„Verðum að muna að breytingar eru erfiðar“

Viktoría hefur verið á námskeiðinu: Hættu að væla, komdu að …
Viktoría hefur verið á námskeiðinu: Hættu að væla, komdu að kæla. Hún segir það nýtast henni m.a. í vinnunni.

Viktoría Jensdóttir starfar á verkefnastofu Össurar (e Global Program Management Office (GPMO)) þar sem verkefni verða til er styðja við stefnu og vöxt fyrirtækisins. Þegar hún er spurð um námskeiðið sem breytti lífi hennar koma fjölmörg námskeið upp. Enda hefur hún farið á mörg námskeið um ævina. 

„Mér finnst mikilvægt að stíga út fyrir þægindarammann og læra nýja hluti til þess að endurmennta mig. Ég hef farið á mörg námskeið í tengslum við Lean Ísland til þess að læra um hvernig er hægt að ná umbótamenningu í fyrirtækjum. Einnig tók ég markþjálfunarnám sem hjálpaði mér mikið sem stjórnandi. En það nám sem hefur haft hvað mest áhrif á mig var þegar vinkona mín, Sylvía Ólafsdóttir, forstöðumaður hjá Icelandair, dró mig með sér á námskeið út í Toronto.“

Viktoría segir að þær vinkonurnar hafi á þessum tíma verið báðar í nýjum störfum og vildu læra eitthvað nýtt.

„Við vildum aðeins fríska upp á okkur. Námskeiðið hét Business Improve og var haldið af aðal „improve“-staðnum „The Second City“ sem hefur gefið af sér marga fræga grínista. Á þessu námskeiði lærði ég aðallega tvennt sem hefur haldist í mér og það er að hætta að segja „nei“ og „já en“. Aðalreglan er að byggja á öðrum hugmyndum og segja „já og“. Þegar teyminu er treyst og þetta er gert þá gerast algjörir galdrar. Annað sem ég lærði á þessu námskeiði er mikilvægi þess að sjá fyrir sér hina ýmsu atburði (e. scenario). Þannig að ef þú lendir í einhverjum erfiðum aðstæðum þá ertu ekki að gera hlutinn í fyrsta skipti heldur ert búin að fara í gegnum atriðið og æfa þig.“

Viktoríu finnst mikilvægt að stíga út fyrir kassann reglulega.

„Ég er að klára námskeið núna sem heitir: Hættu að væla, komdu að kæla. Það er búið að þrykkja mér aldeilis út fyrir þægindarrammann og hefur tekið verulega á. En ég komst í gegnum það og lærði hvernig heilinn minn og líkami tekst á við breytingar og erfiðar aðstæður. Þetta er vel hægt að heimfæra yfir á þegar verið er að vinna í breytingarverkefnum því maður gleymir oft þegar maður er að breyta öðrum að breytingar eru erfiðar.“

mbl.is