Reynslusögur kvenna sem hættu að drekka eftir jólin

Það getur ýmislegt gerst hjá ofurkonum um jólin.
Það getur ýmislegt gerst hjá ofurkonum um jólin. mbl.is/Thinkstockphotos

Sumir halda því fram að raunveruleikinn slái öllum ævintýrum við. Að á bak við fallega skreytt húsin okkar í landinu búi flókin verkefni sem stundum tekur ævina alla að leysa úr. Hér segja þrjár fyrrverandi ofurkonur sögu sína. Þær koma fram undir nafnleynd af virðingu við fjölskyldur sínar. Það sem sameinar þær eru að nú eiga þær jól án áfengis. Þetta eru ósköp „venjulegar“ konur. Ef slíkar konur eru til. 

Þegar Holmegaard kom mér í gegnum jólin

„Í dag finnst mér sorglegt að lesa um ofurkonuna sem stýrir stóru fyrirtæki, á sex börn, bakar laufabrauð og gerir átta sortir fyrir jólin. Þá sem gefur út barnabók með jólabókaflóðinu, gengur á fjöll um helgar á aðventunni og vaknar til að stunda crossfit fimm daga vikunnar. Þetta er konan sem fer í messu á aðfangadagsmorgun, eldar jólamatinn og sest svo prúðbúin við matarborðið á slaginu sex þegar RÚV hringir inn jólin.

Mér finnst það sorglegt því þetta er sagan af mér.

Ég bjó í stóru fallegu húsi, með tveimur börnum og dásamlegum eiginmanni sem var yfirmaður hjá hinu opinbera. Það þótti mér mjög flott enda mikið fyrir öryggi og jákvætt álit annarra. Ég byrjaði alltaf óvenjusnemma að undirbúa fyrir jólin. Við áttum mikið af jólaskrauti sem ég hafði komið vandlega fyrir úti í bílskúr.

Ég man að ég átti dásamlega Holmegaard-púrtvínsdagatalsflösku sem ég pakkaði alltaf þannig að hún stæði fremst þegar ég fann skrautið. Flöskunni fylgdu agnarsmá púrtvínsglös og hefðin var síðan að fá sér eitt staup (hóst hóst) hvern dag á aðventunni.

Ég veit ekki hvað það var þessi jólin, en ég hafði sjaldan eða aldrei verið jafn glöð að sjá Holmegaard-flöskuna. Ég fór strax inn í eldhús og fyllti á hana, drakk eitt staup og fór síðan aftur í skúrinn.

Inn á milli jólakassanna sá ég strax tvo stóra svarta ruslapoka sem ég ekki kannaðist við.

Eiginmaður minn var mikið jólabarn og átti það til að sanka að sér dóti eftir jólin svo ég taldi að í pokunum væri eflaust nýtt jólaþorp sem hann hefði fengið á afslætti eftir jólin í fyrra.

Ég skildi ekki þegar ég rak höndina ofan í pokann og tók utan um eitthvað sem virkaði eins og pylsa. Undir pylsunni stóð: extra soft dildo, síðan flæddu út úr jólapokanum hælaskór númer 44, risastórir kjólar, brjóstahaldari og gervibrjóst – svipur og handjárn. Ef þetta var poki jólasveinsins, þá var á hreinu að hann ætlaði að koma út úr skápnum þetta árið.

Það getur verið óheppilegt þegar karlinn er kominn í kjól …
Það getur verið óheppilegt þegar karlinn er kominn í kjól fyrir jólin. mbl.is/Thinkstockphotos

Ég nefndi þetta góss ekki við neinn en horfði á embættismanninn minn góða öðrum augum eftir atvikið. Hvenær fann hann tíma til að klæða sig í herlegheitin? Hann var vanur að fara aftur í vinnu strax eftir matinn og vinna fram á kvöld eins og enginn væri morgundagurinn.

Aðventan leið og ég var eins og í transi. Ég vildi ekki skemma jólin fyrir börnunum eða aðfangadagsmatinn fyrir tengdamömmu.

Hvernig gat eiginmaður minn gert mér þetta svona rétt fyrir jólin?

Á þessum tíma gerði ég allt fyrir jólin ein. Eitt af því sem við gerðum alltaf í upphafi sambúðarinnar var að skrifa kort til vina okkar með minningum um samveru það árið.

Ég sat eitt kvöldið fyrir þessi jólin með bunka af jólakortum fyrir framan mig og að sjálfsögðu Holmegaard-flöskuna góðu, sem var orðin eins og minn besti vinur. Ég fékk mér þrjú staup af púrtvíninu og lét sem ég sæi ekki að ég var komin niður að þorláksmessu í dagatalinu.

Ég opnaði einnig góða hvítvín því mig langaði að hafa það virkilega huggulegt þarna um kvöldið. Mér hefur alltaf þótt frekar erfitt að muna allar sögurnar ein en það kom eitthvað yfir mig þetta kvöldið og ég skrifaði eins og vindurinn.

Þegar ég vaknaði morguninn eftir mundi ég ekki helmingin af því sem ég hafði skrifað í jólakortin. Við hlið fallegra umslaganna sem ég hafði lokað samviskusamlega stóðu tvær tómar vínflöskur.

Ég fór með umslögin á pósthúsið og komst í gegnum restina af verkefnum jólanna á þremur Holmegaard-dagatölum.

Þegar jólin voru hringd inn klukkan sex þetta árið var allt orðið fullkomið.

Ég hafði keypt mér nýjan kjól, iitala-skálar á jólaborðið, farið í tíu verslanir til að finna réttu servíetturnar.

Jólin mín í dag verða aldrei jafn fullkomin í ramma. Ég hætti að drekka eftir þessi jólin og hef haldið mig við það. Skilaði karlinum og verð nú ein erlendis á skíðum um jólin. Ég sendi í mesta lagi hugheilar jólakveðjur í gegnum Facebook þetta árið. Ég hef á undanförnum árum verið erlendis um jólin. Í skilnaðargjöf gaf ég eiginmanni mínum Holmegaard-dagatalsflöskuna góðu. Ég hef ennþá ekki fundið leið til að treysta karlmanni aftur. En ég á stefnumót við mig um jólin.“

Það getur verið afslappandi að fara á skíði um jólin.
Það getur verið afslappandi að fara á skíði um jólin. mbl.is/Unsplash

Straujaði mig inn í meðferð eftir jólin

„Allt frá því ég var lítil upplifði ég þyngsli fyrir jólin. Ég er alin upp á heimili þar sem pabbi átti það til að drekka ótæpilega. Jólin voru honum alltaf erfiðust. Eftir að ég fór að heiman sjálf ákvað ég að það skyldi aldrei drukkið á mínu heimili um jólin. Ég bjó í litlum fallegum bæ úti á landi; var hamingjusamlega gift mínum sem vann að hluta til erlendis og saman áttum við þrjú dásamleg börn.

Ég hélt mér alltaf frá áfengi og hafði í raun og veru aldrei fundið á mér. En þegar ég komst að ástarævintýri sem eiginmaðurinn átti í fjarlægu landi var eins og eitthvað brysti innra með mér og ég fór að finna leiðir til að flýja.

Á þessum tíma og enn þann dag í dag elska ég að þrífa og strauja. Þetta var á þeim tíma sem bjórinn kom til landsins. Áður en ég vissi af var ég farin að fá mér bjór á kvöldin á meðan ég var að strauja og upplifði þá dásamlegan létti frá öllu því sem var að í lífi mínu. Ég faldi þetta fyrir uppkomnum börnum mínum. Ég straujaði allt sem ég fann á heimilinu; fatnað, viskustykki, rúmföt og í raun og veru allt sem gat lagst undir járnið. Það tók mig örfá ár að strauja mig inn í meðferð á Vogi. Að setja tappann í flöskuna er það besta sem ég hef gert í lífínu.

Fyrrverandi ofurkona straujaði sig inn í meðferð eftir jólin.
Fyrrverandi ofurkona straujaði sig inn í meðferð eftir jólin. mbl.is/Unsplash

Ég veit ekki hvort tilfinningin um pabba hættir að koma upp um jólin, en ánægjan af því að vera til staðar fyrir mig og þá sem ég elska mest yfirvinnur allt annað. Ég á stefnumót við gildin mín á aðventunni. Sagan um duglegu konuna sem var alltaf að strauja á ennþá sérstakan stað í hjarta mínu. Konuna sem hafði sem barn fundið friðinn um jólin við að hafa allt fínt og straujað fyrir pabba.“

Örlagaríkur koss úti á plani eftir Þorláksmessu

„Mig hafði alveg frá því ég man eftir mér dreymt um að veita börnunum mínum eitthvað sem ég hafði aldrei fengið. Mig langaði í stóra fjölskyldu, hvítt og fallegt hús, heimilislegan húsföður, börn, hund og fullt af vinum.

Ég var sjálf mikið ein sem barn. Mamma var einstæð móðir og átti fjölskyldu utan af landi svo við vorum mikið einar og hún alltaf að vinna.

Á fertugsaldrinum uppskar ég það sem ég hafði sett mér. Ég var í flottri vinnu, átti skemmtilegar vinkonur og dásamlegan eiginmann, sem var aðeins goslaus en ferlega góður. Hversdagslífið gat stundum verið þrúgandi fyrir konu eins og mig. Ímyndið ykkur hávaðann í tveimur börnum, hundi og eiginmanni.

Það getur ýmislegt gerst hjá ofurkonum sem missa tökin fyrir …
Það getur ýmislegt gerst hjá ofurkonum sem missa tökin fyrir jólin.

Ég sökkti mér í vinnu og hafði svigrúm til að sækja frístundir og fara út að skemmta mér með vinkonunum um helgar. Þetta var eina leiðin sem ég kunni til að flýja þessa tómleikatilfinningu sem kom alltaf yfir mig þegar ég settist niður án verkefna.

Eitt skiptið á Þorláksmessu fyrir sjö árum fór ég í bæinn og hitti vinnufélagana eins og tíðkaðist í mínu lífi á þessum tíma. Vinnan ætlaði að hittast á veitingahúsi í miðbænum. Ég man ekki hvað kom yfir mig, en þetta árið var allt eitthvað svo dásamlega tilbúið fyrir jólin heima að ég sleppti mér alveg um kvöldið. Ég man að ég var pínu ánægð með mig, í góðu formi eftir alla útivistina með stelpunum. Ég hafði keypt mér jólakjól, sett upp á mér hárið og drukkið smávegis vín um daginn. Í vinnunni var alltaf boðið upp á léttvín seinni hluta dags á Þorláksmessu og síðan hist seinna um kvöldið fyrir þá sem vildu halda áfram um kvöldið.

Það var eins og einhver hefði tekið yfir líkama minn þetta kvöld. Ég fékk mikla athygli frá karlmönnum og dansaði og skemmti mér konunglega. Ég hitti ungan mann sem var ótrúlega huggulegur. Hávaxinn, herðabreiður og með fallegt bros. Hann elti mig á milli staða allt kvöldið og ég varla man alla vitleysuna okkar á milli þarna um kvöldið.

Við tókum leigubíl saman heim og komumst að því að við bjuggum í sömu götunni. Hann hafði flutt tímabundið heim til foreldra sinna í þar næsta húsi. Við enduðum á því að fara í sleik í innkeyrslunni fyrir framan húsið mitt og ég man að hann gargaði á eftir mér að ég svæfi ekki hjá manninum mínum þetta kvöldið!

Á aðfangadagskvöld daginn eftir sat ég með sting í maganum, ásamt börnunum mínum og eiginmanninum, sem hafði fyrirgefið mér djammið daginn áður. Ég ákvað þetta kvöld að setja tappann í flöskuna og skoða hvað væri eiginlega í gangi hjá mér.

Ég var með hausverk og ógeðslegt samviskubit yfir kvöldinu áður. Hver var þessi kona? Hvaðan kom hún?

Eftir margra ára sjálfsvinnu, trúnaðarsamtöl og uppgjör við eiginmanninn og áfram tappann í flöskunni hef ég náð að skilja að unga konan úti á plani átti ekki meira skilið. Að læra að elska mig þegar vel gengur hefur verið erfitt, að læra að elska mig þegar ég geri svona mistök er jafnvel ennþá erfiðara þótt þaðan komi minn mesti bati.

Þorláksmessa verður alltaf áminning um hvað gerðist hér á árum áður. Ég horfi á eiginmann minn fyrir jólin og mun aldrei gleyma að þetta er maðurinn sem ég á raunverulega skilið. Maðurinn sem hefur aldrei farið!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál