MBA-gráðan hjálpar fólki að fá launahækkun

Svala Guðmundsdóttir stjórnarformaður MBA-námsins við HÍ.
Svala Guðmundsdóttir stjórnarformaður MBA-námsins við HÍ. mbl.is/Árni Sæberg

Að stunda MBA-nám meðfram vinnu kallar á aga og eljusemi. Svala Guðmundsdóttir hjá HÍ segir nemendurna líka þurfa gott svigrúm, bæði hjá vinnuveitanda og fjölskyldumeðlimum, þau tvö ár sem námið varir. Kannanir hafa sýnt að MBA-gráðan hjálpar fólki að fá bæði stöðu- og launahækkanir. 

Góð aðsókn hefur verið að MBA-námi Háskóla Íslands og samkeppnin eykst sífellt um þau sæti sem í boði eru í náminu. Ríkar kröfur eru gerðar til umsækjenda og ætlast til að þeir búi að a.m.k. nokkurra ára reynslu af stjórnunarstörfum, fyrirtækjarekstri eða frumkvöðlastarfi. „Námið er krefjandi og tímafrekt og allir umsækjendur eru boðaðir í viðtal þar sem þeir þurfa að gera grein fyrir störfum sínum og þeim áskorunum sem þeir hafa staðið frammi fyrir í starfi. Þá hvetjum við einnig alla sem hyggja á MBA-nám til að eiga samtal við fjölskyldu sína um þá röskun sem búast má við að verði á heimilislífinu þessi tvö ár sem námið tekur,“ segir dr. Svala Guðmundsdóttir, stjórnarformaður MBA-námsins við HÍ.

Vinsældir MBA-námsins skýrast m.a. af því að mælingar sýna að fólk geti vænst þess að færast upp á við á vinnumarkaði að námi loknu. „Við gerum kannanir til að greina hverju námið skilar og hafa hátt í 70% þeirra sem hafa útskrifast hjá okkur fengið launahækkun og/eða stöðuhækkun í kjölfarið. Þá segja 95% að þeim þyki námið hafa aukið færni þeirra í starfi.“

Meðalaldur nýnema í MBA-námi HÍ í vetur er 43 ár. Margir þeirra hafa víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og hafa þegar lokið meistaragráðu og jafnvel doktorsgráðu.

Klár í þær áskoranir sem stjórnendur þurfa að glíma við

Komið er víða við í náminu og kafað ofan í alla mikilvægustu þætti stjórnunar, til að mynda hvaða eiginleikum góður leiðtogi þarf að búa yfir til að ná árangri. „Nemendur læra m.a. um sjálfbærni í rekstri, nýsköpun og fjármál auk þess að fá þjálfun í miðlun upplýsinga svo þeir eigi ekki í nokkrum vanda með að koma fram opinberlega. Við leggjum einnig áherslu á að undirbúa nemendur til að takast á við þær áskoranir sem ný tækni, aukin sjálfvirknivæðing og sífelldar breytingar hafa í för með sér,“ útskýrir Svala, en MBA-nám HÍ fer fram í lotum, föstudag og laugardag, tvisvar í mánuði. Nemendur sækja sína vinnu þess á milli en þurfa að semja við vinnuveitandann um að fá að vera fjarverandi þegar sækja þarf námsloturnar og fá þann sveigjanleika sem þeir þarfnast til að sinna lestri kennslubóka og verkefnavinnu.

En væri ekki hægt að öðlast sömu færni með því t.d. að sitja vel valin endurmenntunarnámskeið? „MBA-námið fer mun dýpra ofan í störf stjórnandans, og við útskrift hafa nemendur í höndunum nýja meistaragráðu sem er alþjóðlega viðurkennd og mikils metin í atvinnulífinu,“ svarar Svala.

Sambönd um allt atvinnulífið

Þá öðlast nemendur meira en dýrmæta þekkingu. „Fyrir marga skiptir ekki síður máli hve gott tækifæri MBA-námið er til að stækka og styrkja tengslanetið. Þau tvö ár sem námið tekur starfa nemendur náið saman og mynda öflugt tengslanet sín á milli, en verða um leið hluti af stærra samfélagi útskrifaðra MBA-nema og leiðum við núverandi og fyrrverandi nemendur saman á fjölbreyttum viðburðum.“

Hver háskóli hefur sínar áherslur í MBA-náminu og segir Svala að það fari eftir markmiðum hvers og eins hvaða skóla er best að velja. Hún segir að mörgum þyki það mikill kostur við MBA-námið hjá HÍ að þar fer kennslan að mestu fram á íslensku, en kennt á ensku í námslotunum við Yale og IESE. Þá sé námið sniðið að starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja og stofnana og þeim reglum sem þau búa við. „Ef fólk á þess kost að fara í nám erlendis mæli ég alltaf með því, og er fengur að því fyrir atvinnulífið að íslenskir stjórnendur sæki sér menntun sem víðast. En að stunda námið hér á landi er á margan hátt hentugra og veldur minni röskun á vinnu og fjölskylduhögum. Eftir að hafa kynnt mér MBA-nám í fremstu skólum í heimi get ég staðfest að nemendur í MBA-nám við HÍ eru að fá virkilega góðan undirbúning.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »