál, auk þess að efla nemendur í að sinna kynheilbrigðismálum,“ útskýrir Sóley, en námskeiðið fyrir hjúkrunarfræðinema felur m.a. í sér heimsóknir í skóla þar sem nemendurnir fá tækifæri til að æfa sig í að fræða ungt fólk um kynheilbrigðismál og svara spurningum þess.

Efling frekar en hræðsluáróður

Kynheilbrigði er víðfeðmt svið og bendir Sóley á að þekking okkar á kynlífi og kynhegðun fólks aukist í sífellu. Þetta má t.d. sjá á kynfræðslu í skólum, sem áður miðaði einkum að því að innræta ungu fólki að varast kynsjúkdóma og ótímabærar þunganir – vandamálamiðuð fræðsla eins og Sóley kallar það. „Í dag er áherslan aftur á móti að efla einstaklinginn og styrkja svo að fólk viti hvaða rétt það hefur, geti talað saman um kynlíf og notkun getnaðarvarna, hafi sjálfstraustið til að segja nei og tala um það sem því líkar eða mislíkar í kynlífi,“ útskýrir Sóley og bendir á að oft hafi það verið feimni og óframfærni sem hafi verið ástæðan fyrir „slysunum“ hjá unga fólkinu. „Feimnin þýddi t.d. að í stað þess að ræða málin ályktaði pilturinn t.d. sem svo að ef stúlkan segði ekki neitt hlyti hún að vera á pillunni og því væri hægt að sleppa smokkinum.“

Skilningur almennings á kynheilbrigði fer líka batnandi að því leyti að taka í vaxandi mæli tillit til þarfa hópa sem áður voru jaðarsettir í allri umræðu um kynlíf og sambönd. „Aldraðir eru einn af þessum hópum, og fatlaðir líka, en viðhorf og umræða áður fyrr einkenndust af því að varla var litið á aldraða eða fatlaða sem kynverur með allar þær þarfir og langanir sem því fylgja. Þessi þrönga sýn; að það sé bara ungt og ófatlað fólk sem stundi kynlíf, er núna hratt á undanhaldi,“segir Sóley og bætir við að þurfi að taka tillit til kynheilsu fólks allt frá fæðingu til dauðadags. Mannskepnan sé kynvera alla ævi og fari í gegnum ólík þroskaskeið og alls kyns áskoranir sem glíma þurfi við á hverju skeiði.

Hvar liggur þægindaramminn?

Flestum þykir kynlíf forvitnilegt viðfangsefni að fræðast um en Sóley leggur á það áherslu að mikilvægur hluti af námskeiðunum tveimur sé að þátttakendur líti inn á við og reyni að skilja eigin viðhorf til kynlífs, kynhneigðar og kynferðis og takist á við tilfinningar og skoðanir sem gætu valdið þeim óþægindum. Með því fyrsta sem Sóley gerir með nemendum sínum í námskeiðinu Kroppurinn, kynlíf og kynheilsa er að skoða myndbönd af alls kyns kynlífi og ræða hispurslaust ef það sem fyrir augu ber vekur neikvæðar tilfinningar sem flokkast utan þægindarammans. „Ætlunin er ekki að ganga fram af nemendum heldur að greina og jafnvel endurskoða þeirra eigin viðhorf,“ segir Sóley og áréttar að það hafi aldrei gerst að þátttakandi á námskeiðum hennar hafi þurft að yfirgefa kennslustofuna vegna þess sem hann sá. Um sé að ræða nauðsynlegt skref í fræðslunni enda brýnt að hvort heldur sem er læknar, prestar, hjúkrunarfræðingar, kennarar eða félagsráðgjafar geti liðsinnt öllum sem til þeirra leita með vandamál tengd kynheilbrigði, án þess að ráðgjöfin litist af fordómum eða skilningsleysi.

Námið er einkum hugsað til þess að efla fagfólk en Sóley segir það líka gagnast mörgum í einkalífinu að sitja ítarlegt námskeið um kynheilbrigði. „Ég man eftir eldri nemanda sem tók til máls í kennslustund og óskaði þess að hann hefði fræðst fyrr um það sem við vorum að ræða um, og hefði getað nýst nemandanum vel í ástarsamböndum sínum í gegnum tíðina. „Til að geta gefið af okkur er mikilvægt að við tökum til í eigin ranni, séum sátt við okkur sjálf og ræktum heilbrigð sambönd.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »