Ólétt og grátandi á nýársdag

Gunna Stella heilsumarkþjálfi segir mikilvægt fyrir fólk að lifa í …
Gunna Stella heilsumarkþjálfi segir mikilvægt fyrir fólk að lifa í jafnvægi.

„Nú er komin nýr áratugur, nýir tímar. Á þessum tíma fyrir tíu árum var settur dagur hjá mér með annað barnið mitt. Ég man eftir þeim áramótum eins og gerst hafi í gær. Ég var kasólétt. Algjörlega að springa. Á gamlárskvöld fengum við fólk í mat. Ég stússaðist í eldhúsinu lengi vel, eldaði, vaskaði upp og vakti langt fram á kvöld. Á nýársmorgun vaknaði ég, ryksugaði húsið og gekk frá eftir gamlárskvöld og fór svo í mæðraskoðun. Þar var ég kyrrsett. Með allt of háan púls og allt of háan blóðþrýsting eftir jóla- og gamlárskvöldsatið. Ég fékk að fara heim eftir að þeir sáu að blóðþrýstingurinn lækkaði við hvíld en fékk þær leiðbeiningar að ég mætti ekki gera neitt. Ég ætti að taka því rólega og sitja, lesa, horfa á sjónvarpið og bara vera. Vitið þið hvað ég gerði. Ég fór heim og fór að grenja. Mér fannst ömurlegt að mega ekki gera neitt,“ segir Gunna Stella heilsumarkþjálfi í sínum nýjasta pistli: 

Þegar ég hugsa um þennan tíma þá hristi ég hausinn yfir því hvernig ég lét. En málið er að þarna var ég svo háð því að vera stanslaust að gera, framkvæma, koma einhverju í verk að ég kunni ekki bara að vera. 

Hluti af vegferð minni í átt að einfaldara líf er að læra að vera. Ég er svo langt frá því að vera orðin fullkomin í því, en ég er á vegferð. Ég held að hluti af vandamálum nútímamannsins sé að það er mjög mikill hraði í þjóðfélaginu. Það er svo mikið að gera hjá öllum. Ef við erum spurð hvernig við höfum það þá er svarið oft „bara fínt, bara brjálað að gera“. Það skiptir ekki máli hvort við erum unglingar í framhaldsskóla, nýir foreldrar, fólk í háskóla, fullorðið fólk, framkvæmdastjórar, leikskólakennarar, Ameríkanar, Íslendingar… það hafa allir brjálað að gera. Þess vegna held að ég það hafi verið að sumu leyti gott fyrir okkur að fá svona mikinn lægðagang yfir landið okkar. Allt í einu höfum við ekki stjórn og þurfum að lúta veðrinu. Það er góð æfing í því að vera. 

Rithöfundurinn John Ortberg vísar í það hvernig hann hafði brjálað að gera og var kominn á kaf í vinnu. Allt leit vel út á yfirborðinu en innst inni leið honum ekki vel, var ekki sáttur. Á þessum tíma hringdi hann í góðan vin sinn Dallas Willard sem er líka rithöfundur og spurði hann hvað hann ætti að gera. Á hinni línunni kom löng þögn þangað til Dallas Willard sagði „Þú þarft miskunnarlaust að útrýma flýti úr lífi þínu“. John Ortberg skrifaði þetta niður og spurði aftur. En er eitthvað meira? Þá kom aftur löng þögn þangað til Dallas Willard sagði:

„Nei, það er ekkert annað. Flýtir er mesti óvinur andlegs lífs á okkar dögum. Þú þarft miskunnarlaust að útrýma flýti úr lífi þínu.“

Það er svo mikið til í þessum orðum. Ég upplifi mig á þessum stað. Ég þarf að útrýma flýti úr lífi mínu. Ég þarf að læra að vera. Ég er komin lengra en ég var á nýársdag árið 2010 þar sem ég grét yfir því að þurfa að slappa af, kasólétt. Í dag er ég farin að njóta kyrrðarinnar, njóta þess að sitja kyrr, lesa bók, drekka kaffibollann minn en stundum á ég það til enn þá að flýta mér of mikið. 

Í lok hvers árs geri ég upp árið sem er að líða og skoða á hvað ég vil fókusa á nýju ári. Ég vel mér alltaf orð sem ég vil einblína á. Einn daginn var ég að keyra og var ein í bílnum (sem er sjaldgæft). Ég fór að hugsa um hvaða orð ég vildi fókusa á fyrir árið 2020 og allt í einu hoppaði orðið jafnvægi í huga mér. Þetta orð sat svo fast að ég vissi það á þeirri stundu að þetta var orðið mitt. Orðið sem ég þurfti að hafa í huga. Þegar ég fór að skoða það betur áttaði ég mig á því að það er mjög margt sem ég þarf að læra að hafa í jafnvægi. 

En hvernig lítur jafnvægi út? Í upphafi árs sé ég fyrir mér að ég þurfi að ná jafnvægi á þessum sviðum. 

  1. Jafnvægi á milli þess að þjóta og njóta.
  2. Jafnvægi á milli vinnu og hvíldar.
  3. Jafnvægi á milli samveru og einveru.
  4. Jafnvægi á milli þess að vera heima og ferðast.
  5. Jafnvægi á milli þess að borða hollt og minna hollt.
  6. Jafnvægi á milli bænar og þagnar.
  7. Jafnvægi á milli þess að skrifa og lesa.
  8. Jafnvægi á milli þess að vera sítengd og aftengd netheiminum.
  9. Jafnvægi á milli fjölskyldutíma og stefnumóta með eiginmanninum.
  10. Jafnvægi á milli hreyfingar og hugleiðslu.

Og síðast en ekki síst, jafnvægi á milli þess að segja já og nei! 

Í dag finnst okkur það vera ókostur ef hlutirnir gerast hægt. Ef við fáum ekki svar strax við tölvupóstinum. Ef við þurfum að bíða of lengi eftir mat á veitingahúsi. Ef við þurfum að standa of lengi í röð. En ég held að við þurfum að læra að bíða og vera. Þegar við stöndum í biðröð, eða lendum á eftir bíl sem keyrir hægt gæti það verið gott tækifæri fyrir okkur til að vera. Læra að bíða og taka eftir því sem gerist í kringum okkur án þess að fara í símann. 

Við heyrum fólk svo oft segja „bara gott, bara brjálað að gera“ að við erum farin að halda að það sé bara allt í lagi. Það sé gott. Allir eru hvort sem er uppteknir og hafa brjálað að gera. En hvað ef það að hafa brjálað að gera er ekki hollt fyrir okkur? Hvað ef það er eins og smitsjúkdómur sem smitast manna á milli og er hættulegur fyrir okkur. 

Í hraða sýni ég ekki elsku, í hraða sýni ég ekki þolinmæði, í hraða hlusta ég ekki á náungann og gef fólki tíma. 

Þess vegna er eitt af mínum atriðum á jafnvægislistanum að hafa jafnvægi á milli þess að þjóta og njóta og vera og gera. Þá verð ég kærleiksríkari, þolinmóðari í alla staði. 

Hvernig myndi þinn jafnvægislisti líta út? Ég hvet þig til að skoða málið. Ég mun fjalla oft um jafnvægi á árinu á samfélagsmiðlum. Þú getur fylgst með á Instagram og Facebook. Hlakka til að sjá þig þar! 

mbl.is